Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:36:05 (5520)

2000-03-21 14:36:05# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. keppast um að skýra frá því sem allir vita en svara ekki því sem ég spurði um og ætti það þó að vera einna helst formaður þingflokks Sjálfstfl. sem ætti að geta svarað því. Mig rekur nefnilega minni til þess að svipaðir atburður urðu uppi í þessum sama flokki, þegar annað stórt utanríkismál var til umræðu, þ.e. afstaðan til EES. Þá var okkur sem vorum í samstjórn með Sjálfstfl. ekki bara tilkynnt að það væru einhverjir sjálfstæðismenn sem væru ekki reiðubúnir til að styðja málið heldur jafnframt hversu margir þeir væru og að Sjálfstfl. mundi tryggja málinu framgang á Alþingi og sjá til þess að nægilega margir þingmenn flokksins greiddu atkvæði með því svo að það þyrfti ekki að treysta á stjórnarandstöðuna til að afgreiða málið.

Mín einfalda spurning er þessi, það er vont að spyrja svona að utanrrh. fjarverandi: Sýndi þingflokkur Sjálfstfl. utanrrh. ekki þessa kurteisi? Ég fæ svar við öllu nema því sem ég spyr um. Ég fæ svar við því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi áður látið afstöðu sína í ljósi. Ég fæ svar við því að þingflokkur Sjálfstfl. hafi heimilað framlagningu málsins en ég fæ ekki svar við þessari einföldu spurningu sem ég er að bera fram: Var hæstv. utanrrh. sýnd sú sjálfsagða tillitssemi að greina honum frá því hversu margir þingmenn Sjálfstfl. væru andvígir þessu máli og að engu að síður þrátt fyrir afstöðu þeirra væru svo margir þingmenn Sjálfstfl. fylgjandi málinu að þingflokkur Sjálfstfl. ábyrgðist að nægilegur þingmeirihluti væri á Alþingi til að afgreiða málið fyrir atbeina stjórnarflokkanna án þess að þurfa að leita til stjórnarandstöðunnar um stuðning? Þetta er einföld spurning, herra forseti, og ég skil ekki hvers vegna er svona erfitt að fá svar við henni.