Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:55:30 (5575)

2000-03-21 21:55:30# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:55]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það mjög miður þegar umræður um mál, stórmál af þessu tagi sem Schengen-samningurinn er, fara að snúast um allt annað en fyrir Alþingi liggur. Það sem menn eru að ræða hér eru bara allt aðrir hlutir.

Ég furða mig á því ef menn halda virkilega að á varaflugvöllum þar sem flugvélar lenda vegna þess að ófært er um hríð að lenda á þeim aðalflugvelli þar sem fljúga á til, að þar fari fram tollskoðun. Hvers konar vitleysa er þetta? Það fer að sjálfsögðu ekki fram tollskoðun annars staðar en á áfangastað þeirra farþega sem eru með viðkomandi flugvél. (Gripið fram í: Að menn bíði bara á Akureyri?) Að menn bíði bara á Akureyri? Já. (Gripið fram í: Í flugvél.) Nei, nei, menn bíða --- það er óheimilt að losa farangur og frakt úr flugvélum annars staðar en á áfangastað. Hvers konar vitleysa er þetta, virðulegi forseti? Þetta vita menn sem vanir eru ferðalögum og oft hafa þurft að sæta því að lenda á varaflugvöllum vegna þess að flugvelli á áfangastað hefur verið lokað. Halda menn að farþegar hlaupi út úr millilandaflugvél á Egilsstöðum ef lent væri þar á varaflugvelli í staðinn fyrir Keflavík og færu bara niður á Fjörður? Ég undrast þetta, þetta kemur málinu náttúrlega ekki nokkurn skapaðan hlut við og það er alveg fráleitt að menn skuli standa í svona umræðum um þetta stærsta utanríkismál sem Alþingi fjallar um og vera með slíka röksemdafærslu. Ég frábið mér svo mikið sem að hlusta á svona hluti.