Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:51:30 (5573)

2000-03-21 21:51:30# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:51]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að bilið milli mín og hv. þm. hafi styst svolítið í sjónarmiðum okkar í þessum efnum, og það er ágætt. Það er nú oft afraksturinn af því að menn rökræði, skiptist á skoðunum, að bilið minnkar á milli manna. Ég fagna því að hv. þm. heitir hér vasklegu framlagi sínu í því að berjast fyrir úrbótum eftir því sem þörf krefur á umræddum flugvöllum.

Á báðum þeim stöðum sem hér hafa sérstaklega verið nefndir, Egilsstaðir og Akureyri, hafa menn verið að binda vonir við það einmitt síðustu árin að einhverjir hlutir væru að gerast í þeim efnum. Og vissulega hefur þar aðeins farið í gang t.d. beint millilandaflug, en þó minna en menn hefðu viljað sjá. Ég hygg að sérstaklega eigi það við um Egilsstaðaflugvöll og kjördæmi hv. þm., sem bráðum verður okkar beggja trúlega, að þar hafi það orðið mönnum nokkur vonbrigði að ekki skuli hafa komið upp meiri starfsemi á grundvelli þeirrar miklu uppbyggingar sem lagt hefur verið í á Egilsstöðum, en hún er jú ekkert ýkja gömul eins og við vitum. Menn hefðu sjálfsagt vel getað sætt sig við að það tæki einhvern tíma en lítið hefur gerst.

Svona er staðan í dag. En þá skiptir líka miklu máli að ekkert það sé gert sem kunni að verða viðbótarþröskuldar í vegi þeirrar þróunar sem menn hafa viljað sjá á þessum stöðum. Og það er það sem ég er að benda á og tel að eigi fullt erindi inn í þessa umræðu og annað væri í raun sérkennilegt ef það ætti ekki erindi hingað inn að ræða um aðstöðu og viðbúnað til þess að menn gætu uppfyllt þær kröfur sem þarna er verið að setja á okkur. Og það liggur fyrir í gögnum okkar að menn hafa verið að skoða, þó allt of lítið sé, þessa hluti.

Ríkislögreglustjóri lét gera úttekt á aðstöðu á flugvöllum og höfnum og Flugmálatjórn og Siglingastofnun hafa eitthvað haft það til skoðunar. En ég held því fram að það samstarf hafi verið allt of lítið og menn hafi í raun ekki tekið þá hluti alvarlega --- nema í Keflavík. Öll orkan hefur farið í að horfa til aðstöðunnar þar, allar fjárfestingaráætlanirnar eru þar og það er hlutur sem mér finnst ekki góður, herra forseti.