Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:34:25 (5387)

2000-03-16 11:34:25# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, GE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:34]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég mun fara nokkrum orðum um þetta frv. Í fyrsta lagi ætla ég að ræða almennt um frv. Í öðru lagi ætla ég, með leyfi forseta, að ræða örlítið um tilvitnun í ársfund Eimskipafélagsins, í þriðja lagi um tilkynningarskyldu og verklagsreglur í 8. gr. frv., í fjórða lagi um undanþágu frá sköttum og gjöldum í 11. gr. og í fimmta lagi um bráðabirgðaákvæði I og II í frv.

Ég velti fyrir mér vegna orða hætsv. utanrrh. hverjar skyldur íslenskra yfirvalda séu gagnvart bandarískum yfirvöldum þegar verið er að fjalla um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Mér sýnist að það sé fyrst og fremst að virða rétt þeirra sem gert hafa samninga og í öðru lagi að gæta að jafnræði á milli aðila sem eru skilgreindir sem verktakar og eiga í viðskiptum við varnarliðið og að ákvæði og samningar standi sem gerðir hafa verið og í gildi eru.

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hlutverki utanrmn. varðandi umfjöllun um frv. Það sem hv. utanrmn. þarf að hafa í huga er í fyrsta lagi jafnræði, í öðru lagi sanngirni og í þriðja lagi að hlutur einstakra aðila verði ekki fyrir borð borinn. Það sem ég tel veigamest í þessu máli er hið síðasttalda.

Í þessu frv. eru einkum tekin til umfjöllunar viðskipti íslenskra verktaka við varnarliðið. Þetta eru ansi víðfeðm orð, þ.e. íslenskir verktakar. Þeir geta verið allt frá því að vera leigubílstjórar sem gera samkomulag um akstur og fólksflutninga á varnarsvæðinu ásamt alls kyns verktöku. Í mín eyru a.m.k. hafa komið kvartanir um mismunun á milli einstaklinga, vegna einstaklinga. Ég gæti tekið sem dæmi ákveðið mál sem ég var með til umfjöllunar fyrir þremur árum síðan. Ég læt það eiga sig, en ætla að ræða frv. almennt.

Ég fellst alveg á heimildir utanrrh. til að taka ákvörðun um aðgengi að varnarsvæðinu. Það er nauðsynlegt að ákvæði liggi hjá íslenskum yfirvöldum um ákvörðun um aðgengi.

Herra forseti. Ég vil eins og ég sagði áðan ræða aðeins um 11. gr. Hún fjallar um undanþágu frá sköttum og gjöldum. Ég tel að það eigi að vera þannig varðandi skattalagaákvæðin að öll störf --- og þætti mér nú vænt um, herra forseti, að utanrrh. hlustaði nú á það sem ég hef fram að færa --- sem lúta að þjónustu vegna veru varnarliðsins ættu að vera að fullu skattskyld til íslenska ríkisins samkvæmt lögum og reglum.

Herra forseti. Ég óska þess að hæstv. utanrrh. fari yfir frv. á eftir og skýri betur þau ákvæði sem ég er að fjalla um og spyr um. Ég fer ekki nákvæmlega ofan í hverja grein. Ég tel að hæstv. ráðherra sé fullkunnugt um hvað verið sé að fjalla um vegna þess að það kemur þannig út að ákveðnar greinar í frv. gætu á einhvern hátt falið í sér einokunarákvæði. Ef það er rétt skilið að um einokunarákvæði sé að ræða þá er verið að stíga skref aftur á bak.

Ég geld, herra forseti, sérstakan varhug við bráðabirgðaákvæði I og sérstaklega bráðabirgðaákvæði II og vil, með leyfi herra forseta, fara örlítið yfir þessi ákvæði eins og þau standa hér í frv. Ákvæði til bráðabirgða nr. I hljóðar svo:

,,Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal utanríkisráðuneytinu heimilt að tilnefna verktaka til samninga við varnarliðið án forvals og með óbreyttum kjörum vegna verklegra framkvæmda sem greiddar eru af bandarískum stjórnvöldum, í samræmi við samninga Íslands og Bandaríkjanna þar að lútandi.``

Ég þarf að fá aðeins útskýringu á þessari grein. Hvað er verið að fara með þessu bráðabirgðaákvæði?

Síðan kemur bráðabirgðaákvæði II sem er sérstaklega til þess fallið að vekja umhugsun um þessi mál, þ.e. einokun. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Áður en samningar samkvæmt lögum þessum, sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna og ekki hafa sætt forvalsmeðferð, koma til framlengingar er heimilt, að tillögu forvalsnefndar, að láta fara fram forval og tilnefna hæfa aðila samkvæmt III. kafla laganna. Framlenging slíkra samninga án undanfarandi tilnefningar er ógild og gilda ákvæði 3. og 4. mgr. 4. gr. um slík tilvik.``

Þarna eru hlutir á ferðinni sem ég vil tengja saman, herra forseti, við það sem ég tiltók sem annað atriðið sem ég vildi fjalla um í minni ræðu. Það varðar innhald plaggs sem var dreift fyrir fjórum dögum í hólf þingmanna. Þar stendur, með leyfi forseta, um þetta mál sem hér hefur verið fjallað um og margsinnis verið vakin athygli á í ræðum:

,,Eimskip er ósátt við niðurstöðu áfrýjunardómstóls frá því í byrjun þessa árs og hefur ákveðið að áfrýja málinu og mun leita eftir því að hæstiréttur Bandaríkjanna taki málið til úrskurðar.``

Síðan kemur það sem varð til þess að undirritaður hrökk við við yfirlestur þessa plaggs áður en undirritaður hafði kynnt sér frv. að nokkru marki.

,,Taldi stjórnarformaður eðlilegt að íslensk stjórnvöld fylgdu þessu máli vel eftir.``

Herra forseti. Þetta varð til þess að vekja tortryggni mína. Ég sé ástæðu til að hvetja til þess að samningar sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna haldi áfram gildi sínu og að bandarískum yfirvöldum sé heimilt að framlengja samningana samkvæmt ákvæðum þeirra án þess að til sérstaks forvals komi. Ég sé ekki ástæðu til annars en óska eftir því að hv. utanrmn. athugi þessi orð mín vel.

Ég vil að lokum í þessari stuttu ræðu spyrja hæstv. utanrrh. þriggja spurninga:

Í fyrsta lagi. Mun hæstv. utanrrh. beita sér fyrir því að þeir samningar sem eru í gildi fái að renna sitt skeið og þar með talið framlengingarákvæði?

Í öðru lagi. Er hæstv. utanrrh. tilbúinn að taka upp samkomulag um undaþágur Bandaríkjamanna frá sköttum? Þá á ég við það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar sem ég vona að hæstv. ráðherra hafi hlýtt á, að öll störf sem lúta þjónustu vegna veru varnarliðsins ættu að vera að fullu skattskyld til íslenska ríkisins. Ég er að ræða um þjónustustörf varnarliðsins og starfsemi Ratsjárstofnunar.

Í þriðja lagi kem ég að umsögn í ræðu stjórnarformanns óskabarns þjóðarinnar og tilmælum, sem ég nefndi hér áðan, um að íslensk stjórnvöld fylgi málinu vel eftir.

Ég spyr hæstv. utanrrh.: Er hann undrandi á því að þetta frv. um tiltekna varnarþætti og umrædd ræða sem ég hef vitnað til tvisvar sinnum vekji tortryggni? Í tilefni af þessum vangaveltum vaknar einnig sú spurning hvort hæstv. utanrrh. hafi rætt þetta mál sérstaklega við Eimskipafélagið.