Endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 12:25:28 (5401)

2000-03-16 12:25:28# 125. lþ. 81.4 fundur 377. mál: #A endurskoðun viðskiptabanns á Írak# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[12:25]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég leyfi mér eina ferðina enn að mæla fyrir till. til þál. um endurskoðun viðskiptabannsins á Írak. Flutningsmenn að tillögunni ásamt mér eru hv. þingmenn Margrét K. Sverrisdóttir, Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson.

Þetta mun vera, herra forseti, í fimmta sinn sem þessi þáltill. er flutt lítt breytt eða óbreytt. Tillgr. er stutt og svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að viðskiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.``

Herra forseti. Eins og áður sagði er verið að endurflytja tillögu sem oft áður hefur verið hreyft. Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er að málið hefur aldrei orðið útrætt á þingi og reyndar aldrei verið afgreitt frá hv. utanrmn. Verður að segja að það er flutningsmanni og væntanlega öllum flutningsmönnum talsverð vonbrigði að mál af þessu tagi skuli geta legið fyrir þinginu árum saman án þess að fá afgreiðslu.

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að ástand mála í Írak hefur síst skánað. --- Ég ætla að forvitnast um hvort hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur áframhaldandi umræður um utanríkismál sem eru á dagskrá. Geri ég að sjálfsögðu engar athugasemdir þó hæstv. ráðherra þurfi að bregða sér frá, en vildi a.m.k. vita af því ef hæstv. ráðherra er á förum.

Ástandið í Írak, herra forseti, hefur síst skánað og tala látinna af völdum hungursneyðar, lyfjaskorts og af öðrum ástæðum hækkar jafnt og þétt. Til marks um hversu alvarlegt þetta ástand er má nefna að nú nýverið sagði æðsti yfirmaður Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, Hans von Sponeck, yfirmaður hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna í Írak, af sér eftir að hafa árangurslaust um margra mánaða og missira skeið hvatt til þess að viðskiptabanninu yrði aflétt. Hans von Sponeck telur tekjur Íraka af takmarkaðri olíusölu engan veginn duga fyrir nauðþurftum þessara 22 milljóna þjóðar.

Í skýrslu Kofis Annans, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til 51. fundar allsherjarþingsins kemur fram að um 4 milljónir Íraka, aðallega börn undir fimm ára aldri væru hrjáðar af vannæringu. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í Morgunblaðsgrein eftir framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands í mars 1998 var áætlað að um 80% þjóðarinnar hefðu litlar sem engar tekjur. Læknisþjónusta og starfsemi sjúkrahúsa er í lágmarki og heilsufari þjóðarinnar hrakar að sama skapi.

Írakar hafa búið við nær algert viðskiptabann í um áratug. Um 1,5--1,7 milljónir manna hafa látist í kjölfar bannsins, meiri hlutinn börn. Þessar mannfórnir eru þar með orðnar með því mesta sem orðið hefur hjá einni þjóð frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Herra forseti. Hans von Sponeck er ekki einn um það af þeim sem gjörþekkja til ástandsins í Írak að segja af sér embætti og treysta sér ekki til að bera ábyrgð á framkvæmd viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna á þessu svæði. Forveri hans í embætti, Denis Halliday, sem var þá einn af reyndustu, háttsettustu og virtustu yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði sagði af sér embætti af nákvæmlega sömu orsökum og hefur síðan gerst einn ötulasti talsmaður þess að þessu misheppnaða viðskiptabanni verði aflétt. Nokkrum dögum eftir að Hans von Sponeck sagði af sér, sagði næstæðsti eða einn af æðstu yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, Jutta Burghart, virtur austurrískur erindreki Sameinuðu þjóðanna einnig af sér embætti af sömu ástæðum og fleiri mætti þar til nefna.

Allt þetta fólk og fjölmargir fleiri hafa barist ötullega fyrir því að þessu viðskiptabanni verði aflétt, að því hörmungarástandi sem þarna er að valda miklum mannfórnum verði aflétt. Að Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríkin sjái að sér, horfist í augu við það að viðskiptabannið á Írak er ekki að skila tilætluðum árangri, þ.e. þeim að koma ógnarstjórn Saddams Husseins frá völdum heldur þvert á móti situr hann sem fastast og margir telja að einmitt viðskiptabannið hafi auðveldað honum að halda heljargreipum sínum á þessari hrjáðu þjóð.

[12:30]

Herra forseti. Nú er svo komið að það eru fyrst og fremst tvær þjóðir sem styðja þetta viðskiptabann í krafti sterkrar stöðu sinnar, þ.e. Bandaríkjamenn og Bretar, og því orka menn ekki að fá því aflétt. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort Ísland geti ekki a.m.k. lagt sitt lóð á aðrar vogarskálar en þær sem þessi tvö ríki ein hafa kosið að velja. A.m.k. er hart við það að búa ef starfhættir á hinu háa Alþingi eru þannig að það taki næstum áratug og kannski takist það aldrei að fá fram afstöðu Alþingis í þessu efni. Viljum við eða viljum við ekki að atkvæði Íslands og rödd Íslands á alþjóðavettvangi sé skýr í máli af þessu tagi? Hvað vill meiri hluti alþingismanna? Vill hann að Íslendingar styðji þetta viðskiptabann og beri ábyrgð á því og afleiðingum þess --- og ég minni á að við höfum fyrir okkar leyti fullgilt það með auglýsingum hér á heimavettvangi --- eða viljum við fela talsmönnum okkar á alþjóðavettvangi og þar með talið auðvitað ekki síst hæstv. utanrrh., að beita sér fyrir breytingu í þessum efnum? Það er allt og sumt, herra forseti, sem hér er verið að fara fram á.

Ég spyr einnig, herra forseti: Er ekki möguleiki að fá menn til þess að endurmeta afstöðu sína til þessa máls, hæstv. utanrrh., sem hefur auðvitað fylgst með framgangi mála á þessu svæði og verður eins og við öll hin að horfast í augu við að þarna hafa hlutirnir orðið allt aðrir en ætlað var? Þegar sá sem hér talar flutti í fyrsta sinn tillögu um að aflétta þessu viðskiptabanni eða a.m.k. að framkvæmd þess yrði endurskoðuð, þá voru þær raddir út af fyrir sig ekki mjög margar. Það skal viðurkennt, enda kannski ekki orðið jafnljóst og nú er hvaða afleiðingar það væri að hafa. En þetta hefur breyst og ég leyfi mér að fullyrða að nú sé svo komið að hinar raddirnar sem reyna enn þá að mæla þessu bót séu að verða einangraðar og fáar.

Ég hreyfði þessu máli á vettvangi Norðurlandaráðs fyrir tveimur, þremur árum síðan, herra forseti, og þar leit lengi vel út fyrir mjög góða samstöðu um að Norðurlandaráð ályktaði og beindi til ríkisstjórna Norðurlandanna mjög sambærilegum texta og þeim sem hér er fluttur í tillöguformi. Það var ekki fyrr en komið var til umræðna um tillögu frá forsætisnefnd um að afgreiða málið með mjög jákvæðum hætti sem andstaða birtist við það. Og hvaðan halda menn að hún hafi komið, herra forseti. Hún kom úr röðum íhaldsmanna frá Íslandi. Það voru í raun einu raddirnar sem upp komu og dugðu reyndar til þess að koma í veg fyrir að Norðurlandaráð tæki afstöðu í málinu svipað og hér er lagt til.

Herra forseti. Vegna þess hversu gamalkunnugt þetta mál er ætla ég ekki lengja hér um það umræður. Ég tel mig í raun ekki þurfa að eyða löngum tíma í að rökstyðja að ástand það sem þarna viðgengst getur ekki gengið. Alþjóðasamfélagið er á himinhrópandi villigötum ef það heldur þessu viðskiptabanni til streitu, liggur mér við að segja, í rauninni algerlega burt séð frá því hvaða þjóðréttarlegar eða pólitískar réttlætingar sem menn telja sig hafa haft fyrir því á sínum tíma og/eða hafa jafnvel enn. Ástandið er ósköp einfaldlega þannig í þessu landi að við getum ekki horft á það viðgangast. Það er algjörlega sambærilegt hvað neyð almennings, hungursneyð, barnadauða og aðra slíka hluti varðar við það sem t.d. vofir yfir í Mósambík og veldur því að alþjóðasamfélagið er núna að grípa til umfangsmikilla hjálparaðgerða þar. Ég sé ekki að mönnum sé nokkur kostur að standa samtímis þannig að málum að þar sem náttúruhamfarir valda neyð og yfirvofandi hungursneyð eða mannfórnum, komi menn með hjálparhönd sem að sjálfsögðu er gott og rétt, en réttlæti hins vegar slíka hluti með því að tiltekin þjóð hafi verið svo ógæfusöm að hafa yfir sér harðstjóra þegar ljóst er að menn eru ekki að ná neinum minnsta árangri í því að koma honum frá völdum með þeim aðgerðum sem beitt er. Ég skal fúslega viðurkenna að ég tel að menn hafi vel getað rökstutt og haft þá skoðun á fyrstu árunum eftir Flóabardaga að á það mætti láta reyna hvort unnt væri með þessum hætti að einangra á alþjóðavettvangi og koma frá ógnarstjórn Saddams Husseins. En ég tel að sá reynslutími sé fyrir löngu liðinn og miklu meira en það, herra forseti. Viðskiptabannið hefur varað í áratug og það er ekkert fararsnið á Saddam Hussein og hann og stjórnarflokkur hans sem einn öllu ræður í Írak, virðast hafa ef eitthvað er enn öflugri tröllatök á þessari stríðsþjáðu þjóð en fyrr.

Saga Íraks á síðustu áratugum eða síðustu 15, 20 árum, herra forseti, er mikil sorgarsaga, mikil ógæfusaga. Í Írak var þróaðasta þjóð Miðausturlanda sem bjó við bestu lífskjör, fyrir utan þá Ísrael, og háþróaðasta atvinnulíf og samfélag á margan hátt. Þar var t.d. heilbrigðisþjónusta slík að hún nálgaðist að standast fullan samanburð við það sem vestrænar kröfur gera enda voru Írakar þjóð sem naut mikillar velvildar á Vesturlöndum og var studd af vestrænum ríkisstjórnum allt fram á mánuðina fyrir Persaflóastríðið. Ríkisstjórn Íraks og Saddams Husseins naut sérstakrar velvildar Bandaríkjamanna og Breta á meðan þeir stóðu í hernaðinum við óvininn sem búið var að skilgreina í Miðausturlöndum sem númer eitt, þ.e. Íran. Á þeim tíma dældu ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands einkum og sér í lagi, en fleiri Vesturlandaþjóða, fjármagni og hergögnum til Íraks. Það er því ekki svo, herra forseti, að Vesturlönd beri enga ábyrgð á því ástandi sem þarna er. Það er nú ekki svo. Sagan leiðir annað í ljós og margir telja að í raun hafi átt sér stað ótrúlegir hlutir í alþjóðasamskiptum þegar Vesturlönd sneru skyndilega við blaðinu og hófu styrjöld gegn Írak og telja að Írakar hafi haft ástæðu til að ætla að þeir ættu allt öðru að mæta mánuðina áður en styrjöldin hófst.

En hvað sem þeirri sögu allri líður --- það verður óðum viðfangsefni sagnfræðinga að draga þá hluti fram í dagsljósið og ég óttast nú að hlutur margra Vesturlanda teljist þá ekki ákaflega góður svo sem þeirra sem hafa haft hvað mestar áhyggjur af því að Írakar kynnu að koma sér upp efnavopnum, þ.e. sömu þjóða og aðstoðuðu Írak við að ná tökum á þeirri tækni á meðan Írak stóð í hernaðinum við Íran --- þá held ég að við eigum að hafa þann þroska til að bera að slá striki yfir slíkt, hvaða afstöðu sem við höfum haft til þeirra hluta og hvernig sem sjónarmið og rökræður hafa gengið í gegnum tíðina og horfast í augu við ástandið þarna eins og það er. Það er ekki verjandi. Við getum ekki horft upp á þá hluti sem þarna eru að gerast. Þeir samrýmast engan veginn öðrum grundvallarleikreglum og mannréttindaákvæðum. Ef eitthvað er hörmulegt brot á mannréttindum, ef eitthvað nálgast það að vera þjóðarmorð, þá er það það sem er að gerast í Írak í dag. Þjóðin er að falla og heilar kynslóðir írakskra barna eru að þurrkast út og þær sem eftir lifa munu bera þess merki ævilangt sökum vannæringar og misþroska sem af þessu hörmulega ástandi skapast.

Þannig er til að mynda engin leið að lesa ákvæði Genfarsáttmálanna og komast að annarri niðurstöðu en þeirri að ástandið í Írak er brot á þeim, brot á öllum þeim mannréttindaviðmiðunum sem okkur er tamt að taka okkur og þá held ég að við eigum að ýta til hliðar deilum um það hverjum sé um að kenna, börnin deyja samt og það krefst þess að við beitum okkur fyrir því, herra forseti, að staða þessara mála verði endurskoðuð. Það að hafast ekki að og horfa áfram árum eða áratugum saman á þetta ástand er líka ábyrgðarhlutur.