Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 15:24:46 (5529)

2000-03-21 15:24:46# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og nokkuð skýrðist málið þó það hafi kannski ekki verið mjög mikið. Sumpart fannst mér hæstv. ráðherra misskilja það sem fram kom í máli mínu áðan.

Ég fagna því að sjálfsögðu að ráðherrann tekur undir að það eigi að athuga hvort ekki eigi að skoða ákvæði um meðferð trúnaðarupplýsinga og ég mun vissulega taka það upp í efh.- og viðskn. og lít svo á að ráðherra líti jákvæðum augum á að það sé skoðað að slíkt sé gert. Eins lokar ráðherrann ekki á það sem ég tel afar mikilvægt að skoða betur að herða á ýmsum ákvæðum sem snerta innherjaviðskipti, t.d. að bann sé sett við viðskiptum innherja að liðnum ákveðnum tíma frá birtingu afkomutalna fyrirtækja. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að skoða það mál.

Ráðherrann vitnar í mál sem Verðbréfaþing var með til skoðunar og segir að Verðbréfaþing hafi lokið því máli án þess að vísa því til Fjármálaeftirlitsins og því sé ekkert meira um það mál að segja. En mér finnst hæstv. ráðherrann misskilja nokkuð hvað það var sem Verðbréfaþing var með til umfjöllunar. Það voru fyrst og fremst afkomuviðvaranir Búnaðarbankans sem Verðbréfaþing taldi ekki efni til frekari aðgerða út af en það snerti ekki beint þessi innherjaviðskipti. Ég spurði einmitt ráðherrann um þær ábendingar sem komu fram hjá Verðbréfaþingi í tengslum við yfirlýsingu Verðbréfaþings vegna þeirrar afkomuviðvörunar sem kom fram hjá Búnaðarbankanum en afkomuviðvaranirnar fólu í sér breyttar forsendur sem leiddu til aukins hagnaðar í bankanum sem bankinn upplýsti að hefði tengst þessum nýju afkomuviðvörunum. En í tengslum við það mál taldi Verðbréfaþing að í ljósi umfjöllunar fjölmiðla og annarra um viðskipti innherja með bréf bankans og fleira að nauðsynlegt væri að setja skýrari ákvæði í lög og reglur um framkvæmd útboða um viðskipti umsjónaraðila, innherja og starfsmanna, með bréf í tengslum við útboð svo og um viðskipti hlutafélaga með eigin bréf --- svo og um viðskipti hlutafélaga með eigin bréf.

Þetta taldi Verðbréfaþing að þyrfti að ræða og sagðist mundu beita sér fyrir viðræðum við Fjármálaeftirlitið, stjórnvöld og samtök aðila á verðbréfamarkaði um bætta skipan þessara mála. Þessu svaraði hæstv. ráðherra ekki og ég spyr hvort fram hafi farið þessar viðræður milli ráðherrans hæstv. og ráðuneytisins og Verðbréfaþings um þau atriði sem ég hef nefnt. Þetta eru atriði sem tengjast mjög því frv. sem er til umræðu og mjög brýnt fyrir efh.- og viðskn., sem skoðar þetta mál, að fá upplýsingar um það hvort þessi samtöl hafi farið fram milli Verðbréfaþings og ráðuneytisins um þau atriði sem snerta innherjaviðskipti og það að taka miklu betur á þeim málum bæði í lögum og reglugerðum en gert hefur verið. Það snertir t.d. útboð eins og hér er nefnt og um viðskipti hlutafélaga með eigin bréf.

Hæstv. ráðherra kom t.d. ekki inn á það sem ég nefndi í máli mínu og tengdist verðmyndun hlutabréfa en ég tel óeðlilegt að verðbréfafyrirtæki standi sjálf í miklum viðskiptum á hlutabréfamarkaði um leið og þau eru í ráðgjöf við einstaklinga og fyrirtæki. Það er þetta sem hefur verið töluvert gagnrýnt í efh.- og viðskn. og það er þetta atriði sem ég tel mjög brýnt að ráðherrann svari vegna þess að ég tel að með þessu sé veruleg hætta á þegar verðbréfafyrirtæki standa sjálf í miklum viðskiptum á hlutabréfamarkaði fyrir eigin reikning að það geti haft óeðlileg áhrif á gengi bréfanna. Mér finnst afar mikilvægt að fá fram skoðun hæstv. ráðherra á því.

[15:30]

Varðandi Fjármálaeftirlitið og traustið sem hæstv. ráðherra sagðist bera til þess, þá átta ég mig ekki á því af hverju hæstv. ráðherra er að blanda því inn í þetta mál vegna þess að það er svo sannarlega hægt að taka undir með hæstv. ráðherra að Fjármálaeftirlitið hefur staðið sig mjög vel, ekki síst af því að löggjöfin um Fjármálaeftirlitið er mjög veikburða og þarf að herða á henni, eins og verið er að gera nú í þinginu. Ég skil þess vegna ekki af hverju hæstv. ráðherra er að blanda trausti sínu á Fjármálaeftirlitinu inn í þær spurningar sem ég hef sett fram.

Ég spurði líka hæstv. ráðherra, sem hún ekki svaraði, um lyktir á ýmsum málum sem Fjármálaeftirlitið hefur verið með til skoðunar. Ég er ekkert að tala um að ráðherrann eigi að blanda sér inn í það mál, síður en svo. Auðvitað á Fjármálaeftirlitið, sem á að vera sjálfstætt í störfum sínum, að vera óháð boðvaldi ráðherrans. En ég hefði þó haldið að hæstv. ráðherra hefði fengið niðurstöður og lyktir í ýmsum málum sem Fjármálaeftirlitið er að skoða, bæði að því er varðar þau sex fjármálafyrirtæki sem brutu verklagsreglurnar og eins það sem fram kom í máli mínu og spyr ráðherrann hæstv. aftur um það: Eru komnar einhverjar lyktir í það mál sem upp kom þegar aðalbankastjóri Búnaðarbankans var sakaður um að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum rangar upplýsingar vegna athugunar sem Fjármálaeftirlitið að ósk viðskrn. var að gera á viðskiptum bankans við tiltekinn fyrrverandi viðskiptamann bankans? Er ráðherra kunnugt um að komnar séu lyktir í það mál? Ráðherrann getur svarað því með einföldu já-i eða nei-i og auðvitað er það fjarri öllu lagi að hér sé verið að tala um að ráðherrann blandi sér með einum eða öðrum hætti í afskipti eða niðurstöður Fjármálaeftirlitsins af því máli.

Ég er raunverulega að freista þess hér, herra forseti, með síðari ræðu minni að fá fyllri upplýsingar en ég fékk í ræðu ráðherrans við ýmsum þeim spurningum sem ég setti fram en þær eru raunverulega fjórar, svo ég dragi það saman hér í lokin. Það er hvort farið hafi fram viðræður milli ráðuneytisins og Verðbréfaþings um þau mikilvægu atriði sem Verðbréfaþing telur að þurfi að setja lög og reglur um og ég ætla ekki að tíunda hér aftur. Í öðru lagi hvort ráðherrann telji ekki að setja þurfi því ákveðnar skorður að Verðbréfaþing geti fyrir eigin reikning verið í viðskiptum á hlutabréfamarkaði og þar með haft hugsanlega óæskileg áhrif á gengi eða verðmyndun hlutabréfanna. Síðan spyr ég hvort lyktir séu komnar í það mál sem Fjármálaeftirlitið var að fjalla um sem snerti aðalbankastjóra Búnaðarbankans og ég tel ekki ástæðu til að tíunda hér frekar. Að lokum spyr ég um afstöðu hæstv. ráðherra til þáltill. sem nú er til umfjöllunar í efh.- og viðskn. um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði sem felur í sér að viðskrh. sjái til þess að allar stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaðnum setji sér sértakar siðareglur í viðskiptum.

Fleira mætti auðvitað fara inn á vegna þess að hæstv. ráðherra fór t.d. ekki inn á það sem ég tel mikilvægt að fá fram afstöðu hennar til, þ.e. hvort ekki þurfi að skilgreina betur innherja og tilkynningarskyldu þeirra en gert hefur verið og vitnaði þar í skýrslu Verslunarráðs Íslands.

Ég skal, herra forseti, ekki tefja umræðuna frekar, enda á ég sæti í efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar, en ítreka, herra forseti, enn og aftur spurningar mínar til hæstv. ráðherra og vænti þess að hún svari þeim í síðari ræðu sinni.