Samkeppnislög

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 17:20:44 (5546)

2000-03-21 17:20:44# 125. lþ. 83.16 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[17:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég kaupi ekki þau rök sem ráðherra setur fram fyrir því að dráttur verði á því að fram fari úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi og hún þurfi að bíða eftir næstu fjárlögum til þess að fá þær 15 millj. kr. sem það kostar. Ég minni hæstv. ráðherra á að aukafjárveitingar sem hér eru samþykktar árlega skipta milljörðum. Það verður svo sannarlega tekið eftir því hvað viðskrn. fer umfram í aukafjárveitingum fyrst aðhaldssemin er svona mikil hjá hæstv. ráðherra að hún getur ekki einu sinni beitt sér fyrir þessum 15 millj. í aukafjárveitingar til að flýta þessari brýnu úttekt á stjórnunar- og eignatengslum.

Varðandi það að vísa í að Samkeppnisstofnun sé að skoða matvörumarkaðinn og fákeppni þar, að það sé svar við Neytendasamtökunum, þá get ég alveg örugglega talað fyrir munn Neytendasamtakanna og sagt að það er ekki það sem þeir fara fram á. Þegar þau tala um þessa könnun þá gengur það að hluta til út á að m.a. verði kannað hvort um eðlilega markaðsstarfsemi sé að ræða á þessu sviði, þ.e. matvörumarkaðnum. Þeir eru að vísa í verulegar hækkanir sem orðið hafa, sérstaklega á matvörumarkaðnum, á umliðnum mánuðum. Þau færa fram sterk rök og tölur fyrir því. Þeir óska eftir því að rannsókn verði gerð á orsökum þessara verðhækkana. Ég hvet ráðherra enn og aftur til að verða við þessari sanngjörnu og eðlilegu ósk Neytendasamtakanna. Að vísa í Samkeppnisstofnun í þessu sambandi, sem er fyrst og fremst að kanna fákeppni á matvörumarkaðnum, er auðvitað út í hött.