Húsgöngu- og fjarsölusamningar

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 15:40:23 (5532)

2000-03-21 15:40:23# 125. lþ. 83.15 fundur 421. mál: #A húsgöngu- og fjarsölusamningar# (heildarlög) frv. 46/2000, viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga sem fyrir liggur á þskj. 684.

Frv. þetta er samið í viðskrn. í þeim tilgangi að lögleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997, um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga. Í 15. gr. tilskipunarinnar kemur fram að aðildarríkin skuli samþykkja lög og önnur nauðsynleg fyrirmæli eigi síðar en þremur árum frá gildistöku hennar. Framangreind tilskipun var birt í Stjórnartíðindum ESB 4. júní 1997 og því ber aðildarríkjum að hafa sett lög í samræmi við ákvæði hennar eigi síðar en 4. júní árið 2000.

Í tilskipun 97/7/EB, um fjarsölu, er að finna margvíslegar lágmarksreglur sem miða að því að veita neytendum vernd með tilliti til fjarsölu á vöru og þjónustu. Frumvarp þetta miðar að því að setja í innlendan rétt ákvæði tilskipunarinnar.

Fjarsölusamningar eru gerðir með aðstoð eins eða fleiri fjarskiptamiðla og undir þeim kringumstæðum notar seljandi fjarskiptatæknina til að gera samning við neytanda án þess að þeir hittast. Eðlilegt er að við slíkar kringumstæður sé neytendum veitt aukin réttarvernd, svo sem víðtækari réttur til upplýsinga af hálfu seljanda svo og réttur til að falla frá samningi ef varan uppfyllir ekki við skoðun og móttöku þær forsendur sem hann lagði til grundvallar við kaupin og gat vænst að hún uppfyllti samkvæmt upplýsingum frá seljanda. Í frumvarpinu er einnig að finna takamarkanir sem varða beina markaðssókn til neytenda en á undanförnum árum hefur umræða og aðgerðir til verndar neytendum aukist vegna tilkomu nýrra aðferða og miðla, svo sem notkun símbréfa, tölvupósts og annarra ágengra söluaðferða. Í 14. gr. frumvarpsins eru m.a. ákvæði sem varða slíka markaðsstarfsemi. Auk þess má geta að dómsmálaráðuneytið hefur nýlega lagt fram frumvarp í því skyni að lögleiða tilskipun 95/46/EB, sbr. frumvarp til laga um persónuvernd og persónuupplýsingar, einkum 28. gr. þess frumvarps þar sem lagðar eru til reglur til verndar einstaklingum þegar um beina markaðssókn er að ræða. Á Alþingi voru einnig samþykkt í lok ársins 1999 ný fjarskiptalög, nr. 107/1999. Í þeim lögum hefur íslenskur réttur verið aðlagaður ákvæðum í tilskipun 97/66/EB, um friðhelgi einkalífs á sviði fjarskipta, en þar má sérstaklega benda á 12. gr. tilskipunarinnar og 34. gr. laga nr. 107/1999. Í framangreindum ákvæðum er áskrifendum að fjarskiptaþjónustu veittur réttur með sérmerkingum, t.d. í símaskrá, að undanþiggja sig frá beinni markaðssókn með notkun síma, o.þ.h. fjarskiptaþjónustu.

Af framansögðu er ljóst að við samningu frv. hefur því einnig verið tekið tillit til réttarþróunar á sviði persónuverndar og fjarskipta. Við undirbúning málsins var einnig ákveðið að fella inn í frv. þetta ákvæði gildandi laga um húsgöngusölu en þau voru sett árið 1992 þegar Íslandi bar skylda til samkvæmt EES-samningnum að setja í íslensk lög ákvæði tilskipunar ráðsins 85/577/EB, um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva. Ótvírætt hagræði er af því bæði fyrir neytendur og seljendur að þeir hafi ávallt gott yfirlit yfir þær reglur sem gilda og að slíkum reglum sé skipað innan sama lagabálks sé þess nokkur kostur. Ör þróun hefur verið á ýmiss konar söluaðferðum og í reynd hafa skilin milli mismunandi tegunda söluaðferða verið að eyðast. Þannig er t.d. algengt að samhliða því að stunda verslun á fastri starfsstöð skipuleggi seljandi auk þess netverslun eða aðrar tegundir fjarsölu. Ýmis rök eru því fyrir því að skipa ákvæðum þessara tilskipana á þennan hátt og munu önnur grannríki á Norðurlöndum fara svipaða leið við setningu laga um þetta efni samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér um það mál.

Ég vil þá með leyfi hæstv. forseta víkja að einstökum ákvæðum frv. Í 1. gr. er kveðið á um gildissvið frv. en sem fyrr segir er því ætlað að taka til samninga sem gerðir eru við neytendur með fjarsölu eða húsgöngusölu.

[15:45]

Í 2. gr. er fjarsala skilgreind og einnig eru í þeirri grein ýmis hugtök skilgreind sem notuð eru í frumvarpstextanum.

Í 3. og 4. gr. er að finna upptalningu á þeim tegundum samninga sem eru undanþegnir ákvæðum þessa frv. Þannig tekur frv. þetta til að mynda ekki til samninga um sölu á fjármálaþjónustu né heldur samninga um smíði eða byggingu fasteigna. Ákvæði frv. taka heldur ekki til samninga sem gerðir eru við húsgöngusölu þar sem verðmæti samninganna er 4.000 kr. eða minna.

Í 5. gr. er kveðið á um þær upplýsingar sem seljendum vöru og þjónustu er skylt að veita áður en samningur er gerður við neytandann. Jafnframt er tekið fram að þegar um símasölu er að ræða sé ávallt skylt að taka fram þegar í upphafi að samtalið fari fram í viðskiptalegum tilgangi.

Í 6. gr. er tekið skýrt fram að neytandi eigi ávallt rétt á að fá skriflega staðfestingu á þeim upplýsingum sem seljanda er skylt að veita honum samkvæmt 5. gr. frv. Í ákvæðinu er tekið fram að ef um er að ræða markaðssókn sem beint er að íslenskum neytendum, svo sem með tilboðum á íslensku, um kaup á vöru eða þjónustu, þá skulu allar upplýsingar sem seljanda er skylt að veita samkvæmt ákvæðum frv. einnig veittar á íslensku.

Í 7. gr. eru nokkrar samningstegundir undanþegnar frá þeirri samningsskyldu sem almennt hvílir á seljendum vöru og þjónustu samkvæmt ákvæðum frv. Dæmi um slíka samninga má nefna samninga um sölu á matvælum eða þess konar vörum sem ætlaðar eru til daglegrar neyslu, enda eiga ákvæði um upplýsingaskyldu ekki við þegar um er að ræða samninga um kaup á slíkum vörum.

Í 8. gr. er að finna grundvallarreglu frv. um rétt neytenda til að falla frá samningi sem gerður er í fjarsölu og er hann hvorki skyldugur að tilgreina nokkra ástæðu fyrir því né skal hann greiða nokkur viðurlög af því tilefni. Neytendum var jafnframt veittur sambærilegur réttur til að falla frá samningi og skila vöru þegar sett voru árið 1992 lög um húsgöngusamninga og mun það gilda áfram um þess konar samninga samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Framangreind ákvæði eru í samræmi við ákvæði tilskipana Evrópusambandsins en á alþjóðavettvangi hefur sífellt verið lögð meiri áhersla á að auka neytendavernd og sjást þess glögg merki í lagasetningu svo sem í frv. því sem ég mæli nú fyrir.

Í 9. gr. er kveðið nánar á um fresti og frestsdaga er neytandi hefur til þess að beita rétti sínum til að falla frá samningi. Almennt miðast upphaf frestsins við það tímamark er vara er afhent eða samningur um þjónustu er gerður, enda hafi seljandi þá jafnframt fullnægt þeirri upplýsingaskyldu sem á honum hvílir samkvæmt ákvæðum frv. Í vissum tilvikum, einkum við sölu á þjónustu, t.d. í símasölu, getur seljandi ekki veitt allar upplýsingar við gerð samningsins en undir þeim kringumstæðum er honum veittur fimm daga frestur til þess að fullnægja þeirri skyldu. Fullnægi seljandi vöru eða þjónustu ekki skyldu sinni til að veita þær upplýsingar sem honum er skylt að gera innan þess frests, sem hér er getið um, sbr. einnig ákvæði 6. gr. frv., þá er samningurinn ekki bindandi fyrir neytanda.

Nokkrar takmarkanir er þó að finna í frv. á rétti neytenda til að falla frá samningi en í 10. gr. frv. er að finna nánari ákvæði þar að lútandi. Hafi neytandi keypt myndband eða hljóðsnældur, svo dæmi séu nefnd, og rofið innsigli seljanda fellur réttur niður til að fá vöruna endurgreidda samkvæmt ákvæðum frv. Samningar um áskrift að dagblöðum og tímaritum eru einnig undanþegnir, en nánar skal hér vísað tl ákvæða 10. gr. um undanþágur þessar.

Í 11. gr. er gerð sú almenna krafa til seljanda vöru og þjónustu að þeir efni samning sem gerður er með fjarsölu við neytanda innan 30 daga frá því að pöntun er gerð. Hafi afhending ekki átt sér stað innan þess tíma á neytandi rétt á að fá endurgreitt það er hann kann að hafa greitt til seljanda.

Í 12. gr. er tekið fram að útgefendum greiðslukorta sem unnt er að nota við gerð fjarsölusamninga, beri að setja skýrar reglur um hvernig neytandi geti afturkallað greiðslur hafi greiðslukort hans verið misnotuð með einum eða öðrum hætti við gerð samningsins.

Í 13. gr. er lagt bann við svonefndum ,,ágengum söluaðferðum`` en með því er átt við að neytanda sé t.d. send vara án þess að hann hafi óskað eftir henni og til þess ætlast að hann greiði fyrir hana. Jafnframt er tekið skýrt fram að þegjandi samþykki neytanda undir slíkum kringumstæðum sé ávallt ógild en reglur af þessu tagi eru til þess fallnar að stuðla að aukinni friðhelgi almennings gegn ágengri sölumennsku af þessu tagi.

Í 14. gr. er að finna reglur sem leggja bann eða sérstök takmörk við notkun tiltekinna fjarskiptaaðferða við fjarsölu. Í 1. mgr. er þannig tekið fram að óheimilt sé að nota símbréf við sölustarfsemi til neytenda nema neytandinn hafi sérstaklega samþykkt notkun þeirrar fjarskiptaaðferðar. Ástæða þykir til að takmarka með þessum hætti ýmsar sjálfvirkar söluaðferðir af þessu tagi enda má segja að þær séu afar hvimleiðar fyrir neytendur. Í greininni er einnig tekið fram að þeir seljendur sem hyggjast skipuleggja beina markaðssókn skuli fyrir fram kanna þá skrá sem Hagstofa Íslands ber að halda samkvæmt ákvæðum í frv. til nýrra laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Bein markaðssókn, t.d. að senda tilboð um kaup á vöru beint á heimili neytenda er því óheimil enda hafi nafn viðkomandi einstaklings verið fært í skrána. Hið sama á við hafi neytandi óskað eftir því við gerð símaskrár að það verði fært inn merki sem gefi til kynna að óheimilt sé að hafa samband við viðkomandi símanúmer í símsölu eða með nokkurri annarri sambærilegri aðferð við beina markaðssókn sem er skipulögð og fram fer með notkun símkerfisins. Hafi neytandi hins vegar alls ekki afþakkað eða á nokkurn hátt gefið til kynna að hann óski eftir að seljandi sendi honum tilboð í beinni markaðssókn, þ.e. hann er hvorki skráður í skrá Hagstofunnar né heldur verið sérmerktur í símaskrá, þá er seljendum vöru og þjónustu ávallt heimilt að senda honum sölutilboð með notkun tölvupósts, sbr. 3. gr. 14. gr.

Það sjónarmið ræður hér að ein slík sending valdi neytanda ekki þess háttar ónæði að rétt sé að banna notkun slíkra fjarskiptaaðferða í beinni markaðssókn. Hér er þó við það miðað við seljendur vöru og þjónustu eiga ávallt að gefa neytanda kost á því að veita sérstakt samþykki sitt fyrir áframhaldandi notkun á þessari fjarskiptaaðferð. Samþykki neytandi ekki sérstaklega áframhaldandi sendingar með tölvupósti eru þær framvegis óheimilar.

Í 15. gr. er tekið fram að samtökum neytenda skuli ef ástæða er til vera heimilt að gæta hagsmuna neytenda samkvæmt ákvæðum frv.

Ákvæði um lagaval er að finna í 16. gr. en markmið þessa ákvæðis er að tryggja að ekki verði beitt lögum einhvers ríkis nema því aðeins að neytandinn fái með því betri rétt en hann ella er aðnjótandi samkvæmt gildandi löggjöf annarra ríkja á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Í 17. gr. er tekið fram að Samkeppnisstofnun sé falið eftirlit með viðskiptaháttum samkvæmt lögum þessum og er það í samræmi við verksvið stofnunarinnar samkvæmt gildandi lögum en starfsmenn stofnunarinnar sinna að hluta til málefnum neytenda.

Í 18. gr. er tekið fram að ef ekki leiðir annað af ákvæðum þessa frv. þá beri að öðru leyti að fara eftir ákvæðum þeirra laga sem gilda almennt um kaup og sölu vöru til neytenda, samanber nú ákvæði laga um lausafjárkaup.

Í 19.--21. gr. er að finna hefðbundin ákvæði um heimild til að setja reglugerð, viðurlög og gildistöku laganna ef að lögum verður.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir frv. þessu. Það er að finna á þskj. 684, um húsgöngu- og fjarsölusamninga og ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.