Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:58:21 (5503)

2000-03-20 18:58:21# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., Flm. GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað hægt að finna fjölmargar leiðir til þess að mæta því að mönnum séu ekki settar ósanngjarnar reglur að þessu leyti. Það er t.d. hægt að finna þá reglu að menn geti skilað inn aftur og eigi þá rétt á því að fá greitt 90% af andvirðinu til baka þaðan sem þeir fengu heimildirnar. Ég sé því ekki annað en að auðveldlega sé hægt að mæta slíkum uppákomum.

Ég skil áhyggjur hv. þm. þannig að verið sé að velta því upp t.d. hvað gerist ef skip bilar í sex mánuði. Í lögunum núna er m.a. ákvæði um að ef skip bilar í langan tíma þá þurfi það ekki að uppfylla veiðiskylduna, ef ég man rétt. Ég lít því svo á að hér sé bara um hreint útfærsluatriði að ræða og ég get ekki ætlað nokkrum manni það að útfæra lögin þannig að menn stórskaðist á að vinna eftir þeim. Menn hljóta bara að útfæra reglurnar þannig að meginmarkmiðið sé að þeir séu ekki að taka til sín veiðiheimildir með neinu móti öðruvísi en að þeir ætli sér að veiða þær, en ef eitthvað kemur hins vegar fyrir sem gerir það að verkum að þeim tekst það ekki þá eigi þeir einhverja eðlilega útgönguleið sem býður ekki upp á að menn geti braskað með þetta sín á milli.