Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 14:57:10 (5418)

2000-03-16 14:57:10# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., Flm. SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér kemur afskaplega mikið á óvart að hv. þm. skuli fullyrða að komið hafi í ljós að mengun væri lítil sem engin í rannsókninni á mengun á Nickel-svæðinu. Ég talaði við flokksbróður hans sem er heilbrigðisfulltrúi á Suðurnesjum fyrir skömmu og fékk einmitt frá honum þær fréttir að þarna hefði komið í ljós mikil mengun af völdum olíu, eins og ég tók fram í ræðu minni, og töluverð blýmengun á ákveðnum svæðum. Ég mundi nú segja að ástæða væri til að fara varlega þegar slíkt kemur í ljós.

Auk þess tók ég fram að þarna var aðeins jarðvegur rannsakaður. Grunnvatn var ekki rannsakað eins og gert var t.d. í rannsókn hersins á þessu svæði sem ég vitna til í þáltill. minni. Og það þyrfti auðvitað að gera, það þyrfti að rannsaka þetta miklu betur.

Af því að þarna hefur komið í ljós, í staðfestri rannsókn sem gerð var af hernum sjálfum, umtalsverð TCE-mengun og það er vitað mál að sú mengun getur smitast t.d. í gegnum húð og valdið alvarlegum heilbrigðisvandamálum, þá finnst mér ekkert gamanmál ef verið er að gefa það í skyn að taka eigi við þessu svæði alveg athugasemdalaust og eins og sumir hafa verið með áform um, að hefja byggingu barnaheimilis þarna nú þegar. Ég vil gjarnan að uppbygging barnaheimila sé sem víðast á Suðurnesjum en ekki á þessu svæði, hæstv. forseti.