Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:23:55 (5383)

2000-03-16 11:23:55# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:23]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna það í upphafi míns máls að nokkuð er þessi umræða komin út af sporinu. Ég ætla að reyna að gera mitt til þess að færa hana aftur að kjarna málsins eins og mögulegt er en get þó ekki látið hjá líða að benda hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á að það er auðvitað ýmislegt annað hægt að fást við á Suðurnesjum en að vinna fyrir herinn eins og við vitum bæði og m.a. er öflugt starf Íslands innan Schengen-samstarfsins, þar sem við verðum útvörður, þáttur í því að efla atvinnulífið þar m.a. Þetta er nú bara létt ábending í upphafi máls míns.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu efni við það að bæta sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði í upphafi umræðunnar en ég verð að segja eins og er, herra forseti, að maður hættir seint að undrast hér á 125. löggjafarþingi Alþingis. Ég er enginn lögspekingur en hér rekur hvert frv. annað sem maður hreinlega skilur ekki hvers vegna er komið fram. Mér fannst hæstv. utanrrh. ekki skýra nægilega vel í framsögu sinni áðan hver væri hinn raunverulegi tilgangur þessa frv. og þætti mér vænt um að fá aðeins nánari skýringar á því hjá hæstv. utanrrh.

Samt sem áður verð ég að viðurkenna það líka, herra forseti, að auðvitað er þetta svolítið í stíl hæstv. ríkisstjórnar. Hér er bráðabirgðaákvæði sem mér sýnist orka tvímælis svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Nokkuð hefur hæstv. ríkisstjórn sérhæft sig í bráðabirgðaákvæðum og má þar t.d. benda á að til umfjöllunar í hv. umhvn. er frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum. Þar hefur einnig verið sett inn bráðabirgðaákvæði, og virðist þetta nú orðið ansi oft notað ráð hjá hæstv. ríkisstjórn við samningu frumvarpa.

Annað er að, eins og fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, vissar væntingar standa til íslenskra yfirvalda varðandi þetta mál. Á það var bent að í nýjasta fréttabréfi Eimskipa má m.a. lesa tilvitnun, sem farið var í áðan, í orð stjórnarformanns þess ágæta fyrirtækis. Þar kemur m.a. fram að Eimskip munu leita leiða til þess að áfrýja því dómsmáli sem gengið hefur í Bandaríkjunum og óþarft er að fara hér nánar í saumana á, enda hygg ég að flestum sem taki þátt í þessari umræðu sé fullkunnugt um hvað það snýst. Það er sem sagt verið að leita leiða til þess að áfrýja til hæstaréttar þar. Væri þá ekki ráð að bíða eftir þeim dómi eða hvað? Er brýn þörf á þessari lagasetningu vegna þessa máls? Það væri gaman að fá einhverjar skýringar á því. Ég get heldur ekki á mér setið með að reyna að bera hér saman við innlendar aðstæður enda hefur hæstv. ríkisstjórn marglýst því yfir að ekkert skuli aðhafst til að breyta fiskveiðistjórnarlögum vegna þess að beðið er niðurstöðu Hæstaréttar á Íslandi.

Þetta tiltekna mál er að mínu mati nokkuð einkennilegt. Ég hygg að ástæðuna sé að einhverju leyti að finna í þeim samningi sem gerður var við bandarísk stjórnvöld um þessa flutninga og þá snýr málið ósköp einfaldlega að hæstv. ríkisstjórn og því hvers vegna samningurinn var og er óskýr eins og hér hefur komið fram. Hvers vegna er þörf á að setja slík lög sem hæstv. utanrrh. hefur hér greint frá? Enn og aftur virðast vinnubrögðin einkennast af því að verið sé að byrgja brunn eftir að barnið er dottið í hann og að mínu viti að gæta hagsmuna sem ég fæ ekki séð að sé hlutverk löggjafarsamkundunnar að standa sérstakan vörð um. Þess vegna verð ég að segja eins og er, herra forseti, að mér þykir þetta nokkuð einkennilegt frv. Ég tek það þó fram að ég hef á þessu nokkurn skilning vegna veru minnar hér í vetur og vegna kynna minna af öðrum frv. sem frá hæstv. ríkisstjórn hafa komið. En mér finnst hins vegar að aðalefni þess gangi gegn grunnhugsuninni um frjálsa samkeppni og frjáls viðskipti á Íslandi.