Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:49:19 (5572)

2000-03-21 21:49:19# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:49]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. 4. þm. Norðurl. e. var að meginefni til um aðstöðu ferðaþjónustunnar hér á landi og það módel sem hún er rekin eftir. Ég er alveg sammála honum um að auðvitað er það ekki gott mál að allir ferðamenn komi hér inn á eitt landshorn og það er eitt vandamál sem við eigum við að etja í ferðaþjónustunni. Ég vil gjarnan að hægt væri að byggja upp flug erlendis frá á vellina úti á landi.

En hv. þm. sagði réttilega í upphafi ræðu sinnar að þetta ástand hefði skapast á undanförnum árum þó að Schengen-samningurinn hefði ekki verið kominn, og ég tek undir það með hv. þm.

Ef svo vildi til að olíufélagið Shell rausnaðist til þess, sem þeir væru nú ekki of góðir til, að setja stærri bensíndælu á Egilsstaðaflugvöll og þar lentu þrjár eða fjórar vélar frá Ameríku í einu, þá reikna ég nú með að þó að Schengen-samningurinn væri ekki fyrir hendi yrði að fara fram vegabréfaskoðun úr þessum vélum.

En ég er alveg tilbúinn til að berjast fyrir því, bæði fyrir Egilsstaði og Akureyri, ef svo kynni að fara að mikil straumhvörf yrðu í umferð um þessa velli og mönnum tækist það sem aðila fyrir austan og norðan hefur langað mjög til, að efla slíka umferð, þá er ég reiðubúinn til að berjast fyrir framkvæmdum á þessum flugvöllum og hef reyndar ekkert legið á liði mínu í því efni.

En ég endurtek, mér finnst þessi umræða um Schengen-samninginn vera allt of svart/hvít.