Umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 16:09:00 (5437)

2000-03-16 16:09:00# 125. lþ. 81.10 fundur 392. mál: #A umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði þegar hafið mál mitt í þessari umræðu og biðst aftur afsökunar á því en vil koma þá beint að Heiðarfjallsmálinu sem hv. þm. hefur rætt allítarlega og er orðið langt og á margan hátt fróðlegt mál. Fá svæði á Íslandi hafa verið rannsökuð jafnítarlega og það svæði án þess að nokkurrar mengunar yrði vart nema eftir eina sýnatöku sem landeigendur stóðu fyrir og umhvrn. hafnaði og taldi óvandaða á sínum tíma. Vegna staðhæfinga í greinargerð með tillögunni um að mengun hafi verið staðfest á Heiðarfjalli er nauðsynlegt að rekja nokkuð þær umfangsmiklu rannsóknir sem fram hafa farið á fjallinu. Tímans vegna verður aðeins fjallað um rannsóknir sem gerðar voru eftir 1990 en af nógu er að taka fyrir þann tíma.

Umhvrn. stóð fyrir umfangsmiklum rannsóknum á Heiðarfjalli frá 1990--1994 undir forustu sérstakrar þriggja manna nefndar og mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins. Þar var allt rannsakað sem hægt var að rannsaka. Ítarlegar rannsóknir sýndu að engar upplýsingar höfðu fram komið um mengun á svæðinu umfram það sem algengt er í íslensku grunnvatni. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að meðferð sorps þar hefði verið í samræmi við það sem almennt gerðist á Íslandi á þeim tíma. Enn frekari rannsókn með jarðgasleitartæki leiddi í ljós að á nokkrum svæðum hafi mátt greina nokkru meira magn lífrænna efna en annars staðar. Þessar niðurstöður gáfu að áliti vísindamanna ekki til kynna útbreidda alvarlega mengun en útilokuðu ekki að hættulegt efni væri að finna í haugnum. Úr því yrði hins vegar ekki skorið nema með frekari rannsóknum.

Þegar að þeim rannsóknum kom í september 1991 synjuðu landeigendur Hollustuvernd og Orkustofnun um aðgang að landinu til sýnatöku. Landeigendur hafa jafnframt hafnað beiðni utanrrn. og varnarliðsins um að fá að hreinsa yfirborðsrusl af fjallinu og harma ég það.

Árið 1993 rannsökuðu mengunarvarnir Hollustuverndar ríkisins vatnssýni og komust að þeirri niðurstöðu eftir rannsóknir hér á landi og erlendis að styrkur allra efna sem rannsökuð voru væru langt undir viðmiðunarmörkum, vatn væri vel drykkjarhæft og ekki fundust þrávirk halógenlífræn efni í þeim sýnum sem tekin voru á haugnum. Þá reyndist blýinnihald lindarvatns á Heiðarfjalli undir greiningarmörkum í rannsókn umhvrn. árið 1994. Með þeirri rannsókn taldi umhvrn. rannsóknum á lindarvatni Heiðarfjalls lokið og ekki væri ástæða til frekari athugana því að ekkert hefði komið fram sem benti til að lindarvatn á svæðinu væri mengað.

Ég vil taka fram vegna þess sem hv. þm. spurði mig um um rétt landeiganda að þeirri jörð sem þarna átti hlut að máli, að þeir komu á minn fund fyrir löngu síðan og fóru fram á greiðslur, skaðabætur frá ríkinu og það liggur alveg ljóst fyrir að ef um skaðabætur á að vera að ræða þá verður að beina þeirri skaðabótakröfu að íslenska ríkinu. Ég sagði sem rétt var að ég gæti ekki sem utanrrh. reitt fram skaðabætur í einhverju samtali við þá. Það gæti aðeins gerst að mínu mati með málaferlum þeirra á hendur íslenska ríkinu og hvatti þá reyndar til að fara í slíkt mál sem þeir að sjálfsögðu geta farið í. Þeir verða að beina því máli gegn íslenska ríkinu. En þeir verða þá að sýna fram á tjón sem þeir hafa orðið fyrir.

Hv. þm. ræddi einnig um Stokksnes og vitnaði þar í nýlega frétt. Það er rétt að nýlega var haldinn fundur austur á Hornafirði um þau mál sem var að frumkvæði utanrrn. vegna þess að við viljum koma málum þar í lag og þau eru í megnasta ólagi. Unnið er að því að gera verkefnaáætlun í samstarfi varnarliðsins og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í samráði við bæjarstjórnina á Höfn, og þar sem annars staðar ber varnarliðinu að fara að íslenskum lögum og reglum.

Það má segja að sjálfsagt hefði verið hægt að nýta þessi mannvirki ef vel hefði verið staðið að málum fyrr á árum. Það er ekki hægt í dag nema þá að afar litlu leyti. Þarna er um afar fagran stað að ræða, einn fallegasta stað á landinu að mínu mati, og þarna er um mikla sjónmengun að ræða og mikilvægt að þar verði bætt úr. Við viljum að sjálfsögðu standa faglega að því og þess vegna er þessi verkefnaáætlun komin í gang og við erum að vinna að málinu.

Á Bolafjalli varð eitt einangrað mengunaróhapp árið 1989 eða áður en ratsjárstöðin þar var formlega tekin í notkun og formlegt eftirlit af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hófst. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðiseftirlitsins má ætla að eldsneytisolía sem lak niður þá hafi að mestu leyti brotnað niður nú.

[16:15]

Ég vil jafnframt taka fram út af Gunnólfsvíkurfjalli að Ratsjárstofnun hefur kappkostað að aðstoða heimamenn við vatnstöku við rætur fjallsins en ekki var mögulegt að taka þar vatn fyrr en vegur var lagður upp á fjallið sem var gert þegar ratsjárstöð var byggð þar. Njóta heimamenn góðs af því í dag og hafa fengið betra vatn, eftir því sem ég best veit, en þeir hafa áður notið.

Í tillögunni sem hér er til umræðu er lagt til að fram fari úttekt á lagalegum álitaefnum tengdum umhverfismálum og veru varnarliðsins. Erfitt að sjá ástæðu til þess. Eins og ég hef rakið hefur stjórnsýsla þessara mála verið ágæt undanfarin ár og brugðist hefur verið hratt og vel við öllum athugasemdum og mál verið rannsökuð í þaula. Um hina lagalegu stöðu er að öðru leyti enginn vafi. Varnarliðið ber ábyrgð á mengun sem stafar af frágangi sorps þess sem frá því hefur komið og urðað hefur verið á varnarsvæðunum eða fargað þar með öðrum hætti. Samkvæmt íslenskum lögum er sú ábyrgð takmörkuð í tíma við tíu ár. Þá er það almenn regla við mengunartjón í nágrannalöndum okkar að tjón frá sorpi í jörðu er ekki bótaskylt ef frágangur þess var í samræmi við fyrirmæli opinberra aðila á þeim tíma sem gengið var frá sorpinu eða ef urðunarstað var lokað í samræmi við gildandi reglur. Bótakröfum er unnt að beina til skaðabótanefndar sem úrskurðar samkvæmt varnarsamningnum um kröfu vegna tjóns sem rekja má til bótaskyldrar háttsemi varnarliðsins. Slíkar kröfur greiðast svo af varnarliðinu og íslenska ríkinu í samræmi við ákvæði varnarsamningsins.

En til að unnt sé að fá bótakröfu greidda þarf að hafa orðið tjón. Í því sambandi nægir ekki að vitna til hárra fjárhæða sem kunna að hafa verið greiddar eða bóta fyrir tjón í öðrum löndum. Aðili, t.d. á Heiðarfjalli, verður að sanna og þá fyrir íslenskum dómstólum að hann hafi orðið fyrir tjóni.