Umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 16:17:30 (5438)

2000-03-16 16:17:30# 125. lþ. 81.10 fundur 392. mál: #A umhverfisáhrif af völdum erlendrar hersetu# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Aðeins fáein orð að lokum um þessi mál. Þó að hæstv. utanrrh. hafi haft uppi eins og vænta mátti tilburði til að verja og réttlæta framgöngu íslenskra stjórnvalda og þá auðvitað fyrst og fremst þess ráðuneytis sem hann hefur stýrt um nokkurt árabil í þessum efnum held ég að allmörg álitamál standi eftir og að nægjanlegar upplýsingar liggi fyrir um það að full tilefni séu til þess að fara yfir þessi mál í heild sinni af okkar hálfu.

Mér er hins vegar vel ljóst að þau mál öll eru í afar mikilli nálægð við pólitískt viðkvæma hluti sem gerðu það að verkum að ég var svo sem aldrei bjartsýnn á að það yrði auðveldur róður að fá slíkt í gegn. Ég batt þó og bind reyndar enn vissar vonir við að m.a. breytt viðhorf til umhverfismála og aukinn skilningur á því hversu alvarlegir þeir hlutir séu geri það að verkum að menn fari að líta á þessa hluti í nýju ljósi og dropinn muni hola steininn og menn muni komast að þeirri niðurstöðu hér að við rétt eins og aðrar þjóðir þurfum að gera upp við þetta tímabil. Almenningsálitið og viðhorf hafa gjörbreyst.

Ég tek undir það sem kom fram fyrr í umræðum í dag að ég treysti því að framkvæmd þessara mála sé með allt öðrum og betri hætti í dag en hún var fyrir 10, 20, 30 árum. Satt best að segja trúi ég því staðfastlega að nú eigi sér ekki stað hlutir af því tagi sem þá voru alsiða. Vissulega var margt í eigin framgöngu ekki til fyrirmyndar og enginn sómi að. Þó ég hefði ekki mikil samskipti við herstöðina á Heiðarfjalli og minnkandi áhuga eftir því sem ég komst til vits ára að hafa saman við hana að sælda, þá náði ég þó að koma þar í nágrennið nokkrum sinnum á meðan hún var starfrækt. Ég sá t.d. þau ósköp sem viðgengust í sambandi við meðferð á sorpi og hvernig á opna ruslahauga var hent hverju sem var og þar ægði öllu saman, fyrir utan þá geigvænlegu sóun sem menn urðu þar vitni að. Þar var hent hlið við hlið matarúrgangi, hellt niður olíu, hent rafmagnstækjum, hent rafgeymum, þessu sturtað af bílpöllum á opna öskuhauga þannig að það var undir hælinn lagt hvað sneri upp og hvað sneri niður. Þarna fór fram förgun eða losun stórskaðlegra efna eins og kunnugt er.

Þó að svo kunni að vera að slík efni séu ekki enn mælanleg svo skaðinn sé ekki farinn að koma fram í uppsprettulindum eða grunnvatni neðar á svæðinu vegna þess að þarna var um að ræða losun á hauga á nokkuð þurrum stöðum í sumum tilvikum og að hluta til var mokað yfir haugana jafnóðum þannig að það er ekki öll sú mengun sýnileg á yfirborði í dag, þá óttast ég mjög að þar geti átt eftir að koma fram alvarlegir hlutir síðar.

Hæstv. ráðherra staðfesti viðskilnaðinn á Stokksnesi og hvernig menn líta á þá hluti og heimamenn hafa þar verið að knýja á um úrbætur. Það er gott og vel ef vilji er fyrir hendi að taka þar á málum og út af fyrir sig treysti ég því að hæstv. utanrrh. reki trippin a.m.k. í því tilviki enda honum málið skylt og svæðið honum kærkomið. En eftir stendur að á þessum stöðum og fleirum er ástæða til að taka til hendinni. Sama gildir um Straumnesfjall. Ég held að alveg ástæðulaust sé að nota þær ömurlegu rústir sem þar eru sem vettvang fyrir fleiri kvikmyndir eða kvikmyndasenur og það væri hreinsun að því að koma þeim út úr heiminum.

Herra forseti. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að halda þessum málum áfram á dagskrá og ég tel sjálfsagt mál að hæstv. utanrmn. vísi þessum málum til umhvn. og svo vel ber einnig í veiði að hæstv. umhvrh. er kominn til þingfundar. Ég treysti því að hæstv. umhvrh. hafi fylgst með þessum málum og leggi því lið fyrir sitt leyti að hugað verði að þessum málum frá umhverfishliðinni og þeim komið í einhvern farveg.