Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:41:33 (5433)

2000-03-16 15:41:33# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að í gegnum tíðina hafa viðhorf til umhverfismála breyst. Það á ekki einungis við um það svæði sem hér er til umræðu, það á við um landið í heild. Og þau spilliefni sem þarna hafa farið niður hafa áreiðanlega ekkert síður farið niður af völdum Íslendinga sem hafa m.a. verið að starfa að ýmiss konar verktakastarfsemi á svæðinu og enginn mælt fyrir um hvernig þeir skyldu haga sínu verki. En þeir hafa væntanlega staðið að því eins og venja var á hverjum tíma.

En aðalástæðan fyrir því að ég vildi svara hv. þm. er vegna þess sem hún sagði um skaðabætur. Það er rétt að Íslendingar hafa ekki lagt áherslu á skaðabætur sem slíkar heldur að bæta úr um ástand mála. Gott dæmi um það er vatnsveitan og samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum við varnarliðið um þau mál. Það er náttúrlega alveg ljóst að varnarliðið tók mjög myndarlegan þátt í fjármögnun þeirrar vatnsveitu sem var umfram það sem hefði verið talið eðlilegt ef þarna hefði verið allt með felldu. Og sama á við um það samstarf sem hefur myndast um sorpmál á þessu svæði.

Ég tel það skipta meginmáli að við leggjum áherslu á að bæta ástand mála en séum ekki fyrst og fremst að reyna að fá einhverja peninga. Þess vegna er það rétt að við höfum ekki verið að fara út í skaðabótamál vegna þess að við höfum náð niðurstöðu með varnarliðinu um að bæta ástand mála og við munum halda því áfram.