Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:53:43 (5500)

2000-03-20 18:53:43# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:53]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að flestir séu sammála um að sjávarútvegurinn sé ein af undirstöðum efnahagsgangverksins í þjóðfélaginu og þess vegna sé eðlilegt að markaðslögmálin ráði þar eins og annars staðar í atvinnulífinu þar sem við gerum kröfur. Ég held að við séum líka sammála um það að þó að hugsjónir eins og þær sem koma fram í lögum dýranna í Hálsaskógi séu fallegar þá eru þær ekki framkvæmanlegar í atvinnurekstri, allra síst í atvinnurekstri sem er í harðri samkeppni.

Þess vegna er það alveg rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson segir, menn reyna alltaf að finna leiðir. Menn leita leiða og ef einhvers staðar er búin til glufa er farið í gegnum hana. Þess vegna velti ég því fyrir mér --- og þetta eru vangaveltur sem ég vænti að fá viðbrögð við --- hvort aðilum sem meinað er að leigja frá sér veiðiheimildir ef þeir ekki geta veitt sjálfir, muni þá ekki t.d. finna þá leið að leigja frá sér skipið með veiðiheimildunum þannig að annar aðili veiði. Og í öðru lagi hvort hv. þm. sjái mun á því hvort útgerð leigir eða selur frá sér heimildir sem henni voru afhentar í gjafakvótakerfi eða hvort útgerð fær að leigja frá sér heimildir sem hún er áður búin að leigja til sín og þar með að greiða fyrir.