Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:27:27 (5411)

2000-03-16 14:27:27# 125. lþ. 81.5 fundur 397. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég er svo sem heldur ekkert hissa á síðustu ræðu hæstv. utanrrh. og allra síst á síðustu orðunum um mig og minn flokk, að við séum orðin sérstakt fyrirbæri í Vestur-Evrópu af því við séum á móti öllum sköpuðum hlutum, og á móti vestrænu samstarfi var það núna, vestrænni samvinnu. Það er ég síður en svo ekki, ég er hins vegar andvígur því að við séum að láta draga okkur inn í hernaðarumsvif sem við eigum ekkert erindi inn í. Þvert á móti vil ég einmitt leggja áherslu á friðsamlega og borgaralega samvinnu. og Ísland gerir það sem sjálfstætt ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill tilkynna hv. þm. að það voru mistök með að þetta væri andsvar, hv. þm. á fimm mínútna ræðu hér.)

Mér datt það í hug, herra forseti, en það gildir einu, ég reyni að koma þessu að á sem allra skemmstum tíma. Ég taldi að sem frsm. ætti ég hana eftir.

Ég er algjörlega andvígur hæstv. utanrrh. um að frumkvæði af hálfu lands eins og Íslands geti ekki haft pólitísk áhrif. Það má tína til ýmis dæmi í þeim efnum. Ef hæstv. ráðherra telur að aðstæður á Nýja-Sjálandi og það sem gerðist í þeim heimshluta sé ósambærilegt getum við litið til ýmissa annarra atburða. Erum við ekki stolt af því stundum að Ísland hafi haft áhrif og jafnvel rutt brautina, haft áhrif á þróun réttarins á heimsvísu, t.d. með kjark sínum og frumkvæði í sambandi við útfærslu landhelginnar? Stundum er það þannig að jafnvel litlu þúfurnar velta þungu hlassi. Og skyldi það ekki geta farið svo að ef Ísland riði á vaðið með slíkar aðgerðir í Vestur-Evrópu þætti það tíðindum sæta og það kæmi hreyfingu á hlutina annars staðar? Ég spái því.

Ég minnist þess t.d. þegar við áttum orðaskipti um komu erlendra herskipa til íslenskra hafna, ég og þáv. hæstv. utanrrh., Geir heitinn Hallgrímsson, og utanrrh. staðfesti það, aðspurður af mér, að sú yfirlýsta stefna Íslands að hér skyldi ekki vera kjarnorkuvopn gilti að sjálfsögðu einnig um komu herskipa hingað inn í lögsöguna og til íslenskra hafna. Þetta þótti tíðindum sæta og varð að uppsláttarfrétt vestan hafs og austan af því þarna vildu ýmsir meina að Íslendingar hefðu brotið í blað varðandi þá hefð eða þann praxís sem verið hafði í NATO, að spyrja ekki um slíkt og vera ekki að velta því fyrir sér hvort herskip eða skip úr kjarnorkuflota aðildarríkjanna sem væru að koma inn í lögsögu og inn í hafnir væru í það og það skiptið búin kjarnorkuvopnum eða ekki.

[14:30]

Þetta leiddi til talsverðra umræðna um þessi mál ekki bara á Íslandi heldur í Danmörku og víðar þannig að það er nú ekki svo að það geti ekki skipt máli hvað jafnvel hinar minni þjóðir gera í þessum efnum og við teljum að við höfum haft áhrif í sambandi við að verða fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og fleira mætti nefna í þeim dúr. Því tel ég fjarri öllum sanni að hægt sé að sanna það eða rökstyðja með fullnægjandi hætti að aðgerð af þessu tagi af Íslands hálfu geti ekki haft umtalsverð áhrif.

Ég var ekki að beina máli mínu að hæstv. utanrrh. hvað varðaði það að menn vildu lítið gera með þetta mál hér eða að sem minnst umfjöllun yrði um það. Þvert á móti þá hefur hæstv. utanrrh., eins og hann réttilega nefndi sjálfur, síðan hann tók við því embætti verið hér virkur þátttakandi í umræðum um þessi mál og það er lofsvert. Ég hygg að ég hafi nú í hvert einasta skipti þakkað það sérstaklega þannig að það er nú öðru nær.

Ég safnaði ekki undirskriftum sjálfur þessu frv. mínu til stuðnings. Það gerðu ungmenni í skólum landsins alveg óbeðin. Að vísu get ég viðurkennt að frumkvæðið að því mun að vísu hafa komið aðallega frá framhaldsskólanemum í mínu kjördæmi. En það var ekki fyrir mitt tilstilli og þeim undirskriftum var að lokum safnað víðar og víðast hvar í landinu. Þó ég sé ekki að gera kannski mikið úr því máli þá fannst mér það ánægjulegur vottur þess að þetta unga fólk hefði hugsjónir og meiningar í þessum efnum enda væri illa komið ef ungt fólk léti það ekki eftir sér að dreyma um betri og friðvænlegri framtíð.

Við skulum bara skilja við málið þannig að það sé nú það sem fyrir okkur öllum vaki en hins vegar sé uppi einhver ágreiningur um leiðirnar að því marki.