Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:24:06 (5482)

2000-03-20 17:24:06# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:24]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það frv. til laga sem hér er til umfjöllunar er flutt af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og þeim sem hér stendur. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara efnislega yfir frv., það var gert á mjög skilmerkilegan hátt af 1. flm., Guðjóni A. Kristjánssyni. Í sambandi við fiskveiðiumræðuna tel ég nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:

Mjög mikilvægt er fyrir endurskoðunarnefndina um lögin um stjórn fiskveiða að fá fram þau sjónarmið sem eru sett fram til að vinna sér tíma. Það er einnig mjög mikilvægt í umræðunni núna, einmitt fyrir þessa nefnd, að fá fram þau sjónarmið sem flokkarnir standa fyrir til að hægt sé að móta raunverulega vinnu í nefndinni um endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Endurskoðunin fer ekki fram öðruvísi en klárt sé hvert þeir sem takast á á hinu pólitíska sviði vilja stefna. Í því sambandi langar mig til að koma fram á þessum grunni hér að það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur að skoða hlutina út frá nýjum sjónarhornum eins og staða mála er í dag. Við eigum á þessari öld, nýrri öld, að nálgast hlutina á róttækan hátt.

Við eigum að hefja umræðuna til vegs um veiðarfæri. Hvers konar veiðarfæri viljum við nota? Krafan um vistvæn veiðarfæri er alls staðar uppi á borði í heiminum í kringum okkur. Þar verðum við að líta gagnrýnt á málin.

Við verðum að hefja til vegs og virðingar umræðuna um orku og orkunotkun í flotanum. Það er staðreynd að orkunotkun Íslendinga hefur stóraukist með togaravæðingunni og ef ekki hefðu komið til hitaveituframkvæmdir stæðum við raunar mjög illa varðandi þennan þátt málsins.

Við verðum að hefja til vegs og virðingar umræðuna um fjárfestingu. Hvers konar samsetningu viljum við hafa út frá fjárfestingu? Venjulegur togari kostar tvo milljarða en t.d. smábátarnir sem við viljum styrkja hlutdeildina í í aflanum kosta aðeins brot af því.

Við verðum að hefja umræðuna um vinnuaflið. Hvers konar samsetningu af vinnuafli viljum við hafa? Viljum við hafa þessa stórkostlegu vélvæðingu með miklum tilkostnaði eða viljum við lofa fleirum að njóta þess, bæði til sjávar og í landvinnslunni, til að vinna aflann?

Ekki þarf að fjölyrða um byggðamálaþáttinn. Það er ekki eðlilegt að stjórn fiskveiða sé á þeim nótum að í heilu byggðarlögunum, þar sem mörg hundruð manns búa með öllum þjónustuþáttum, geti menn geti átt von á því næsta morgunn að búið sé að malbika yfir kartöflugarðinn þeirra og þeir hafi enga möguleika til þess að afla sér lífsbjargar.

Það verður líka að fara með gagnrýni inn í vinnsluferlið vegna hugsunarinnar um nýja stjórn fiskveiða. Hvernig sjáum við framþróun okkar í sambandi við vinnsluna? Hvernig stöndum við að málum þar? Það er himinljóst að virðisaukinn í íslenskum sjávarútvegi vegna vinnslu er mjög lítill miðað við það sem við þekkjum t.d. hjá nágrönnum okkar eins og Dönum. Danir eru með miklu meiri virðisauka vegna fullvinnslu í landi og markaðsmála. Þetta eru hlutir sem við verðum að koma inn í umræðuna.

Þessi hörðu viðskiptasjónarmið út frá útgerðarþættinum verður að endurskoða. Þegar þeir þættir sem ég hef verið að tala um, sem eru kannski grundvöllurinn af hugsuninni um vistvænar veiðar, eru allir skoðaðir er ekki víst að þessi hörðu viðskiptasjónarmið sem við höfum keyrt eftir þjóni samfélaginu þegar er litið í heildarsamhengi á málin. Ekki út frá fjárfestingu, ekki út frá orku, ekki út frá hugsuninni um nýjar og bættar aðferðir við að taka fiskinn, og þá á ég við veiðarfæri.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á tel ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson fylgdi því mjög vel úr hlaði og ég hlýt að fagna því að við flm. að hæstv. sjútvrh. kom hér með frv. sem við ræddum fyrr í dag sem byggir að hluta til á sömu hugmyndum og við getum ekki annað en stutt það. Þetta frv. verður lagt inn til umfjöllunar í sjútvn. og ég bind enn þá miklar vonir við það að hugmyndir okkar nái framgangi í meðhöndlun sjútvn. þannig að frv. okkar verði til grundvallar við þá vinnu sem á síðan eftir að koma út úr nefndarstörfunum.

Að svo mæltu vil ég segja að þetta frv. er að hluta til það sama og fram kemur hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég vil árétta það eins og fram kom í framsögu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að þetta frv. til laga hefur verið á borðum þingmanna frá því í febrúar en hefur ekki fengist rætt fyrr en nú og var tími til kominn að fá þetta innlegg.