Mannréttindabrot í Tsjetsjeníu

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:09:54 (5446)

2000-03-20 15:09:54# 125. lþ. 82.1 fundur 388#B mannréttindabrot í Tsjetsjeníu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við Íslendingar höfum fyrst og fremst fylgst með þessu máli á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem við eigum aðild að og þá fyrst á vettvangi Evrópuráðsins, en eins og kunnugt er var einn hv. þm., Lára Margrét Ragnarsdóttir, með í þeirri eftirlitsnefnd sem fór til Tsjetsjeníu til þess að yfirfara mál þar sem var mjög mikilvægt. Þannig var Evrópuráðinu gefinn aðgangur að málinu og síðan verður það metið á vettvangi Evrópuráðsins, ekki eingöngu á vettvangi þingmanna heldur líka á vettvangi utanríkisráðherranna. En utanríkisráðherrafundur Evrópuráðsins verður að vísu ekki fyrr en í maímánuði.

Þessi mál hafa jafnframt verið rædd á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og fulltrúar Atlantshafsbandalagsins hafa átt viðræður við Rússa í þessu sambandi. Ég átti fyrir nokkru kvöldverðarfund með Avdeev, fyrsta aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, í Moskvu þar sem við ræddum þetta mál allmikið og ég lýsti yfir miklum áhyggjum af framvindu mála þar. Vandamálið í þessu felst ekki síst í því að það er erfitt að finna samningsaðila í Tsjetsjeníu til að semja við. Auðvitað eru þeir fyrir hendi og á það hefur margoft verið bent.

Að því er varðar mannúðarhjálp þá hafa alþjóðlegar mannúðarstofnanir margboðið fram aðstoð og það mun ekki standa á því. En Rússar hafa hingað til staðið í vegi fyrir því að mannúðarhjálp bærist skipulega. Vonandi munu þeir láta af þeirri andstöðu og sérstaklega eftir eftirlitsferð Evrópuráðsins er alveg ljóst að það er mikil þörf á þeirri aðstoð þannig að við Íslendingar munum halda áfram að fylgjast með þessu máli og ræða það á alþjóðavettvangi þar sem við höfum tækifæri til.