Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:47:29 (5464)

2000-03-20 15:47:29# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum nú er um að fresta gildistökuákvæðum núgildandi laga um stjórn fiskveiða og er ekkert nema gott um það að segja að slíkt frv. komi fram frá sjútvrh. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson lögðum fram slíkt frv. um frestunarákvæði í byrjun febrúar sl. Það breytir ekki því að það er sama hvaðan gott kemur.

Efnislega hef ég ekki neitt sérstakt við frv. sjútvrh. að athuga og tel að það sé í raun og veru þarft vegna þeirra breytinga sem í því eru. Ég mun hins vegar síðar þegar við ræðum næsta mál á dagskrá gera grein fyrir atriðum sem ég hefði talið að sjútvrh. hefði getað tekið upp líka vegna þess að ég tel að þau skipti máli. Í frv. sem við ræðum nú er eingöngu tekið á vanda þeirra manna sem gera út í svokölluðu aflahámarkskerfi eða krókakerfinu almennt. Eins og ráðherrann fór hér yfir eru raunverulega fjögur mismunandi veiðileyfi í gangi í krókakerfinu eða smábátakerfinu og þeim er öllum frestað sem eðlilegt er því verið er að skoða heildarlöggjöfina um stjórn fiskveiða og fara yfir hana í ýmsum atriðum. Vonandi ná menn góðri lendingu um það hvernig stjórn fiskveiða skuli vera á næstu árum eftir næsta fiskveiðiár því fyrir liggur að fiskveiðistjórnarlögunum verður ekki breytt mikið á næsta fiskveiðiári. Þess vegna er nauðsynlegt að taka úr sambandi slík tímaákvæði sem hafa verið að tifa í núverandi lögum um stjórn fiskveiða því að í rauninni er óeðlilegt að alls konar breytingar séu að taka gildi í lögum sem eru í heildarendurskoðun. Ég get alveg verið sammála hæstv. sjútvrh. um það.

Það er aðeins eitt efnislegt atriði sem ég vil benda á. Það er e.t.v. örlítið ósamræmi í 2. gr. b-lið, 3. málsl. 4. mgr. þar sem talað er um 20% á milli ára og hins vegar þess sem kemur fram í athugasemdum um 2. gr. en þar segir: ,,Varðandi flutning þorskaflahámarks milli ára er þó rétt að láta fram koma að miðað er við að heimilt sé hverjum báti að flytja allt að 20% af þorskaflahámarki sínu frá fiskveiðiárinu 2000/2001 til fiskveiðiársins 2001/2002 sem við það breyttist í krókaaflamark í þorski.``

Ég velti þessu fyrir mér vegna þess að ef frv. verður samþykkt öðlast lögin þegar gildi og þá finnst mér þrátt fyrir að í b-liðnum sem ég vitnaði til standi að heimilt sé að flytja 20% af þorksaflahámarki frá einu fiskveiðiári yfir á annað, hefði kannski einnig átt að standa í athugasemdunum: frá árinu 1999/ 2000--2001. Það er spurning hvort upp komi einhver mistúlkun. Það ætti ekki að gera það vegna þess að þetta er skýrt í b-lið 2. gr. en út frá athugasemdum um greinina gætu menn farið að misskilja þetta. En auðvitað er það lagatextinn sem gildir, ég vildi bara að þessi ábending kæmi hérna fram.

Að öðru leyti get ég tekið undir frv. Það tekur yfir, eins og ég sagði áðan, hluta af því frv. sem ég og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson höfum lagt fram og að því leyti held ég að það falli mjög að þeirri framsetningu. Hins vegar vantar alveg að taka á vanda aflamarksskipa og vanda þeirra sem hafa verið með lítið aflamark og verið mikið í leiguliðaviðskiptum á undanförnum árum.