Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 17:51:37 (5487)

2000-03-20 17:51:37# 125. lþ. 82.11 fundur 429. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir allt sem hv. þm. sagði um leiguliðana. Það hefur náttúrlega verið skelfilegt óréttlæti sem menn hafa búið við, verið sviptir atvinnuréttindum sem sjómenn og útgerðarmenn ættu að hafa í útgerð á Íslandi en hafa ekki haft síðan þetta kerfi var sett á. Vissulega á ekki að tala óvirðulega um hugmyndir um að reyna að rétta þann hlut. Hins vegar er ákaflega flókið og snúið að búa til réttlátt kerfi úr því kerfi sem nú er og ekki treysti ég mér til að handvelja þá sem eiga að fá og hafna þeim sem eiga ekki að fá. Þess vegna hef ég lagt á það áherslu, og það er grundvallarafstaða mín, að við eigum ekki að bíða eftir einhverjum Vatneyrardómi. Við eigum að taka afstöðu á grundvelli almennra forsendna. Það höfum við verið að gera í Samfylkingunni og tillögur okkar munu ganga út frá því. Við munum halda okkur við tillögur okkar hvernig sem Vatneyrardómurinn fellur því að þær eru hugsaðar út frá þessu.

En það sem hv. þm. sagði um LÍÚ og könnunina gefur mér tilefni til að segja að enda þótt stór hluti af veiðiheimildum hafi skipt um eigendur með þeim hætti að menn hafi selt hlutabréf í fyrirtækjum er enn ein ágæt röksemd fyrir því að aldrei er hægt að tala um þetta fyrirbrigði eins og atvinnuréttindi því þeir sem hafa átt hlutabréf í fyrirtækjum eru ekki endilega menn sem hafa komið nærri því að veiða fisk eða vinna við þennan atvinnurekstur sem slíkan heldur hafa af einhverjum ástæðum átt í þessum fyrirtækjum. Á milli atvinnuréttinda og eignarhalds á hlutabréfum er langur vegur.