Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:10:15 (5562)

2000-03-21 21:10:15# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:10]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áreiðanlega ekki talað nógu skýrt í fyrra andsvari mínu. Það er alveg ljóst að t.d. við flugstöðina á Egilsstöðum er ekkert því til fyrirstöðu að taka inn farþega frá löndum utan Schengen-svæðisins. Hún er tilbúin til þess eins og hún er núna. Hún stendur tilbúin til þess. Það þarf einfaldlega að aðskilja farþega eftir því hvort þeir koma af svæðinu eða utan þess.

Það er reiknað með því í byggingu flugstöðvarinnar og hún stendur tilbúin til þess nú þegar. (ÖJ: Skilja Vestur-Íslendingana frá Evrópumönnunum?) Já, ef hv. þm. vill túlka það þannig þá verður það gert svo. Það er alveg ljóst að flugstöðin á Egilsstöðum er t.d. tilbúin til þess nú þegar í dag. Endurbygging flugstöðvarinnar á Akureyri stendur yfir og það er unnið að því af fullum krafti samkvæmt þeirri flugmálaáætlun sem við erum með núna. Þá er náttúrlega einboðið að búa flugstöðina þannig úr garði að þetta verði mögulegt á Akureyri líka. Ég vona að ég hafi talað nógu skýrt í þessu efni.