Skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:18:44 (5399)

2000-03-16 12:18:44# 125. lþ. 81.3 fundur 452. mál: #A skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu# (EES-reglur) frv. 57/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við teljum að Löggildingarstofan sé hæfust til þess að taka að sér þetta hlutverk. Við teljum að hún fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru til slíkrar stofnunar og treystum henni fyllilega til þess. Að okkar mati verður það fyrst og fremst að byggjast á því hvað við teljum í þessum efnum og höfum ekki borið það neitt sérstaklega undir þá aðila sem eiga að taka við tilkynningum frá okkur.

Ef eitthvað annað kemur í ljós í framtíðinni, er að sjálfsögðu hægt að gera þar breytingu á en ég tel enga ástæðu til þess að ætla það. Hér er um að ræða stofnun sem er fyrir hendi í íslenska stjórnkerfinu og hefur alla burði til að taka þetta að sér og það er langhagkvæmast á allan hátt að koma því þar fyrir. Það er rétt sem hv. þm. sagði að það verður auðvitað gert í umboði utanrrn. og það er byggt á því að við höfum fullt traust á þessari stofnun.

Um kostnað er það að segja að álitið er að þessi upphæð muni nægja. Ég skal ekkert fullyrða um það hvort annað eigi eftir að koma í ljós í framtíðinni. Auðvitað er þetta alþjóðlega samstarf að vinda upp á sig og alþjóðleg viðskipti eru að aukast og við gerum okkur ekki fyllilega grein fyrir því hvað þetta getur orðið umfangsmikið í framtíðinni. Við núverandi aðstæður telja menn að einn starfsmaður eigi að anna því að sinna þessu verkefni og kostnaðaráætlunin er byggð á því.

Hvað varðar tvíverknað er alveg ljóst að þessar stofnanir, annars vegar Evrópustofnanirnar og hins vegar Alþjóðaviðskiptastofnunin, gera mismunandi kröfur og mismunandi samningar eru þar í gangi. Alþjóðaviðskiptastofnunin verður sífellt umfangsmeiri stofnun. Þar hafa verið gerðir miklir samningar en hins vegar brást það á fundinum í Seattle að ganga frá mjög mikilvægum samningum sem hefðu m.a. varðað þetta viðfangsefni. En ég geri ráð fyrir því að í nánustu framtíð verði gengið til nýrrar lotu og gengið frá því máli.

Nú skal ég ekki fullyrða um það hvernig þessi mál þróast í framtíðinni. Vonandi þróast þau í þá átt að það verði jafnvel nægilegt að Alþjóðaviðskiptastofnunin hafi ein umsjón með öllum slíkum málum því að alþjóðaviðskiptin þurfa að komast í þann farveg að þau séu sambærileg og þau séu samræmd. Þannig er það ekki í dag og meðan það ástand ríkir verður ekki hjá því komist að vinna þetta þannig, þ.e. annars vegar á grundvelli samningsskuldbindinga okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar á grundvelli samningsskuldbindinga okkar gagnvart WTO eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni.