Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:25:38 (5471)

2000-03-20 16:25:38# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að betra sé fyrir sjávarbyggðirnar, sérstaklega minni sjávarþorpin, að hafa tvö kerfi; hafa smábátakerfið og verja það í stað þess að þau renni saman í eitt eins og var lagt til í frv. í desember 1998. Því var síðan breytt í meðförum sjútvn. yfir í tvö kerfi aftur og þar með var smábátakerfið varið. Ég tel mjög þýðingarmikið að hafa leikreglurnar þannig að sem minnstar líkur verði á því að það renni saman við hitt vegna eðlis þess. Þess vegna er ég sammála því sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og reyndar einnig hæstv. sjútvrh., að menn verði að gæta þess að breytingar á krókaaflamarkinu eyðileggi ekki það kerfi. Ráðuneytið hefur áhyggjur af því að möguleikar séu á því að það verði eyðilagt með því að stór skip geti skráð sig inn og síðan flutt aflaheimildir til sín úr stærra kerfinu. Það er auðvitað eðlilegt að menn skoði röksemdirnar á bak við það í starfi sjútvn. En ég hef ekki sannfærst um að þetta megi lesa út úr lögunum. Alla vega var það ekki ætlun manna á sínum tíma að ganga frá löggjöfinni um krókaaflamarkið með þessum hætti. Ég undirstrika að sjónarmiðin eru kannski ekki að öllu leyti eins hvað þetta frv. varðar.