Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:38:41 (5522)

2000-03-21 14:38:41# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm., formanni þingflokks Sjálfstfl., fyrir. Hún upplýsti okkur að vísu ekki um hvað vænta mætti margra þingmanna Sjálfstfl. í hópi þeirra sem sætu hjá eða greiða atkvæði á móti. En hún tók þó af öll tvímæli þannig að ég lít svo á að hæstv. utanrrh. hafi verið fullvissaður um það af hálfu Sjálfstfl. að þó svo andstöðu gætti innan flokksins væru nægilega margir þingmenn Sjálfstfl. samþykkir tillögunni til þess að tryggja að hún yrði afgreidd. Það er hins vegar að verða vaninn hjá þessum ágæta flokki þegar kemur að stórum ákvörðunum í utanríkismálum, ekki síst er varða samskipti okkar við nánustu viðskiptaþjóðir, þá klofnar flokkurinn ævinlega og það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að ekki væri lengur hægt að reiða sig á Sjálfstfl. í utanríkismálum. En það er að gerast --- ekki bara núna heldur líka þegar EES-samningurinn var afgreiddur á sínum tíma. Það er nokkurt nýmæli og umhugsunarvert nýmæli.