Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 14:54:34 (5525)

2000-03-21 14:54:34# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. finnst ekki langt gengið í þessu frv. Ég vil nú halda því fram að þetta frv. sé ágætlega unnið og til verulegra bóta. Við samningu þess var að sjálfsögðu haft til hliðsjónar það sem gengur og gerist í Evrópu og innan Evrópska efnahagssvæðisins eins og með aðra löggjöf.

Hv. þm. nefndi bandaríska markaðinn og taldi að hugsanlega ættum við að horfa meira til hans í þessum efnum. Ég vil minna á að bandaríski markaðurinn er kannski 100 ára á sama tíma og sá íslenski er kannski 10 ára. Við verðum því að gæta okkar og sníða okkur stakk eftir vexti.

Varðandi spurninguna um hvað í þessu frv. ætti að tryggja betur en sú löggjöf sem við búum við í dag að ekki verði slys eins og fyrir nokkrum vikum --- ég lýsti m.a. yfir mikilli óánægju með þróun markaðarins þá --- þá eru í þessu frv. sett í lög, ef af lögum verður, ákvæði um Kínamúra. Sterkari stoðum er skotið undir verklagsreglurnar. Það vandamál sem við áttum við að etja hér var kannski fyrst og fremst það að verklagsreglur voru brotnar. Ég tel að með þessu lagaákvæði sem nú er sett inn þá styrkjum við reglurnar og komum í veg fyrir að annað eins gerist til framtíðar.

Þetta eru aðalatriðin fyrir utan aukna kröfu um menntun sem hlýtur alltaf að vera af hinu góða.