Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:06:46 (5560)

2000-03-21 21:06:46# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:06]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður ræddi um áhrif Schengen-samningsins á ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Ég get tekið undir það með honum að það er áríðandi að erlendir ferðamenn komi víðar inn í landið en á Keflavíkurflugvelli. Mér finnst þetta þó málað fulldökkum litum í sambandi við Schengen-samninginn. Það er alveg ljóst að það er ekkert því til fyrirstöðu að taka Schengen-farþega t.d. í flugstöðinni á Egilsstöðum. Slíkar ráðstafanir hafa verið gerðar við endurnýjun flugstöðvarinnar. Það er verið að stækka flugstöðina á Akrueyri og án efa verður tekið tillit til Schengen-farþega. Vangaveltur hv. þm. eru því ástæðulausar að þessu leyti. Það þarf auðvitað tollgæslu og löggæslu til að annast þessa hluti þar eins og á Keflavíkurflugvelli. Ég held að það verkefni verði eins unnið á landsbyggðinni sem á suðvesturhorninu.

Varðandi skemmtiferðaskip sem koma frá löndum utan Schengen-svæðisins, þá er langt frá því óyfirstíganlegt að taka á móti þeim. Ég held að of mikið sé gert úr þessum áhyggjum varðandi landsbyggðina. Það eru önnur atriði en þessi samningur sem standa þar í veginum en það er of langt mál að fara í það í stuttu andsvari.