Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:08:30 (5561)

2000-03-21 21:08:30# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:08]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvari hv. þm. Jóns Kristjánssonar kom fram að menn geti komið inn á þessa alþjóðaflugvelli af Schengen-svæðinu eftir samþykkt þessa samnings. Þá eru úti allir möguleikar varðandi annað vegna þess að þessar flughafnir hafa í engu verið byggðar upp á tilsvarandi hátt eins og gert er ráð fyrir í Keflavík. Ég þekki heimaflugstöð mína og það hefur verið þvílíkt bras að klára hana, eftir að farið var í endurnýjun á henni á síðustu árum, að verkið er vart hálfkarað. Þar hefur alls ekki verið staðið þannig að málum og eru engin plön um það. Ef menn hafa þá hugsjón að skoða eigi landið allt í þessu samhengi, af hverju velta menn þá ekki fyrir sér þeim nauðsynlegu framkvæmdum sem augljóslega þarf að fara í á þessum flugstöðvum? Af hverju velta menn ekki fyrir sér þeim framkvæmdum og kostnaði sem augljóslega þarf að fara í varðandi hafnirnar sem eiga að vera leið inn í landið?

Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að umræðan um fyrirkomulagið á þessu og áhrifin á innanríkismál hér er ekki nógu þroskuð. Menn vita ekkert hvað þeir eru að fara út enda eru sumir talsmanna stjórnarmeirihlutans með efasemdir, að ekki sé meira sagt.