Sjálfstæði Færeyja

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:04:55 (5443)

2000-03-20 15:04:55# 125. lþ. 82.1 fundur 387#B sjálfstæði Færeyja# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Við höfum haft þá stefnu, ríkisstjórnin, eins og ég hygg langflestir Íslendingar að mál Færeyinga um sjálfstæðisvilja þeirra og viðleitni hljóti að vera mál þeirra sjálfra. Við vitum að þetta er umdeilt mál heima hjá þeim. En um leið og við höfum haft þessa stefnu þá höfum við líka haft þá stefnu að leiti réttkjörin stjórnvöld í Færeyjum okkar atbeina á hverjum tíma til þess að ná sínum málum fram þá viljum við veita þeim þann atbeina sem við megum.

Það er rétt hjá hv. þm. að það var augljóst að Færeyingum vinum okkar þóttu þeir kostir sem við þeim blöstu í Kaupmannahöfn á dögunum nokkuð harðir. Ekki skal ég fjalla um það en ég held að mér sé óhætt að segja án þess að það hafi verið rætt í ríkisstjórn að ef aðilarnir báðir mundu til okkar leita um milligöngu í þessu mikilvæga máli þá mundum við ekki skorast undan slíku. Ég hygg að það sé varlegast að hafa ekki stærri eða meiri orð um það. En við mundum ekki að fyrra bragði sýna neina framhleypni hvað það varðar heldur mundum við eingöngu ef til okkar yrði leitað af báðum aðilum, að sjálfsögðu ekki skorast undan því að veita okkar atbeina í máli af þessu tagi sem við þekkjum náttúrlega töluvert til. Við viljum Færeyingum allt hið besta. Það er mjög rík samúð með sjónarmiðum þeirra á Íslandi. En ég hygg að ég taki ekki dýpra í árinni en þetta.