Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 16:11:16 (5539)

2000-03-21 16:11:16# 125. lþ. 83.17 fundur 489. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (póstþjónusta) frv. 48/2000, EKG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mjög mörg orð um þetta frv. Ég vil fyrst og fremst standa hér upp til að lýsa yfir stuðningi við efnisatriði þess sem ég tel vera mjög til bóta og er eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði tilraun til að laga þetta lagaumhverfi að veruleikanum og nútímanum. Við vitum að vegna fólksfækkunar og þeirra tæknilegu breytinga og annarra breytinga sem sífellt eiga sér stað hefur þjónusta á borð við póstþjónustu og eftir atvikum bankaþjónusta á landsbyggðinni átt undir högg að sækja. Þess vegna er ekkert óeðlilegt, nema síður sé, að reynt sé að steypa saman þjónustuformum af þessu tagi sem fara ákaflega vel saman. Það eru til ákveðin dæmi sem hafa komið upp á síðustu mánuðum og missirum um að samkeyra einmitt bankaþjónustu og póstþjónustu sem hefur orðið til þess að halda lífinu í þjónustustarfsemi af því taginu og það er auðvitað af hinu góða. Við vitum líka að víða úti í heimi, t.d. á Norðurlöndunum og reyndar Bretlandi líka, hefur sú þróun orðið að sums staðar er póstþjónustan hvorki framkvæmd af pósthúsum né bankastofnunum heldur jafnvel af verslunum, sem hefur orðið til þess að tryggja hvort tveggja í senn verslunarþjónustu í litlum byggðarlögum og um leið póstþjónustuna.

Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, þó að ég sé að sjálfsögðu mjög fylgjandi því skrefi sem hér er verið að stíga, að athugandi sé að menn hugleiði það sem næsta skref að opna frekari möguleika á að sinna póstþjónustu utan hefðbundinna póstútibúa, bæði til að tryggja þá eðlilegu þjónustu og eins vegna þess að póstþjónustan í sjálfu sér er að taka mjög miklum breytingum. Við höfum kannski vanist því flest hver að póstþjónusta sé mjög afmarkað skilgreint fyrirbrigði, að fara í pósthús og senda póst hefur ekki vafist fyrir manni að skilja, en í dag vitum við að póstþjónustan á í harðri samkeppni við ýmislegt annað. Ef ég tek sem dæmi var algengt hér áður fyrr að póstur, svokallaður markpóstur, stundum kallaður ruslpóstur líka, sem sendur er í stórum stíl í gegnum póstdreifingarkerfið í landinu færi einmitt þessa hefðbundnu leið. Menn fóru með þetta á pósthúsið og síðan fór þetta sína leið um póstdreifingarnet Pósts og síma og síðar Íslandspósts. Nú eru komin ýmis annars konar form á því að dreifa slíkum pósti. Tökum dæmi: Þegar við opnum okkar góða blað, Morgunblaðið, þá fylgir því oftar en ekki t.d. einhver bæklingur með alls konar fróðleik eða auglýsingum eða einhverju því sem viðkomandi vilja koma á framfæri. Þar með er Morgunblaðið á vissan hátt orðið póstdreifingaraðili, það er að vísu ekki með pósthús úti á landi, en það er eins konar póstdreifingaraðili og skilar því hlutverki alveg prýðilega að svo miklu leyti sem því er ætlað. Við vitum líka að með þessu móti hefur Morgunblaðið kannski líka möguleika á því að bjóða fram prentun og bjóða þá í senn bæði póstdreifingu og prentun.

[16:15]

Ég er aðeins að vekja athygli á þessu af því að pósthúsin og póstdreifingin í landinu eiga nú í vaxandi samkeppni úr átt sem menn hafa kannski ekki alveg áttað sig á. Þess vegna, virðulegi forseti, er mjög mikilvægt til að tryggja lífsnauðsynlega starfsemi á borð við póstdreifingu og pósthúsin í landinu, að við höfum sem fjölbreytilegust tæki fyrir pósthúsin þannig að Íslandspóstur eða önnur þau fyrirtæki sem kynnu að hafa með höndum póstdreifingu geti brugðist við með öllum tiltækum ráðum til að sinna því hlutverki sem við ætlumst til. Við setjum mjög ströng lög, eins og við vitum, um póstdreifingu í landinu. Póstlögin fela í sér ýmsar kvaðir sem póstdreifingaraðilanum, þeim sem einkanlega sér um póstdreifingu í landinu, er ætlað að standast. Þess vegna verðum við um leið og við setjum kvaðir og skyldur á slík fyrirtæki að leggja þeim til vopnin til að berjast og til að aðlaga sig breyttum tíma.

Virðulegi forseti. Það var einungis þetta sem mig langaði til að segja með örfáum orðum og styðja þannig við þá viðleitni sem kemur fram í frv. hæstv. viðskrh. og ég tel að sé mjög til fyrirmyndar og til bóta, bæði fyrir landsbyggðina og fyrir þessa nauðsynlegu atvinnustarfsemi í heild sinni. Ég tel að í framhaldinu sé eðlilegt að við veltum því fyrir okkur með hvaða hætti öðrum við ættum að opna fyrir möguleika á samrekstri póstdreifingar og annarrar atvinnustarfsemi í landinu en ég tel að þetta sé ákaflega mikilvægt skref sem hérna er verið að stíga.