Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:52:34 (5524)

2000-03-21 14:52:34# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti o.fl. Ég fagna því að þetta frv. sé komið fram en um leið vil ég vekja athygli á því að þegar hæstv. viðskrh. tók við var hér hávær umræða um að viðskipti á Verðbréfaþingi og í einstökum fyrirtækjum og stofnunum færu ekki fram sem skyldi. Við því var talið nauðsynlegt að bregðast með setningu reglna.

Við yfirlestur á þessum reglum þá finnst mér ekki mjög langt gengið. Ég hefði viljað sjá hæstv. viðskrh. ganga mun lengra. Þrátt fyrir að við séum kannski að slíta barnsskónum í þessum efnum, þ.e. að verðbréfaviðskipti verði almenn og á markaði, þá hafa verðbréfaviðskipti átt sér stað um heim allan um nokkuð langt skeið. Því velti ég upp þeirri spurningu, virðulegi forseti, og varpa til hæstv. viðskrh.: Hvernig samræmast þær reglur sem hún ber hér fram á hinu háa Alþingi þeim mörkuðum sem lengst eru komnir á þessu sviði.

Ég velti því jafnvel fyrir mér hvort við ættum ekki að skoða það í mikilli alvöru að taka upp reglur bandaríska markaðarins. Þær eru komnar langsamlega lengst enda hafa þar verið stunduð verðbréfaviðskipti á mörkuðum um langt skeið. Þeir hafa þróað reglur sínar í þá mynd sem þær eru í nú. Þess vegna spyr ég hæstv. viðskrh. hvernig reglurnar sem hér er verið að ræða eru í samanburði við reglurnar þar. Var að einhverju leyti horft til annarra markaða við samningu þeirra. Ég held að óþarft sé að finna upp hjólið í þessum efnum. Þess í stað ætti að leita í smiðju þeirra sem lengst eru komnir.

Ég beini því þessum spurningum til hæstv. viðskrh.