Samkeppnislög

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 16:53:43 (5543)

2000-03-21 16:53:43# 125. lþ. 83.16 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, LB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[16:53]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum sem hæstv. viðskrh. hefur lagt fram og vil ég líkt og fyrri ræðumaður, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, taka undir með henni að ég fagna þessu frv. alveg sérstaklega.

Það er ekki spurning að um nokkurt skeið hefur virkilega þurft að treysta og herða á þeim möguleikum sem samkeppnisyfirvöld eiga að hafa yfir að ráða til að tryggja að hér á landi sé virk samkeppni. Við hljótum að spyrja okkur um leið þeirrar spurningar af hverju við erum að brölta þetta og af hverju við erum að reyna að tryggja þá samkeppni sem nokkuð mikið hefur verið í umræðunni á undanförnum árum.

Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að á meðan við viðurkennum markaðinn sem ákveðið verðmyndunartæki mun hann aldrei virka sem skyldi nema tryggt sé að menn keppi á þeim markaði á réttum forsendum, þ.e. að fyrir hendi sé heilbrigð samkeppni, nægilegur fjöldi fyrirtækja sem keppa um þær sálir sem um er að keppa og tryggja það á þann hátt að neytendur fái þær vörur og þjónustu sem í boði eru á sem besta verði. Það er fyrst og síðast markmið samkeppninnar, auk þess að tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta og efnahagslegar framfarir. Þetta er meginmarkmiðið sem menn hafa fyrir augum þegar menn tala um að tryggja þurfi virka samkeppni. Samkeppni er því fyrst og fremst fyrir neytendur en síður fyrir fyrirtæki þó að hún sé það líka því að þegar öllu er á botninn hvolft skilar heilbrigð samkeppni öllum einhverjum hagsbótum.

Samkeppni er því eins konar nútíma félagsleg aðgerð með það að markmiði að dreifa valdi og verðmætum sem jafnast. Þetta vill stundum gleymast í þeirri umræðu sem fram fer, enda kannski ekki nema von, ekki eru nema sex, sjö ár síðan við höfðum hér á landi verðlagsstjóra sem hafði með það að gera hvað hlutirnir skyldu kosta og oft á tíðum þannig að það hafði ekkert með raunverulegan framleiðslukostnað eða eðlilegar ávöxtunarkröfur að gera heldur var einhvers konar miðstýring sem réð því hvað hlutirnir skyldu kosta.

Hér hafa orðið miklar breytingar á ekki lengri tíma en sjö árum eða svo eða frá tilkomu og samþykkt EES-samningsins. Öll þessi mál hafa því horft til verulegra bóta þó að segja megi að ýmsir árekstrar hafi orðið frá því að samkeppnislögin voru samþykkt og hvernig þau hafa verið framkvæmd allt frá samþykkt þeirra 1993.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan fagna ég sérstaklega þessu frv. og tel það vera til þess fallið að styrkja möguleika Samkeppnisstofnunar til þess að halda uppi og hafa eftirlit og tryggja að hér á landi sé virk samkeppni. Og ég fagna sérstaklega þeirri áherslubreytingu sem finna má í frv., þ.e. að horfið sé í meira mæli frá hinni svokölluðu misbeitingarreglu sem hefur verið nokkuð ráðandi í núgildandi lögum yfir til þeirrar reglu sem kölluð hefur verið bannregla, þ.e. að leggja fyrir fram bann á að menn misnoti aðstöðu sína á markaði, í stað þess að haga reglum þannig að sýna þurfi fram á skaðlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu vegna þess að slíkt athæfi verður hvorki refsivert né möguleikar á því að grípa inn í fyrr en sýnt hefur verið fram á það, og þá er það einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að hin ólögmæta starfsemi hefur þá farið fram um nokkurt skeið áður en mögulegt er að grípa inn í. Því fagna ég sérstaklega þeirri áherslubreytingu sem fram kemur í frv., þ.e. að horfið sé að hluta til frá svokallaðri misbeitingarreglu yfir til bannreglunnar sem flestar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við hafa fyrir nokkru síðan tekið upp í löggjöf sína.

Enn fremur, virðulegi forseti, vil ég fagna því sérstaklega að staðið hefur verið við það sem hæstv. fyrrv. viðskrh. sagði hér í umræðu um frv. það sem Samfylkingin lagði fram á haustdögum, að hann mundi án efa horfa til þeirra atriða sem við lögðum áherslu á og augljóslega má greina í þessu frv., auk þess sem bætt hefur verið verulega við. Ég vil fagna því sérstaklega og hvernig staðið hefur verið að vinnu við frv.

Til að taka sem dæmi eru Bandaríkin, sem lengst eru komin í þessum samkeppnisfræðum, með tvær stofnanir sem hafa með það að gera að halda uppi eftirliti með virkri samkeppni, annars vegar samkeppnisstofnun sem hefur almennt eftirlit og hins vegar dómsmálaráðuneytið sem rekur þau mál sem hugsanlega geta leitt til refsingar. Það væri kannski dálítið broslegt, af því að olíumarkaðurinn er nefndur hér sérstaklega, virðulegi forseti, að sjá hæstv. dómsmrh. eltast við Skeljung ef tilefni gæfist til að skoða þann markað sérstaklega.

Ég nefni þetta bara sem dæmi, virðulegi forseti, að í því landi sem lengi hefur kennt sig við kapítalisma og er kannski lengst komið á því sviði er lögð gríðarleg áhersla á að haldið sé uppi virkri samkeppni því talið er þar, eins og víðast annars staðar, að það sé best til þess fallið að tryggja hag neytenda.

[17:00]

Þó er eitt atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna sérstaklega í umræðunni og það er sú áhersla sem lögð er á samrunareglurnar í frv. Í frv. er sérstaklega lögð áhersla á að tryggt verði að samrunareglur taki til styrkingar á markaðsráðandi stöðu ásamt því að unnt verði, eins og samkvæmt gildandi lögum, að beita reglunum þegar markaðsráðandi staða verður til við samruna. Þetta hefur verið vandamál í núgildandi lögum, vandamál sem hefur verið erfitt að eiga við og kannski meginástæða þess að ekki hefur verið gripið til aðgerða á ákveðnum mörkuðum þar sem verulegs samruna hefur gætt sem hefur leitt til hækkandi verðs til neytenda. Ég fagna því sérstaklega að ætlunin með þessu frv. er að styrkja heimildir yfirvalda til að fjalla um samruna fyrirtækja.

Enn fremur er í frv. lögð sérstök áhersla á svokallaða fákeppnis-markaðsráðandi stöðu, þ.e. í þeim tilvikum sem samruni leiðir til þess að fyrirtækjum á markaði fækkar mjög verulega og hætta er á því að þau taki aukið tillit til hvers annars og hætti að keppa með þeim afleiðingum að verð til neytenda hækkar.

Virðulegi forseti. Þetta eru þau meginatriði sem ég vildi nefna í þessari umræðu jafnframt því að ítreka að það frv. sem hæstv. viðskrh. leggur hér fram er mjög vel unnið. Ég hvet hæstv. efh.- og viðskn. til að fjalla um það hratt og örugglega og ég vonast til þess og vænti þess að hæstv. viðskrh. leggi verulega áherslu á að frv. verði að lögum áður en þetta þing er úti.