Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 16:53:58 (5481)

2000-03-20 16:53:58# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir er að sumu leyti eigi ólíkt því sem við ræddum áðan og hæstv. sjútvrh. mælti fyrir, þ.e. varðandi frestunarákvæðin. En það er hins vegar þó nokkuð margt annað í þessu frv. sem við flytjum hér, ég og hv. Árni Steinar Jóhannsson, og mun ég nú gera grein efnisatriðum þess.

Í a-lið 1. gr. frv. er lagt til frestunarákvæði þess efnis að í stað orðanna ,,1. september 2000`` í 1. mgr. 6. gr. laganna komi: 1. september 2001, sbr. frv. sem við ræddum hér áðan.

Í b-lið 1. gr. eru hins vegar lagðir til þrír nýir málsliðir svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Hver sóknardagur telst 24 klst. Hvern sóknardag má taka út í tveimur 12 klst. veiðiferðum talið frá upphafi veiðiferðar. Veiðiferð sem er lengri en 12 klst. telst heill sóknardagur.``

Í grg. segir svo um b-lið 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Í b-lið er lagt til að lagfært verði það stífa sóknarákvæði að hver af fáum veiðidögum krókabáta í dagakerfi skuli aðeins tekinn og talinn með samfelldri 24 klst. veiðiferð. Þarna er í raun verið að pína sjómenn, unga sem aldna, til þess að vinna óhóflega langan vinnudag sem fær ekki staðist lög og reglur um almenn hvíldarákvæði. Hér er því um þarfa leiðréttingu að ræða. Auk þess geta ákvæði eins og þessi stangast á við öryggissjónarmið. Sjómenn freistast til þess að fullnýta sóknardagana ef á annað borð róður er hafinn þegar þeir eru jafnfáir og raun ber vitni, jafnvel þótt veður versni, og getur slíkt skapað slysahættu.``

Ég held að þarna sé hreyft ákaflega þörfu máli sem ég tel að sé nauðsynlegt að menn ræði. Það er ástæðulaust að hafa lögin áfram eins og þau eru. Þó að þær breytingar sem hér eru lagðar til gildi aðeins til eins árs, þ.e. á meðan heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða á sér stað, þá held ég að þarna sé mjög þörf leiðrétting á ferðinni. Það er einfaldlega þannig að þarna er sú stífa regla afnumin að menn skuli ævinlega eyða einum sóknardegi þegar þeir fara til fiskveiða hvort sem þeim tekst að róa í sex klukkustundir eða átta klukkustundir --- þ.e. að þá skuli þær teljast 24 --- og þar með eyða einum af þessum fáu dögum sem menn hafa. Eins og kom hér fram í umræðum um það frv. sem við ræddum hér fyrr þá eru reyndar þrjú sóknarákvæði inni í lögunum um smábátana og mun ég fara yfir þau hér á eftir, en það eru sóknarákvæði þar sem menn hafa hámarkasafla einnig í þorski, annars vegar 32 daga ef þeir stunda línuveiðar og hins vegar 40 daga ef þeir stunda handfæraveiðar gegn því að undirgangast 30 tonna hámarksheimildir í þorski.

Ég held að mjög margs konar rök mæli með því að þessu ákvæði sé breytt og farið niður í það að telja tímabilið í tólf klukkustunda tímabilum. Það kann að vera að sumir segi sem svo: ,,Hvers vegna telja menn þetta bara ekki í klukkustundum eins og það er raunverulega?``

Það kann vel að vera að best væri að gera það en ég held hins vegar að svona ákvæði yrði mikil bót. Menn munu velta því fyrir sér og segja sem svo: ,,Er þá ekki verið að gefa mönnum miklu meiri sóknarmöguleika?`` Það getur verið í báðar áttir. Það er einfaldlega þannig að ef mönnum tekst að fara tvo róðra á 24 klst. með því að vera tvisvar sinnum tólft tíma í sjóferð að þá er það nú svo að þeir fara þá tvisvar frá landi og tvisvar að landi þannig að menn eru þá að eyða helmingi meira tíma í siglingu í sólarhringnum. Hins vegar er mönnum gefinn sá kostur að eyða aðeins 12 tímum í staðinn fyrir 24 og þurfa ekki að vera að pína sig upp í það að vera 24 klst. í beit við fiskveiðar.

Ég held að þetta ákvæði sé einfaldlega skynsamlegt og líka réttlátt gagnvart vinnutímareglum og út frá öryggissjónarmiðum sem eðlilegt er að taka tillit til. Ég dreg í efa að hægt sé að færa fyrir því rök að þessi sókn svona útfærð verði miklu afkastameiri en sú sem stunduð er í dag fyrir utan það að ég tel að núverandi ákvæði geti beinlínis verið hættuleg og þess vegna sé rétt að hverfa frá þeim og breyta þeim.

[17:00]

2. gr. þessa frv. inniheldur sólarlagsákvæði. Þar leggjum við til að sett verði inn í lögin ákvæði um að núverandi lög um stjórn fiskveiða falli úr gildi 1. sept. 2001, eftir um hálft annað ár. Þetta teljum við eðlilegt að setja inn í lögin, þ.e. að í þeim sé sólarlagsákvæði. Í athugasemdum um 2. gr. segir:

,,Hér er sett inn ákvæði um að lögin falli úr gildi, svonefnt sólarlagsákvæði. Með því er verið að leggja áherslu á að núverandi fyrirkomulag er tímabundið. Í því að takmarka gildistíma laganna felst í senn ákveðin yfirlýsing um að lögin muni breytast, auk þess sem fiskveiðistjórnarkerfið er í annarri réttarfarslegri stöðu sé löggjöfin tímabundin.``

Þingflokkar Frjálslynda flokksins og vinstri grænna hafa lagt fram sérstaka þáltill. um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem vonandi næst að ræða hér síðar í dag. Við teljum að þetta frv. sem við hér ræðum sé í fullu samræmi við hana og hluti framsetningar okkar á stefnumótun til framtíðar við heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða.

Í 3. gr. þessa frv. er um hrein frestunarákvæði að ræða og færðar til dagsetningar, frá deginum í dag til ársins 2001. Þannig er í raun verið að færa til dagsetningar. 3. gr. er þar að langmestu leyti samstofna frv. sem við ræddum hér fyrr að öðru leyti en því að undir c-lið er tekið fram að sóknardagar í ákv. til brb. XXIII skuli einnig vera hægt að telja í 12 klst. veiðiferðum, tímabilum. Í c-lið segir síðan að fjöldi sóknardaga skuli aukinn í hlutfalli við aukinn heildarafla þorsks sem og þorskaflahámark þessara báta og að ákvæðið eigi einnig við um 8. mgr.

Um 3. gr. segir í grg.:

,,Í a-, b- og d-liðum er um að ræða að fresta núverandi ákvæðum til bráðabirgða um eitt ár, til 1. september 2001, til samræmis við sólarlagsákvæði 2. gr. frumvarpsins og breytingar sem gerðar eru á 6. gr. laganna, sbr. a-lið 1. gr. frumvarpsins.

Í c-lið er lögð til sams konar breyting um heimild til 12 klst. veiðiferðar þeirra sóknardagabáta sem veiðar stunda eftir ákvæði til bráðabirgða XXIII við lögin og lögð er til í b-lið 1. gr. frumvarpsins. Einnig er lagt til að sóknardögum þeirra báta sem starfa eftir 6. og 14. mgr. ákvæðisins, sem og 8. mgr., verði fjölgað í hlutfalli við meiri heildarafla þorsks á næsta fiskveiðiári ef heildarþorskaflinn verður aukinn frá því sem nú er.``

Þá erum við komin að 4. gr. þessa frv. en þar segir:

,,Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða.``

Mig minnir að í dag séu bráðabirgðaákvæði við lög um stjórn fiskveiða 27 þannig að hér yrði þá um ákv. til brb. XXVIII að ræða. Þessi ákvæði eru sett fram í a- og b-lið 4. gr. Fyrri liðurinn víkur í raun að því að gera ráðstafanir fyrir annan hluta flotans en bara smábátana. Það sem við höfum rætt hér fyrr í dag varðandi frv. sjútvrh. og hins vegar flest þau atriði sem við höfum rætt varðandi 1., 2. og 3. gr. þessa frv. sem nú er til umræðu snýr nánast eingöngu að veiðum smábátaflotans, þ.e. skipum undir 6 tonnum sem hafa reyndar fjögur mismunandi veiðileyfi eins og áður hefur komið fram.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingum til samræmis við það sem hér mun lagt til varðandi smábátana. Sjútvrh. lagði í frv. sínu til að fresta kvótasetningu á ýsu, ufsa og steinbít í smábátaflotanum. Við leggjum hins vegar til að kvótasetning á ufsa og steinbít verði tekin út úr kvótalögunum, að ekki verði um kvótasetningu að ræða á þessum fisktegundum meðan á þessu endurskoðunartímabili stendur, þar til því lýkur og ný lög um stjórn fiskveiða hafa tekið gildi. Hvort allar þær fisktegundir verða kvótasettar sem nú eru veit enginn. Ég dreg það reyndar mjög í efa ef menn ætla að fara í efnislega skoðun á því hvaða fisktegundir eigi heima í kvótakerfi og hverjar ekki. Mér finnst þurfa sterk rök fyrir því að leggja höft á frelsi manna til að veiða fisk. Þar þarf sterk og efnisleg rök en ekki bara hippusumhapps-tillögur um það að þetta árið skuli kvóti á sandkola, næsta ár skrápflúru og svo koll af kolli. Það verða að vera einhver efnisleg rök fyrir því að fisktegund sé almennt inni í kvótakerfi og þurfi sérstakrar skömmtunar við. Það verður að segjast að varðandi steinbítinn þá verður t.d. engan veginn séð að nokkur ástæða sé til að hafa hann í kvótakerfinu.

Þegar lögin voru sett á um stjórn fiskveiða 1984 og kvótakerfið sett á, eins og þeir vita sem þekkja þessa sögu, var fyrst og fremst verið að skera niður þorskaflaheimildir á árinu 1984. Reyndin varð sú að í stað þess að veiða 289 þús. tonn á árinu 1983 þá veiddum við 281 þús. tonn á árinu 1984. Það er þess vegna spurning hvort við þurftum nokkuð að grípa til kvótakerfisins í ljósi þess að það mátti þegar bæta við þorskaflann á árinu 1984.

Á árinu 1984 var jafnframt ákveðið að taka steinbít og skarkola inn í kvótakerfið. Þeir sem urðu fyrir mestum niðurskurði í þorski fengu mesta úthlutun í þessum tveimur fisktegundum. Ég held að tvö ár hafi liðið þar til þessar fisktegundir voru aftur teknar út úr kerfinu. Síðan hefur það gerst að þessar göfugu fisktegundir, skarkoli og steinbítur, eru aftur komnar inn í kvótakerfið. Ég hygg að steinbíturinn hafi farið þar aftur inn fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Þegar maður skoðar fiskveiðisöguna þá er ekkert í henni sem bendir til að nokkur ástæða sé til að hafa steinbítinn inni í kerfinu, hvorki fyrr né síðar. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar, sem er auðvitað hið merkasta plagg eins og venjulega, má sjá að varðandi steinbítinn er ekkert sem bendir til þess að hann sé í mikilli áhættu. Þar kemur m.a. fram að nýliðun í steinbít er mjög góð og hefur verið mjög góð allt frá árinu 1990. Reyndar er búist við því að nú séu að koma inn í stofninn góðir árgangar. Steinbíturinn hefur ekki verið sérlega mikið rannsakaður á undanförnum árum en hér kemur fram að sóknarþungi í steinbít er ekki talinn mikill. Talið er að sóknarþunginn hafi náð hámarki á árunum 1991--1993, þá var steinbíturinn ekki inni kvóta en síðan hafi sóknarþunginn farið minnkandi.

Það kemur ekkert fram í plöggum Hafrannsóknastofnunar um að við þurfum að hafa sérstakar áhyggjur af steinbítnum. Ég bið menn að kynna sér skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Ég ætla ekki að lesa þetta upp. Þeir sem áhuga hafa á stjórn fiskveiða geta kynnt sér þetta og margir hverjir hafa sjálfsagt kynnt sér það.

Um ufsann er það einfaldlega að segja að hann er flökkufiskur og hefur jafnan verið viðurkennt að ufsinn fari hér á milli lögsagna og flakkaði um Norður-Atlantshaf. Ég minnist þess að þegar ég stundaði síldveiðar á árum áður, úr norsk-íslenska síldarstofninum áður en hann hrundi á árunum 1965--1966, vorum við að fá ufsa á öllu svæðinu þar sem við fylgdum síldinni eftir frá Austfjörðum yfir til Færeyja og langleiðina að norsku lögsögunni. Ufsinn er flökkufiskur og um það er ekkert deilt.

Það kemur einnig fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar, í töfluriti sem þeir birta, að 60% meira er í árgangi sjö ára ufsa og eldri í veiðinni en menn gerðu ráð fyrir í spá sem hér er birt. Það segir einfaldlega, með leyfi forseta:

,,Hlutdeild sjö ára og eldri ufsa í veiðinni 1998 var 36% en í síðustu úttekt var gert ráð fyrir að fiskar úr þessum aldurshópi yrðu 22% af heildarfjölda.``

Þarna er sem sagt yfir 60% skekkja.

Þetta er kannski í samræmi við það sem fiskimönnum hefur fundist koma fram á miðunum í vetur, að það væri meiri ufsi á ferðinni en menn áttu von á. Fiskimenn hafa bent á að ufsaúthlutunin væri of lág miðað við aflahorfur. Það má líka segja frá því að ufsinn var hér í kvóta í mörg ár og veiddist þá ekki upp í mörkin sem sett voru hvorki af Hafrannsóknarstofnun né stjórnvöldum.

Þegar úthafskarfinn var kvótasettur á Reykjaneshrygg og skuttogaraflotinn okkar, frystitogaraflotinn að stærstum hluta, fékk úthlutaðar veiðiheimildirnar í úthafskarfa þá átti samkvæmt lögunum um veiðar utan lögsögu að skila ákveðnu hlutfalli af kvótanum utan lögsögunnar til þeirra skipa sem stunduðu veiðar innan lögsögunnar. Og hverju skiluðu menn þá inn? Þá skiluðu menn inn ufsa því að hann var svokallaður pappírsfiskur á þeim árum og tillögurnar um leyfða veiði voru langt umfram það sem veiddist. Þar af leiðandi má segja að ufsinn hafi lengi vel verið frjáls í kvótakerfinu. Svo dróst veiði saman fyrir tveimur eða þremur árum síðan og mönnum sýndist þá eðlilegt að minnka ufsaveiðina. Núna virðist mönnum hins vegar eðlilegt að auka ufsaveiðina en það fær nú ekki svakalega mikinn hljómgrunn uppi á Skúlagötu 4 á Hafrannsóknastofnun.

Við teljum eðlilegt, þar sem ufsinn er flökkufiskur og ekkert bendir til þess að steinbíturinn sé í neinni hættu, að meðan á endurskoðun laganna stendur verði gefið það jafnræði með mönnum í stóra kerfinu og smábátakerfinu að ufsi og steinbítur verði tekinn út úr kvótanum. Þar af leiðandi sitji báðir aðilar við sama borð að þessu leyti meðan á endurskoðunartímabilinu stendur.

Annað ákvæði til bráðabirgða er í b-lið 4. gr.: ,,Á fiskveiðiárinu 2000/2001 skal allt að 1,5% aflaheimilda af heildaraflamarki þorsks og ýsu úthlutað sérstaklega til aflamarksskipa sem voru minni en 200 brúttórúmlestir 1. september 1999. Skilyrði þess að aflamarksskip fái úthlutun er að skipið hafi hinn 1. september 1999 haft minna aflamark en 80 þorskígildistonn. Úthlutunarréttur hækkar með fækkandi þorskígildistonnum aflamarks viðkomandi fiskiskips niður í 20 þorskígildistonn eða minna miðað við 1. september 1999. Jafnframt er skilyrði að fiskiskipið hafi leigt til sín á Kvótaþingi 40 þorskígildistonn eða meira fiskveiðiárið 1999/2000. Þá þarf aflamarksskip að hafa veitt 75% af aflamarki sínu í botnfiski fiskveiðiárið 1999/2000.

Aflaheimildir þessar verða ekki framseldar til annarra fiskiskipa og teljast ekki með þegar veiðiskip uppfyllir 50% veiðiskyldu, samanber ákvæði 12. gr. laga þessara. Heimildum þessum verður aðeins úthlutað til dagróðrabáta. Hámarksúthlutun eftir stærðarflokkum fiskiskipa í brúttórúmlestum annars vegar og þorskígildishámarki hins vegar er sem hér segir:``

Hér birtist síðan tafla sem skýrir sig nánast sjálf. Hún miðar annars vegar við stærð skipanna: frá 0--20; frá 20,1--40; frá 40,1--60; 60,1--100; 100,1--150 og 150,1--200 brúttórúmlesta.

Hin viðmiðunin er að skipin hafi ýmist: minni þorskígilsiskvóta en 20 tonn; 20,1--40 tonn; 20,1--40 tonn; 40,1--60 tonn og 60,1--80 tonn. Ef skip hafa meira en 80 þorskígildistonn og eru stærri en 200 brúttólestir, hvort heldur sem er, þá fá þau ekki úthlutun samkvæmt þessari úthlutunartöflu. Eins og menn sjá er þetta gert til þess að koma til móts við þá sem gert hafa út aflamarksskip á undanförnum árum meðan verið er að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Það er verið að leggja til að þeim verði úthlutað ákveðnum tonnum fyrir næsta fiskveiðiár. Það er lagt til að í þetta verði sett allt að 1,5% af heimildum þorsks og ýsu.

[17:15]

Við höfum farið nokkuð yfir þessar stærðir fiskiskipa og kvótastöðu flotans að þessu leyti og skoðað hversu margir næðu að uppfylla þessi skilyrði, þ.e. hafa leigt til sín meira en 40 þorskígildistonn hafa minna aflamark en kemur fram í töflunni, eða vera undir þessum stærðum, hafa veitt 75% af heimildunum sínum, hafa raunverulega verið í útgerð og hafa verið að greiða stórgreifunum peninga fyrir að fá að stunda fiskveiðar. Þetta er í mörgum tilfellum sjómenn sem voru áður á stærri fiskiskipum þar sem búið er að hagræða, eins og menn kalla það, selja þessi fiskiskip til annarra landa, jafnvel á sóknardaga í Litháen eða Lettlandi eða rússneska eða franska eftir atvikum. Þessi skip og aflaheimildir þeirra kunna að hafa verið seldar úr sjávarþorpunum í kringum land og farið í hina stórkostlegu samþjöppun aflaheimilda þar sem menn sjá framtíð sína í því að fram undan séu hinir góðu dagar sex til sjö stórfyrirtækja í sjávarútvegi sem muni byggja upp Ísland framtíðarinnar. Þetta eru þeir sjómenn sem hafa þarna misst störf; hafa í raun og veru aldrei gert neitt annað en að vera sjómenn og telja sig hafa rétt til þess að stunda fiskveiðar; hafa keypt sér báta og reynt að hefja útgerð og baslast áfram við að gera út; hafa greitt stórgreifunum 100 kr. fyrir kílóið fyrir að leigja til sín aflaheimildir. Í raun og veru er með þessari tillögu gerð tilraun til að leyfa þessum sjómönnum eins og öðrum að lifa af endurskoðunartíma næsta árs og standa uppréttir við það að reyna að stunda fiskveiðar og hafa í sig og á.

Við skulum ekki draga fjöður yfir það að tillagan er um að taka kvóta út úr kerfinu, út úr pottinum, og leyfa þessum mönnum að njóta hans án þess að þeir þurfi að borga sægreifunum fyrir.

Við teljum að hér sé hreyft réttlætismáli og það sé rétt að þegar verið er að gera bráðabirgðaákvæði um frestun á kvótasetningu innan smábátakerfisins sé með einhverjum hætti líka komið til móts við þau sjónarmið manna sem gera út í aflamarkskerfinu. Stundum hefur verið talað um þennan flota frá 20 eða 10 brúttólestum og upp í 200 sem hinn gleymda flota eða hinn týnda flota. Þetta er sá floti sem hefur verið að leigja til sín hvað mest af aflaheimildum en eins og kom fram í skýrslu sem rædd var á vegum sjútvrh. um Kvótaþing og fleira voru það stærstu útgerðirnar sem höfðu leigt mest frá sér. En þetta er flotinn sem hefur verið að leigja mest til sín í raun og veru. Ef skoðað væri hlutfallslega eru sumir þessara báta eingöngu háðir því að geta leigt aflaheimildir af öðrum.

Mér finnst það ekki segja neitt um það að þessir viðkomandi menn eigi ekki rétt til þess að stunda fiskveiðar á Íslandi. Þeir hafa stundað sjómennsku sína í 10, 20, 30 og sumir 40 ár og eiga til þess atvinnurétt eins og aðrir. Ef það er meining stjórnvalda að íslenskir útgerðarmenn einir og sér hafi eignast atvinnuréttindi til að stunda fiskveiðar held ég að það sé algjör misskilningur. Ef það á að mismuna mönnum með þeim hætti áfram sem verið hefur þá tel ég að það gangi aldrei.

Þar til viðbótar segir nú í þessari grein að við leggjum til að fiskiskip sem eru með meira en 80 þorskígildi fær ekki úthlutun eins og ég gat um hér áðan. Svo segjum við: Einnig skal þeim útgerðaraðilum sem gera út fiskiskip sem eru minni en 20 brúttórúmlestir að stærð, uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. um að hafa leigt til sín 40 þorskígildistonn eða meira á fiskveiðiárinu 1999--2000 og höfðu minna aflamark 1. sept. 1999 en 15 þorskígildistonn, úthlutað allt að 15 tonnum í þorskígildum, þorsks og ýsu. Þó skal þeim aldrei úthlutað meira en aflamark þeirra var þann 1. sept. 1999 og aldrei meira en sá afli sem þau veiddu og lönduðu á fiskveiðiárinu 1999--2000. Ekki er gert að skilyrði að þessi skip hafi leigt til sín viðbótaraflaheimildir. Þar væri í raun og veru verið að koma að vanda sjómanna og eigenda fiskiskipa sem eru minni en 20 brúttórúmlestir, eru með tiltölulega litla þorskveiðiheimildir, hafa ekki verið á leigumörkuðunum, hafa kannski eingöngu verið að gera skip sín út í tvo, þrjá, fjóra mánuði á ári eða eru með veiðiheimildir í öðru en þorski. Við getum tekið grásleppu sem dæmi þar sem menn hafa stundað grásleppuveiðar sem meginatvinnuveg sinn en hafa samt sem áður stundað einhverjar þorskveiðar og eiga tiltölulega lítinn aflakvóta eða hafa tiltölulega lítinn aflakvóta í þorski. Þarna er um tiltölulega fá skip að ræða. Ég hef farið yfir það og skoðað nokkuð gaumgæfilega og mér sýndist að þarna gæti verið um að ræða útdeilingu á um 350 tonnum, 350--400 tonnum því að þau skip sem eru undir 20 brúttólestum og hafa minni þorskígildiskvóta en 15 tonn eru tiltölulega fá. En þetta er líka sá hluti manna sem hafði ekki burðugar tekjur út úr grásleppuveiðum á síðasta ári og mun sennilega ekki hafa það heldur á þessu ári. Þarna er verið að koma til móts við ákveðin sjónarmið og ákveðin réttlætismál. Þegar verið er að gera leiðréttingu fyrir þá sem vinna í smábátakerfinu, krókakerfinu, teljum við eðlilegt að líta líka til þeirra sem eru í aflamarkskerfinu en hafa þar tiltölulega litlar veiðiheimildir og þröngan kost.

Við teljum að þær greinar sem ég hef nú rætt séu í raun og veru viðbótargreinar við það sem kom fram í frv. sjútvrh. ásamt þeim ákvæðum að breyta sóknardögum eða mega telja sóknardaga í 12 klukkustunda tímabilum í staðinn fyrir 24. Það er um réttlætismál að ræða til samræmingar við það sem verið er að gera við smábátaflotann að fresta þar kvótasetningu og gefa mönnum aukið frjálsræði til veiða út næsta fiskveiðiár meðan endurskoðun laganna stendur yfir. Rétt er að standa þannig að málum að þessi hluti flotans, sem hefur haft litlar aflaheimildir og hefur í raun og veru verið að greiða auðlindagjald til þeirra stóru á undanförnum árum, fái einhverja aðlögun að því að fá að lifa af endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna. Eins og allir vita hefur sjútvrh. lýst því yfir að hann telur að það tæki meira en ár að klára að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða.

Ég sé að tími minn er búinn en vonandi fæ ég tækifæri til að ræða þetta mál nánar síðar við umræðuna.