Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:30:41 (5483)

2000-03-20 17:30:41# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um þær frestanir á lögunum sem hér eru lagðar til og vísa til þess sem ég sagði við umræðuna hér á undan. En ég vil fjalla nokkuð um önnur atriði og byrja á því að tala um sólarlagið sem þarna er lagt til að verði í september 2001. Þó að ég hafi stutt slíkt sólarlag í aðdraganda kosninganna, en það var einmitt á stefnuskrá Samfylkingarinnar að menn gæfu sér ákveðinn tíma til endurskoðunar og að lögin rynnu þá út á þeim tíma, tel ég að sá tími sé liðinn sem menn höfðu til þess að bíða eftir sólarlaginu. Mér virðist það vera svo, eins og fleira sem hér hefur komið fram í umræðunni um sjávarútvegsmál, að fjöldamargir þingmenn gefi sér það að Vatneyrardómurinn verði ekki staðfestur og ýmislegt í þessu frv. gerir bókstaflega ráð fyrir að dómurinn verði ekki staðfestur. Ég tel ástæðu til að gera ráð fyrir að svo geti farið en grundvallarafstaðan er þó sú að við eigum að virða þau grundvallarsjónarmið sem eru á bak við atvinnufrelsi og jafnræði til að stunda sjó á Íslandi og það verður ekki gert nema með almennum reglum um sókn á fiskimiðin.

Lagt er til að gerðar verði breytingar hvað varðar sóknardagana og þeim verði í raun og veru skipt í tvennt, menn geti farið tólf tíma í einu. Engin spurning er um að ef þetta verður leyft þá geta menn sótt meira en áður. Út af fyrir sig ætla ég ekki að gera neinar athugasemdir við það að menn vilji auka sóknargetu þessa flota, en eitthvað fleira þarf þá að breytast líka einfaldlega vegna þess að sá litli hluti sem þeim flota er ætlaður í kvóta getur aldrei orðið undirstaða að neinni atvinnu fyrir þessa menn til framtíðar. Menn verða þá líka að horfast í augu við það að þeir fái að veiða margfalt það sem gert er ráð fyrir að þeir megi veiða í lögunum.

En það er líka annað sem er að og það er að eftir að búið var að breyta 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða er ákaflega erfitt að sjá fyrir sér hvernig eigi að stjórna fiskveiðum með sóknardagafyrirkomulagi því ekki er hægt að takmarka fjölda skipa í hverjum útgerðarflokki nema með einni aðferð. Og sú aðferð væri þá fólgin í því að bjóða veiðileyfin upp. Ég held að af ýmsu sem menn hafa látið sér detta í hug að gera væri það e.t.v. versta aðferðin vegna þess að það mundi þýða að skipta yrði flotanum upp í ótal marga útgerðarflokka því að auðvitað gætu einhverjir smábátamenn sem eru vanir að veiða kannski 15--20 tonn á færi aldrei boðið í á móti þeim sem veiða 200 tonn, þ.e. boðið í veiðileyfin. Ég er því á þeirri skoðun að við verðum að horfast í augu við það að sóknardagafyrirkomulag eins og þetta er ónýtt, og eina leiðin til að leyfa bátum að veiða með einhverju líku fyrirkomulagi er að gefa meira frjálsræði og láta það einfaldlega hafa sinn gang hvað þessir bátar veiða mikið.

Það sýndi sig á sínum tíma þegar menn byrjuðu á því að setja sóknardaga á bátana þá fóru menn fyrst að reyna að basla við að ná dögunum og veiðin jókst verulega eftir að takmarkanirnar voru settar, af því að Íslendingar þurfa alltaf að nota alla möguleika sem þeir fá. Meðan þeir höfðu ótakmarkað leyfi til að sækja sjó voru þeir rólegri en þegar þeir fengu þá ögrun að þeir mættu veiða svo og svo marga daga þurftu þeir auðvitað að ná þeim. Það virkaði því nákvæmlega öfugt þegar þetta var sett á á sínum tíma, ég held að menn hefðu betur aldrei gert það. En það er skoðun mín að þarna sé á ferðinni kerfi sem sé vonlaust að geti nokkurn tíma orðið að gagni.

Eitt ákvæði í 4. gr. er um að taka steinbítinn og ufsann út úr kvótanum og ég get tekið undir allt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði um það. Mér finnst full ástæða til að menn fari yfir þennan hluta málsins. Þrýstingur hefur verið frá útgerðarmönnum um að koma kvótanum á helst sem víðast og þá hefur ekki endilega verið fyrir hendi rökstuðningur sem byggir á því að einhver nauðsyn sé á því að setja kvóta á viðkomandi tegundir. Mér finnst að það ætti a.m.k. að vefjast fyrir mönnum að fara að setja kvóta á fisktegund sem ekki er í neinni hættu. Vitanlega ættu menn þá að taka slíkan kvóta til endurskoðunar ef það hefur sýnt sig að menn hafi tekið ákvarðanir sem ekki þurfti að taka. Ég er þess vegna sammála því að menn ættu að skoða það allt saman upp á nýtt.

Síðan er tillaga, b-liðurinn í 4. gr., um að taka 1,5% aflaheimilda í þorski og ýsu og úthluta þeim sérstaklega til skipa. Þarna er auðvitað á ferðinni góður hugur til að reyna að rétta það sem mönnum finnst vera óréttlæti og ekkert nema gott um það að segja. En það er samt byggt á því sem ég sagði áðan, þ.e. á þeirri hugsun að þetta kerfi verði áfram til staðar og menn hafi áfram rétt til þess að mismuna mönnum með því að handstýra úthlutun á veiðiheimildum. Ég tel að við getum ekki haldið áfram á þeirri braut, auk þess sem þarna er líka gert ráð fyrir að Vatneyrardómurinn verði ekki staðfestur. Ég tel að það sé rangt að gera ráð fyrir að svo geti ekki farið, fyrir utan það að ég hef þá bjargföstu trú að við komumst aldrei út úr þeim vandræðum sem við höfum ratað í í sambandi við stjórn fiskveiða ef við förum ekki að útbúa reglur sem hafa almennt gildi. Þess vegna tel ég að þó að góður hugur sé á bak við það að reyna að rétta hlut þeirra sem hafa farið verr út úr þessu kerfi undanfarin ár, sé sá tími því miður liðinn hjá að standa í slíku því að menn verða að horfast í augu við það að koma á framtíðarskipulagi með almennum reglum.

Ég ætla ekki að ræða almennt um fiskveiðistjórnarmálin núna, ég geri ráð fyrir að umræðan haldi hér áfram og við fáum tækifæri til að ræða um þau undir liðnum sem er hér á eftir, þ.e. þáltill. Frjálslynda flokksins og vinstri grænna sem er líka á dagskrá. Ég ætla mér að ræða þar um þau stefnumið sem þar koma fram og hvaða skoðanir ég hef á þeim. Að vísu er þrengri stakkur skorinn fyrir þá umræðu og það hefði auðvitað verið freistandi að ræða um það undir þessu frv. að einhverju leyti en ég ætla nú að neita mér um það og gera það heldur undir þeim lið sem kemur næstur á eftir.

Það er eitt sem mig langar þó til þess að segja af því að hér er á ferðinni tillaga um að taka aflaheimildir sem núna eru hjá einhverjum tilteknum hluta flotans eða almennt af honum öllu heldur og dreifa þeim út, að nýlega kom fram skýrsla sem LÍÚ lét vinna þar sem niðurstaðan varð sú að útgerðarmenn sem fengu úthlutað aflaheimildum á grundvelli þess að þeir væru með atvinnuréttindi á sínum tíma mundu nú allir vera búnir að selja þessi atvinnuréttindi sín, nema 19% sem væru eftir. Og það virtist vera að LÍÚ-forustan hafi látið gera þetta sem einhvers konar innlegg í rökstuðning fyrir því að ekki væri hægt að fara til baka.

Ég tek þessum tíðindum með miklum fyrirvara. Mér finnst að menn eigi að horfa á þetta frá öðru sjónarhorni, þ.e. að þeir sem seldu frá sér þessi atvinnuréttindi hafi nú kvatt þau og þeir sem keyptu þau hafi ekki verið að kaupa neitt annað en það sem var á boðstólum, þ.e. úthlutunarrétturinn eins og hann var á þeim tíma. Í lögunum um stjórn fiskveiða stóð allan tímann að menn hefðu ekki eignast neinn rétt til frambúðarúthlutunar þó að þeir hefðu keypt kvóta af einhverjum öðrum. Þess vegna finnst mér að umræðan um atvinnuréttindin hljóti þá að taka svolítið mið af því að sá hópur sem nú er með kvóta undir höndum og menn hafa talað um sem atvinnuréttindi þessara manna, hefur minnkað býsna mikið því að það eru þá ekki nema 19% af öllum heila kvótanum sem hægt er að skilgreina á þann hátt. Og ég geri ráð fyrir að það sé býsna stór hluti af þessum 19% hjá stærstu fyrirtækjunum í landinu.

Menn hljóta því að þurfa að velta fyrir sér hvernig líta eigi á þennan hluta málsins þegar þetta hefur verið grundvallarrökstuðningur frá ýmsum sem hafa viljað líta á þetta sem atvinnuréttindi, hversu óendanlega lítið í raun og veru er eftir af því sem menn hefðu getað kallað atvinnuréttindi með þeim rökstuðningi sem ég vil taka fram að ég hef aldrei tekið undir. Vegna þess að hafi verið um að ræða atvinnuréttindi manna á þeim tíma og menn viljað líta á atvinnuréttindin til að veiða fisk, og hafi það verið stjórnarskrárvarin réttindi hlýtur að liggja beint við að þeir menn sem héldu áfram að veiða fisk vegna þess að þeir höfðu leigt sér atvinnuréttindi eða keypt af hinum sem höfðu þessi þrjú ár sem notuð voru eða hvað það nú var, hefðu þá verið sviptir þessum stjórnarskrárvörðu atvinnuréttindum. Slík röksemdafærsla getur ekki gengið upp og ég hef reyndar aldrei getað séð hvernig menn hafa getað byggt málflutning á því að kalla kvótaúthlutunina atvinnuréttindi. Eftir að búið var að taka þennan kvóta og úthluta honum hafði honum verið breytt í sérréttindi eða hlunnindi eða eitthvað sem væri í líkingu við slík réttindi. En atvinnuréttindi geta það ekki verið úr því að menn gátu selt einhverjum öðrum þennan rétt.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta því að það hefur oft verið ofarlega í umræðunni hvað það væri rosaleg árás á þá sem væru í útgerð ef farið yrði að hrófla við þessu kerfi og verið væri að ráðast á fyrirtæki um allt land, en svo kemur bara í ljós þegar þeir skoða þetta sjálfir sem hafa viljað halda þessum röksemdum sem mest til haga að það eru innan við 20% eftir af þessum atvinnuréttindum sem þeir hafa viljað kalla svo.

Hæstv. forseti. Ég ætla, eins og ég sagði áðan, að ræða almennt um þessi mál undir næsta lið og hef lokið máli mínu.