Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:33:04 (5550)

2000-03-21 19:33:04# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:33]

Frsm. 1. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála utanrrh. um það að við séum Evrópuþjóð og ég er ekki að leggja til að við segjum okkur úr Evrópu, ekki heldur úr Norðurlöndunum. Hæstv. ráðherra talar um að menn geti út af fyrir sig velt fyrir sér og bollalagt aðrar leiðir en talar í raun og veru eins og þær hefðu ekki verið í boði. Það sem ég er að segja er það, að ég tel að ekkert hafi verið látið á það reyna. Það voru ekki skoðaðir eða ræddir aðrir mögulegir kostir samhliða. Málinu var ekki stillt þannig upp. Það var ekki lagt upp í þetta ferðalag nema með þetta eina takmark og endastöð, aðild að Schengen.

Í öðru lagi er vissulega rétt að tafir á flugvöllum annars staðar og óhagræði sem gæti skapast af því að standa utan við, og kæmi þá fram annars staðar, skiptir að sjálfsögðu máli og ber að meta það. Tíminn er verðmætur þar. Hæstv. ráðherra talar um viðskiptaferðir út í heim en þá skulum við líka hafa í huga, herra forseti, að heimurinn er meira en Evrópa. Við þurfum líka að muna eftir því að við getum ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum. Við þurfum líka að vera tilbúin til að mæta því sem getur kallað yfir okkur, óhagræði og takmarkað stöðu okkar gagnvart öðrum aðilum. Ég nefni þar sérstaklega Norður-Ameríku og t.d. vaxandi samskipti við þá heimsálfu og vonandi einkum og sér í lagi við Kanada á næstu árum og áratugum.

Í þriðja lagi stillir hæstv. ráðherra þessu dálítið þannig upp að spyrja sjálfan sig spurninga: Viljum við tilheyra Norðurlöndunum? Ætlum við að vinna með þeim? Hann svarar sjálfum sér játandi. Erum við Evrópuþjóð og ætlum að vera áfram í Evrópu? Hann svarar sjálfum sér játandi.

Ég tel að þetta snúist ekki um það að velja í grundvallaratriðum hverjum við ætlum að tilheyra eða með hverjum við ætlum að starfa. Ég hef ekki heyrt neina tillögu um að við segðum okkur úr Norðurlöndunum eða Evrópu. Þetta snýst auðvitað ekki um það, hæstv. ráðherra, og það er ekki mjög efnislegt finnst mér að stilla málinu þannig upp. Það er einföldun á þessu máli að svara sér svo játandi með svo einfaldri spurningu. Við ætlum að sjálfsögðu að eiga góð samskipti við þessar þjóðir. Spurningin er á hvaða formi það er.