Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:26:55 (5428)

2000-03-16 15:26:55# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanrrh. lagði mikla áherslu á að við legðum til aðstöðu í Keflavíkurherstöðinni vegna varnarsamstarfsins. Þar af leiðandi taldi hann eðlilegt að við yrðum fyrir nokkrum óþægindum vegna þess.

Ég skil það svo að Þjóðverjar hafi líka lagt til þá hernaðaraðstöðu í sínu landi vegna varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Þeir hafa hins vegar ekki talið það aftra sér í að krefjast skaðabóta vegna þeirrar mengunar sem varð á þessum tíma í herstöðvum í þeirra landi. Þeir hafa gert, eins og ég taldi hér upp áður, miklar kröfur og fengið greiddar skaðabætur í tæplega 1.100 tilfellum.

Mér er ekki kunnugt um að Íslendingar hafi gert neinar slíkar skaðabótakröfur. Samt tel ég ekki hægt að efast um að Bandaríkjamenn sjálfir sem gera rannsóknina sem teiknuð er upp á kortinu sem tillögunni fylgir, þ.e. korti 1 sem ég vitna nú til, hafi vitað hverju þeir gætu átt von á. Þar kemur fram að gríðarlega mikil mengun er m.a. af TCE í grunnvatni á öllu þessu svæði. Þarna er verið að rannsaka grunnvatn. Svo menn rugli því ekki saman þá var rannsókn utanrrn., sem ég þakka auðvitað fyrir, á Nickel-svæðinu gerð á jarðvegi, ekki á grunnvatni. Á þessu korti kemur fram að á þessu svæði er TCE-mengun í grunnvatninu og það hefur væntanlega ekki breyst síðan þessi rannsókn var gerð.

Hæstv. ráðherra lagði mikla áherslu á að mjög vel sé fylgst með mengun frá starfsemi varnarliðsins og mikil varúð viðhöfð. Ég tek undir það. Núna og á undanförnum árum hefur eftirlitið verið betra. Meðferð leysiefna á varnarsvæðinu hefur gjörbreyst frá því sem áður var og þar gilda mjög strangar reglur. Það breytir þó ekki því að áður fyrr, þegar bæði Bandaríkjamenn og Íslendingar voru ekki svo meðvitaðir um skaðsemi þessara efna, var eitt og annað látið gossa.

[15:30]

Það er einmitt það sem ég er að tala um að verði rannsakað og staðsett betur. Ég hef þessar upplýsingar frá fólki sem hefur unnið lengi innan svæðisins og er engan veginn mitt flokksfólk, ef það hefur farið eitthvað fyrir brjóstið á hvæstv. ráðherrum eða þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls, þá er það ekki svo heldur er þetta fólk sem vann þarna á þeim tíma sem menn voru sér ekki meðvitaðir og verið var að urða og hella niður hinu og þessu sem menn vita nú að var engin hollusta. Og menn vildu gjarnan fá að kortleggja þetta, fá að gefa upplýsingar sem þeir búa yfir sjálfir, en ekki hefur mátt gera það. Þetta hefur verið tabúefni. Það er þess vegna sem ég flyt þessa tillögu um að þetta sé rannsakað betur, þetta sé kortlagt betur en var gert og hefur verið gert hingað til, þ.e. það sem gerðist áður fyrr. Ég veit og viðurkenni fúslega og þakka að þarna er fylgst mjög vel með í dag.

Nickel-svæðið, sem hér hefur verið mikið til umræðu, er auðvitað fleygur inn í skipulagið í Reykjanesbæ. En við megum aldrei taka við því svæði fyrr en búið er að gera allt sem unnt er til að hreinsa upp þá mengun sem staðfest er að þar hafi orðið, bæði í þessari rannsókn sem fór fram á jarðveginum og var gerð að tilhlutan utanrrn. og einnig í þeirri rannsókn sem Bandaríkjamenn gerðu sjálfir og staðfestir að þarna er mengun í grunnvatni, sem var ekki rannsakað núna í þessari síðustu rannsókn. Ég tel að þarna þurfi að fara mjög varlega og alls ekki að byggja þarna upp íbúðabyggð eða dagheimili, eins og sumir hafa haft áhuga á, áður en búið er að gera allt til að kanna hvers konar mengun kunni að vera þarna á svæðinu og allt gert til að eyða henni. Það hefur náttúrlega hingað til ekki verið gert.

Hæstv. utanrrh. lagði á það mikla áherslu að utanrrn. fylgdist með vakandi auga með þessum málum á Keflavíkurflugvelli og nærliggjandi svæðum og það er náttúrlega afskaplega gott að þeir geri það. En þeir hafa ekki alltaf gert það. Það stingur mig svolítið að þeir framsóknarmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu virðast vera afskaplega ánægðir með ástandið þarna og vilja gera lítið úr þeirri mengun sem þarna hefur komið í ljós í rannsóknum og telja að ekki þurfi að rannsaka meira.

Ég er ekki sama sinnis. Ég tel að rannsaka þurfi svæðið betur og ítarlegar jafnvel þó það sé freistandi að hafa ekki þennan fleyg í skipulagið í Reykjanesbæ. Ég tel að fylgja þurfi eftir kröfum um að svæðið verði hreinsað upp og greiddar verði skaðabætur vegna mengunar. Ég tel að slíkt hafi ekki verið gert, ég tel að við höfum verið óeðlilega hnjáliðamjúk í þessum efnum og eigum tvímælalaust að fara þess á leit að þessu verði fylgt eftir.