Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:12:27 (5549)

2000-03-21 19:12:27# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:12]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði eitthvað misskilið hvernig þessari umræðu yrði háttað í dag og því miður hafði ég bundið mig við skyldustörf í kvöld þannig að ég get ekki verið við umræðuna í kvöld, en mig langar til að koma að tveimur atriðum sem hafa komið fram í máli þeirra sem ég hef hlýtt á, annars vegar hv. 5. þm. Vestf., Einars Odds Kristjánssonar, og hv. síðasta ræðumanns, Steingríms J. Sigfússonar, 3. þm. Norðurl. e.

Fyrsta atriðið sem ég vildi koma inn á sem skiptir miklu máli í þessu sambandi er að meta hagsmuni Íslands og Íslendinga í þessu sambandi, hverjir eru hagsmunir landsins í þessu stóra máli og hvers vegna við höfum komist að þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir. Mér hefur fundist koma fram í máli hv. þm. að aðrir kostir hefðu verið uppi á borðinu. Þar hefðu menn getað leitað annarra lausna. Auðvitað geta menn haldið slíku fram en hér er um samningslausn að ræða sem að mínu mati er sú besta samningslausn sem völ var á, en auðvitað geta menn lengi haldið áfram að íhuga og velta því fyrir sér hvort menn hefðu ekki getað náð einhverri allt annarri lausn. Ég skal ekki gera lítið úr því en ég er fullviss um að það var ekki fyrir hendi.

Ég vil fyrst koma að því sem hér hefur verið rætt um að af þessu hljótist verulegur kostnaður. Það liggur alveg ljóst fyrir að allmikill kostnaður mun verða í sambandi við þetta mál. Það er hins vegar mjög erfitt að gera sér grein fyrir hvað hann verður mikill og við hvað á að bera saman og hvernig þeim útreikningum á að vera háttað. Ég geri ekkert lítið úr tilraunum til slíkra útreikninga en ég hygg þó að þeir séu mjög erfiðir eins og reyndar kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni en ég gef ekki allt of mikið fyrir slíka útreikninga, enda er það að mínu mati ekki aðalatriði þessa máls.

[19:15]

Í því sambandi verðum við að velta fyrir okkur hver sé hinn raunverulegi kostnaður af því að standa utan við þessa lausn. Er hann enginn? Mér finnst það koma fram í máli þeirra sem gera mikið úr kostnaðinum við aðildina.

Það er t.d. ljóst, ef við lítum á tengiflug Íslendinga frá Íslandi, að ef við stöndum utan við Schengen-lausnina þurfum við meiri tíma til að fara áfram í tengiflugi til annarra landa, t.d. innan Evrópu. Hv. þm. segja að þar verði okkur úthlutað ákveðnum stæðum. Það liggur alveg ljóst fyrir að Schengen-hlutinn í flugstöðvum í Evrópu verður hjartað í flugstöðvum í Evrópu. Það verður gegnum þessar flugstöðvar sem umferðin gengur greiðast fyrir sig. Það er alveg ljóst að í þeim hlutum flugstöðvanna sem taka við umferð frá löndum utan Schengen-svæðis eða utan Evrópu mun taka lengri tíma að komast í gegn. Ég ætla ekki að flokka það sem einhvern óæðri félagsskap. Hins vegar er staðreynd að það mun taka lengri tíma og valda farþegum allmiklu meiri óþægindum en annars verður um að ræða. Er einskis virði fyrir Íslendinga að losna við það? Kostar ekki tíminn peninga? Kostar ekki sá tími peninga einnig, þó það séu bara ferðamenn að fara sér til skemmtunar og yndisauka til annarra staða? Kostar það ekki viðskiptaaðila okkar sem leita út í heim eftir viðskiptum við aðrar þjóðir, kostar ekki tími þeirra peninga? Ætli það sé ekki ljóst að sú tíðni sem menn annars mundu búa við í þessu tengiflugi yrði minni. Það verður að reikna með, þegar ferðalög eru skipulögð, þessum töfum. Þetta vildi ég nefna sem dæmi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði réttilega að það yrði auðveldara að ferðast innan svæðisins. Hann átti þá m.a. við þetta sem ég hef komið að. Hann sagði hins vegar að það yrði erfiðara að komast til svæðisins. Ég tel að það sé ekki rétt. Nú höfum við í undirbúningi samninga við dönsku utanríkisþjónustuna þar sem við gerum ráð fyrir því að danska utanríkisþjónustan geti fyrir okkar hönd veitt ferðamönnum frá Suður-Ameríku, Asíu eða annars staðar frá, vegabréfsáritun fyrir okkar hönd. Við munum þannig stórauka þessa þjónustu.

Þegar ferðamaður kemur t.d. frá Suður-Ameríku eða frá Tævan, en þaðan koma ferðamenn í vaxandi mæli og það land er nokkuð til umræðu um þessar mundir, þá þarf viðkomandi ferðamaður frá Tævan að hafa fimm vegabréfsáritarnir til Norðurlandanna. En það er algengt að ferðamenn frá þessum heimshluta heimsæki fleiri en eitt Norðurlandanna. Eftir þessa breytingu þarf ferðamaður hvort sem er frá Tævan eða Suður-Ameríku aðeins eina vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið. Hann á að vísu að fá vegabréfsáritun, fyrst og fremst til þess lands sem hann ætlar fyrst til þannig að þessi skipan mála mun auðvelda aðilum utan svæðisins að ferðast til Íslands. Hún mun því greiða fyrir því að þessi þjónusta sé veitt með eðlilegum hætti. Nú þurfum við t.d. að veita ferðamönnum frá Tævan vegabréfsáritun frá Hong Kong.

Ég fullyrði að með þeirri skipan sem þarna er ákveðin megi búast við að ferðamannastraumur til Íslands gangi auðveldar fyrir sig og verði meiri. Það liggur alveg ljóst fyrir að þær þjóðir sem við erum að fara í samskipti við eru ekki síst þær þjóðir sem hafa áhuga á Íslandi sem áfangastað. Þessi skipan mála mun greiða fyrir samskiptum milli Íslands og Evrópu og auka ferðamannastraum. Það eru ýmsir sem gera nokkuð úr skriffinnsku í kringum hitt og þetta. Hér verður um að ræða samgöngur með svipuðum hætti og innanlandsflug okkar. Þess vegna er ég viss um að þetta mun greiða fyrir. Þau rök eru m.a. birt í Noregi að nauðsynlegt sé fyrir Noreg að vera með í þessu, að ef Noregur stæði utan Schengen-samkomulagsins mundi það torvelda samskipti milli Norðurlandanna og draga úr ferðamannastraum til Noregs.

Það er líka ljóst að ýmsir ferðamenn sem ákveða að fara á norðurslóðir velja á milli þess hvort þeir eigi að fara til norðurhluta Noregs, Svíþjóðar eða Íslands. Sumir vilja heimsækja alla þessa staði. Þarna er valið á milli og ég er viss um að þessi lausn mun gera það líklegar að við verðum fyrir valinu.

Greiðari samgöngur og betri aðferðir til að komast á milli auðvelda viðskipti og auka milli landa. Ég er þeirrar skoðunar að þetta muni greiða fyrir viðskiptum okkar við Evrópu. Við þurfum að sjálfsögðu að gera það upp við okkur með hverjum við viljum fyrst og fremst starfa. Viljum við halda áfram að starfa á þessu sviði með hinum Norðurlöndunum? Mitt svar er já. Viljum við halda áfram að starfa með þeim Evrópuþjóðum sem eru aðilar að þessu samkomulagi? Svar mitt er já. Þetta eru þær þjóðir sem við höfum mest samskipti og viðskipti við og að mínu mati er ábyrgðarhlutur að ætla sér að vera utan við þessa samvinnu.

Nú segja menn, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að út af fyrir sig sé allt í lagi að gera þetta ef menn ætli sér inn í Evrópusambandið. Það má vel vera að hann hafi rétt fyrir sér í því og hann hefur rétt fyrir sér í því. Ef við förum inn í þessa samvinnu þá verður auðveldara að fara þar inn. En ég held því hiklaust fram að það muni jafnframt auðvelda okkur að vera þar fyrir utan ef við kjósum það. Ég held að hv. þm. ættu líka að íhuga það. Við Íslendingar höfum hingað til kosið að vera með í allri þeirri alþjóðasamvinnu, þar á meðal Evrópusamvinnu, sem við teljum að sé okkur hagstæð. Þetta lá til grundvallar þegar við gerðumst aðilar að innri markaðnum vegna mikilvægra viðskiptahagsmuna. Með sama hætti hljótum við að ákveða að taka þátt í þessari samvinnu vegna þess að hún er okkur hagstæð.

Þá er því haldið fram að við hefðum getað fengið einhverja svipaða lausn og Bretar og Írar og það hafi ekkert verið reynt. Nú er ekki hægt að líta eins á Bretland og Írland í þessu samhengi af þeirri einföldu ástæðu að Bretland og Írland eru aðilar að Evrópusambandinu. Ég þykist nokkuð viss um að ef byrjunarpunkturinn í þessu máli hefði verið að ganga í Evrópusambandið þá hefðu menn getað fengið sömu niðurstöðu og Bretar og Írar. En þá hefðu menn kosið að vera í flokki með Bretum og Írum en ekki með hinum Norðurlöndunum. Ég vil ekki mæla sérstaklega með því. Það liggur t.d. alveg ljóst fyrir að Írar eru mun áhugasamari en Bretar um að koma inn í þetta samstarf og munu gera það ef Bretar taka þessa ákvörðun. Vegna mikilla tengsla milli flugsins til Bretlands og sérstöðu Íra í því sambandi þá kjósa þeir hins vegar að velja sömu lausn og Bretar. Hins vegar liggur ljóst fyrir að Bretar eru smátt og smátt að færa sig í þessa átt, taka meiri og meiri þátt í þessu. Menn meta það svo að þeir muni enda inni í þessu samstarfi, hvenær svo sem það verður.

Það er ekki jafnauðvelt fyrir okkur Íslendinga, sem stöndum utan Evrópusambandsins, að taka um þetta ákvörðun á einhverju því stigi sem við teljum að okkur henti. Við urðum að grípa tækifærið þegar það gafst. Það gafst þegar samningurinn um Schengen var gerður og það samkomulag náðist fyrst og fremst vegna samskipta og vináttu okkar við aðrar Norðurlandaþjóðir. Það var mjög mikilvægt er sá samningur var gerður vegna þess að eftir það ákvað Evrópusambandið að færa þetta mál inn á vettvang Evrópusambandsins. Vegna þess að við höfðum gert góðan samning með þátttöku í ákvarðanatöku o.s.frv., mun skýrar en er í EES-samningnum, tókst okkur að viðhalda þeirri skipan mála. Ég fullyrði að hefði sá samningur ekki verið gerður þá hefði það ekki tekist, það er mitt mat.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Að lokum vil ég segja að ákvörðunin um þetta mál er fyrst og fremst pólitísks eðlis og fjallar um það hvar Ísland vill standa í alþjóðlegri samvinnu, hverja við teljum vera okkar helstu bandamenn, hverja við teljum okkar helstu viðskiptaaðila og hvaða þjóðir við teljum að við munum hafa mest samskipti við í náinni framtíð. Ég held að það liggi ljóst fyrir að það eru Norðurlandaþjóðirnar og þjóðirnar á meginlandi Evrópu. Við eigum mest menningarleg tengsl við þessar þjóðir. Við eigum mest viðskiptaleg tengsl við þessar þjóðir og hagsmunir okkar liggja að verulegu leyti með þessum þjóðum. Þeir verða ekki algerlega aðskildir frá hagsmunum þeirra. Þetta er aðalatriði málsins og þess vegna er niðurstaða mín sú að við hljótum að velja samleið með þessum þjóðum þegar það er okkur hagstætt.

Menn gera mikið úr erfiðleikum sem orðið gætu á Keflavíkurflugvelli. Það er allt saman leysanlegt og ég tel enga ástæðu til að óttast það sérstaklega. Ég geri mér góða grein fyrir því hversu mikilvægt tengiflugið er, hversu mikilvægur grundvöllur það er í rekstri Flugleiða og samskiptunum við bæði Ameríku og Evrópu. Þetta er allt saman leysanlegt og við munum leysa það mun betur en aðrar þjóðir. Við munum leysa það þannig að Keflavíkurflugvöllur verði eftirsóttur lendingarstaður þegar komið er inn á Schengen-svæðið. Ég er viss um að það getur orðið okkar til vegsauka og til þess að auka umferð um þann flugvöll. Auðvitað eru þar ákveðin viðfangsefni og vandamál en ekkert sem bendir til annars en að þau séu hægt að leysa.

Ég bið hv. þm. og aðra, líka aðila í ferðaþjónustu, að tala ekki eingöngu um tafir sem geta orðið á þeim flugvelli. Mér finnst að það þurfi líka að tala um þjónustuna við fólkið á þeim flugvöllum sem eru endastöðvar og skiptistöðvar. Er það ekki líka skylda okkar að standa þannig að málum að för Íslendinga til annarra landa sé bærilega greið og aðgangur þeirra til annarra landa landa sé greiður. Ferðalög Íslendinga eru sífellt að aukast og þau munu stóraukast í framtíðinni. Þegar við samþykktum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið voru frjálsar ferðir fólks á milli landa eitt af því sem þar var talað um sem grundvallaratriði. Hér er verið að hrinda því í framkvæmd að miklu leyti. Þeir sem stóðu að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hljóta því að styðja þetta mál. Ég fæ það a.m.k. ekki til að ganga upp að menn sem studdu það mál styðji ekki þetta mál. Einn af grundvallarþáttunum í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var frjáls för fólks, frjáls vöruviðskipti og frjálst flæði þjónustu og fjármagns. Þetta er því ekkert annað en einn af grundvallarþáttunum í því máli.

Að lokum vildi ég, herra forseti, þakka fyrir það ágæta starf sem unnið hefur verið í hv. utanrmn. Ég veit að það er mikið að vöxtum og þar hefur verið farið vel í gegnum þetta mál. Það hefur verið kvartað yfir því að ekki hafi verið mikil kynning á því. Málið hefur út af fyrir sig verið heilmikið kynnt en það hefur að mínu mati ekki hlotið þá athygli og áhuga innan lands sem ástæða hefði verið til. Bara þetta nafn, Schengen, fælir frá. Menn spyrja: Hvað er nú það? Þetta er lítill bær í Evrópu sem þessi samningur hefur verið kenndur við. En þetta mál mun ekki kennt við þennan bæ um aldur og ævi. Það sem standa mun á hliðunum inn í Evrópu er annars vegar Evrópubúar og hins vegar þeir sem eru utan Evrópu, þ.e. European or non-European. Þeir sem vilja vera utan Schengen vilja þá dæma okkur og alla Íslendinga til að ferðast eins og þeir séu ekki Evrópubúar, non-European. Ég lít á Ísland sem Evrópuþjóð og hef alltaf litið á Ísland sem Evrópuþjóð. Þess vegna er það mín pólitíska niðurstaða að við eigum að vera með Evrópu í þessu máli.