Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:38:30 (5474)

2000-03-20 16:38:30# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir mjög jákvæðar undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hjá hv. alþingismönnum. Ég vil taka undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að hrært hefur verið of mikið í smábátalöggjöfinni, það hafa verið gerðar of miklar breytingar á henni á stuttum tíma, en eins og fram hefur komið hafa þessar breytingar ekki allar verið gerðar vegna þess að vilji Alþingis hafi staðið til þess sérstaklega og þær breytingar sem við erum hér að fjalla um koma til af völdum Hæstaréttar þar sem um er að ræða dóm sem Alþingi varð að bregðast við. Og þær breytingar sem lagðar eru til eru gerðar vegna þess að komið hefur komið í ljós að tilteknar breytingar sem gerðar voru í janúar 1999 höfðu meiri og víðtækari afleiðingar í för með sér en ætlað var í upphafi og við því verður að bregðast.

Menn hafa velt fyrir sér hvort eðlilegt sé gagnvart Hæstarétti að svo langur frestur verði þar til breytingar sem gerðar eru sem viðbrögð við dómi Hæstaréttar taki gildi. Ég tel að það sé galli að langur tími líði þar til löggjöfin taki gildi sem ætlað er að bregðast við dómi réttarins, en í ljósi þess að enn þá er raunverulega verið að vinna að því að koma löggjöfinni í það form sem hv. Alþingi vill koma henni í til að bregðast við dómi Hæstaréttar, þá tel ég það vera réttlætanlegt.

Talað hefur verið um stækkunarmöguleikana sem felast í bráðabirgðaákvæði XXIV og það er í rauninni grundvöllurinn fyrir því að þetta frv. er flutt. Ég er síður en svo að hafna því að það geti orðið niðurstaðan, þannig að smábátarnir geti verið stærri en 6 tonn, ég sé ekki að 6 tonn sé einhver töfratala í því sambandi, en ég tel hins vegar rétt að í því samhengi sem við erum komin með þetta mál núna verði það verkefni endurskoðunarnefndarinnar að vega og meta hvernig við tökum þá skrefið fram á við aftur til mótvægis við það skref sem við værum þá að stíga til baka til fyrra ástands.

Síðan hefur verið rætt um þá möguleika að flytja aflahlutdeild eða aflamark úr stóra kerfinu í krókaaflamarkskerfið. Ég held að þeir möguleikar séu ótvírætt fyrir hendi því að hægt er að gagnálykta frá því að óheimilt er að flytja veiðiheimildir eða aflaheimildir úr krókaaflamarkinu yfir á skip sem hafa önnur veiðileyfi. Þar sem það er bannað held ég að menn verði að gagnálykta að það sem ekki er bannað sé þá leyfilegt, sem sé að flytja af skipum með aðra tegund veiðileyfis yfir á skip sem eru með krókaaflamarki. Ég held að umfjöllun hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um möguleika í þorskaflahámarkinu að flytja aflamark úr aflamarkskerfinu yfir í þorskaflahámarksbátana styðji frekar þá skoðun en dregið sé úr gildi hennar. Því að auðvitað má segja að krókaaflamarkskerfið sé skilgetið afkvæmi þorskaflahámarksins, það sé frekari útfærsla á því yfir í fleiri tegundir.

Eðlilega hefur verið spurt um þá aðila sem hafa tekið ákvarðanir á grundvelli löggjafarinnar sem hér er verið að ræða um að fresta. Það var erfitt þegar verið var að vinna að gerð frv. að meta að hve miklu leyti aðilar hefðu tekið ákvarðanir á grundvelli þessara ákvæða. En hins vegar um leið og frv. var komið fram fóru að berast upplýsingar um hvernig málum gæti verið háttað að þessu leyti til. Ég tel því eðlilegt að það verði vegið og metið í hv. sjútvn. hvort mögulegt sé að taka tillit til þessara aðila að einhverju leyti. Ég held að erfitt verði að gera það en til þess að allrar sanngirni sé gætt tel ég eðlilegt að það sé reynt og það mun ekki standa á sjútvrn. að aðstoða við að finna einhverja leið sem þar mætti að gagni koma.

Ég held hins vegar, herra forseti, að það sem mestu máli skiptir fyrir smábátakerfið í framtíðinni sé að löggjöfin sem um það verður sett verði þannig úr garði gerð að ekki sé sífellt verið að breyta henni, þannig að þeir sem í þessu kerfi vinna geti eins og aðrir þjóðfélagsþegnar notið stöðugleikans og byggt framtíð sína á stöðugu fiskveiðistjórnarkerfi sem þeir geta reitt sig á.