Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:49:15 (5478)

2000-03-20 16:49:15# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða og mikil dramatík þegar hæstv. ráðherra er að taka undir með hv. þm. um það að það sé hið besta mál að leita leiða til þess að leysa úr vandanum sem hann var að lýsa.

Það sem ég var að segja var að erfitt væri þegar verið væri að vinna frv. að meta hversu umfangsmiklar ákvarðanir menn hefðu tekið á grundvelli laganna og jafnframt hvers eðlis þær ákvarðanir hafa verið.

Síðan frv. kom fram þá hafa eðlilega komið fram miklu betri og víðtækari upplýsingar um þetta. Það sem ég var að segja var að ég teldi eðlilegt að það væri vegið og metið hvernig hægt væri að taka tillit til þeirra. En það er hins vegar erfitt, eins og ég sagði, að fresta hluta af löggjöfinni en undanþiggja hluta af henni. Ég sagði að það væri erfitt en ég sagði ekki að það væri ómögulegt.

Síðan varðandi stöðugleikann sem hv. þm. minntist á, þá er ég alveg sammála honum í því að það hafa orðið allt of miklar breytingar á löggjöf um smábátana í gegnum tíðina. En það er nú bara einu sinni þannig að löggjafinn hefur það vald að breyta þeim lögum sem hann setur. Ef ég hef skilið skoðanir hv. þm. og flokks hans eða fylkingar rétt þá eru þar uppi miklar hugmyndir um að breyta núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi. Ætti þá honum og flokki hans að vera það ómögulegt til þess að raska ekki stöðugleikanum? Það eru svo sannarlega rök gegn þeim breytingum sem hann og hans flokkur hefur lagt til. En ég mundi samt ekki vilja ganga svo langt að taka löggjafarvaldið af þinginu á þeim grundvelli.