Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:01:47 (5578)

2000-03-21 22:01:47# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:01]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst aðallega ánægjulegt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skuli vera mættur hér til leiks og með þetta miklum krafti, bara nokkurn veginn kominn í sinn gamla ham þegar hann var nokkurn veginn óumdeildur Íslandsmeistari í útúrsnúningum og rangfærslum úr ræðustóli. Ekki var mikið um það deilt að þegar hv. þm. var í stuði væri hann eiginlega flestum öðrum fremri og var þó samkeppnin hörð í Vestfjarðakjördæmi stundum, þar sem hv. þm. var lengi í framboði. Auðvitað gat hv. þm. engu svarað hvað varðaði dæmi mín sem ég tók sem nægja að ég tel fyrir alla þá sem þekkja til málsins til að sýna fram á að það getur verið praktískur veruleiki sem menn standa þarna frammi fyrir. Hér var ósköp einfaldlega verið í lokin á langri umræðu, sem hefur að mínu mati verið málefnaleg og efnisleg þangað til núna áðan í einu stuttu andsvari frá þingmanni Vestfirðinga, farið út í það að ræða um stöðu ferðaþjónustu á landsbyggðinni í þessu samhengi og það á fullt erindi inn í umræðuna. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson má að sjálfsögðu gera lítið úr því að við hér, nokkrir þingmenn landsbyggðarinnar, höfum haft af því nokkrar áhyggjur að þarna kynnu að vera hlutir á ferð sem þyrfti að skoða út frá stöðu ferðaþjónustunnar og möguleikum hennar og þar með talið þeirra flugvalla á landsbyggðinni sem hafa helst verið taldir koma til greina í sambandi við millilandaflug. Það verður þá að vera hlutskipti þessa þingmanns Vestfirðinga í umræðunni að telja það alveg sérstaklega óviðeigandi að hafa áhyggjur af þeim hlutum að draga það inn í umræðuna. Ýmsu er maður svo sem vanur frá hv. þm.

En ég tel þó, herra forseti, satt best að segja, þó ég sé alltaf þakklátur fyrir uppfræðslu og leiðbeiningar, að ég verði að afþakka frekari tilburði af hálfu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar til að kenna mér lestur og skrift í þessum fræðum. Mér sýnist ég geti ekkert af honum lært.