Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 15:34:16 (5530)

2000-03-21 15:34:16# 125. lþ. 83.14 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af síðari ræðu hv. þm. Ég ætla að ítreka það sem ég hef þegar sagt, að það eru kínamúrar sem leysa mörg af þeim málum sem hv. þm. nefndi. Frv. kveður á um hæfisskilyrði og skerpu á verklagsreglum sem er nú kannski grundvallaratriðið í þessu máli öllu saman.

Hv. þm. endurtók spurningu sína um meðferð trúnaðarupplýsinga. Hvað það mál varðar er ákveðin athugun í gangi og ég lét það koma fram. Það eru ýmis mál sem hv. þm. hefur greinilega áhuga á að vita meira um, sem eru til athugunar í Fjármálaeftirlitinu, en ég get ekki svarað spurningum sem varða eftirlitið. Þegar það hefur lokið umfjöllun sinni um mál eru þau gerð opinber og þá hef ég aðgang að þeim eins og aðrir en ekkert umfram það.

Um málið sem hv. þm. nefndi og varðar aðalbankastjóra Búnaðarbankans, þá er nákvæmlega eins vaxið með það mál og önnur, að ég hef ekkert um það að segja, en það er eftir því sem ég best veit enn þá til athugunar í Fjármálaeftirlitinu, a.m.k. hafa mér ekki borist fregnir um að því hafi verið lokið.

Síðan var fjallað um útboð. Í 7. gr. frv. er kveðið á um útboð og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Almennt útboð verðbréfa, annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla, skal fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja skv. 8. gr. eða annarra aðila sem til þess hafa heimild í lögum. Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveða nánar á um almennt útboð verðbréfa, svo sem um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs, tilkynningar um almennt útboð, reglur um fyrsta söludag almennra útboða og tilkynningar verðbréfafyrirtækja og annarra aðila, sem hafa milligöngu um almennt útboð, um heildarsölu verðbréfa í almennu útboði.``

Í þessari grein er reglugerðarheimild og í ráðuneytinu er að sjálfsögðu verið að vinna að því hvernig málum skuli verða fyrir komið í þeirri reglugerð.

Þetta held ég að séu nú aðalatriðin í máli hv. þm. en ég vil bara ítreka það að ég tel að þetta frv. sé mjög til bóta og auðvitað erum við að þróa þennan unga markað okkar en við verðum líka að taka tillit til aðstæðna og við megum ekki drepa markaðinn algjörlega niður, eins og mér finnst nánast að hv. þm. sé að segja með orðum sínum. Mér leikur forvitni á að vita hvernig það frv. yrði úr garði gert sem hún legði fram í eigin nafni og varðaði þennan málaflokk.