Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:55:00 (5389)

2000-03-16 11:55:00# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef komið meginsjónarmiðum mínum á framfæri gagnvart þessu máli áður og ætla ekki að notfæra mér rétt minn til að halda aðra ræðu. Ég ætla hins vegar aðeins að hnykkja á nokkrum mikilvægum atriðum í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra.

Ég vísaði í minnisblað sem hæstv. ráðherra hafði látið starfsmenn sína senda ríkisstjórn Bandaríkjanna 24. febrúar og það minnisblað er ekki hægt að skýra öðruvísi en svo að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu hvött til að rifta samningum sem fyrir eru. Komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra að það er ekki meiningin og það er ágætt. Þá liggur það fyrir.

Sömuleiðis sagði hæstv. ráðherra að ekki væri ætlunin að grípa inn í gerða samninga og það er ákaflega mikilvægt að það liggi fyrir í lok þessarar umræðu. Í gerðum samningum er að finna einhliða ákvæði sem veitir stjórn Bandaríkjanna heimild til að framlengja þann samning sem núna er í gildi við þetta tiltekna skipafélag. Það hlýtur þá að felast í orðum hæstv. ráðherra að ekki sé ætlunin að reyna að fá stjórnvöld í Bandaríkjunum til að notfæra sér ekki þessa heimild. Ella hefði hæstv. ráðherra tæpast tekið svo til orða að ekki væri ætlunin að grípa inn í gerða samninga. Þetta finnst mér mikilvægt að fram komi.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hann talar um pappírsfyrirtæki og það er drjúgur kafli í ágætri greinargerð með frv. sem fjallar um pappírsfyrirtæki. Það liggur þó í augum uppi að það fyrirtæki sem við höfum nefnt til umræðunnar er með engu móti hægt að kalla pappírsfyrirtæki. Það hefur starfað í nokkur ár og sinnt hlutverki sínu með sóma. Meginhlutverk þess gagnvart okkur, neytendum á Íslandi, er að lækka vöruverð og það er það sem skiptir máli.

Að lokum, herra forseti, langar mig til að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra sem er svohljóðandi: Er Atlantsskip eina fyrirtækið sem þetta frv., ef að lögum verður, kann að hafa áhrif á?