Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:04:04 (5579)

2000-03-21 22:04:04# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:04]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist. Ég ætla að flytja bara örstutt mál um stöðu landsins í heild sinni varðandi Schengen-umræðuna. Það á auðvitað fullt erindi inn í umræðuna og hafi ég ekki verið sannfærður um það áður, þá er ég sannfærður um það núna, eftir útspil hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að það er aldeilis ástæða til að ræða þessi mál í þingsölum vegna þess að það er greinilega mjög mikil fáfræði í gangi. Bæði Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur, þó sérstaklega Akureyrarflugvöllur, eru áfangastaðir. Þangað kemur fólk frá útlöndum, t.d. frá Sviss, og fær tollskoðun. (SighB: Er það ekki hið besta mál?) Jú, en þú stilltir, hv. þm., málunum upp alltaf á þann hátt að þetta hafi verið transit-farþegar.

(Forseti (HBl): Það ber að segja háttvirtur þingmaður.)

Hv. þm. stillti málunum upp á þann hátt að þetta væru transit-vellir og það er allt annað dæmi. Þetta eru líka áfangastaðir. Málið í heildarsamhengi er þannig að ef við erum í þeirri stöðu vegna einhvers sem við höfum ekkert rætt í gegn að við erum að fara í milljarðafjárfestingu í aðstöðu, þá hlýtur það að hafa áhrif á það sem við erum að gera annars staðar í landinu, það gefur augaleið. Við höfum barist fyrir því um áraraðir að fá örfárra tugmilljóna fjárfestingar til lagfæringa á þessum völlum. Egilsstaðaflugvöllur hefur að vísu verið byggður upp á myndarlegan hátt, en eins og ég sagði áðan, og ég er tíður farþegi frá Akureyri, þar er stöðin fokheld. Sú aðstaða er alls ekki kláruð. Hvað halda menn að gerist eins og ég benti á í viðskiptaheiminum þegar verið er að athuga möguleikana á því að fá menn til þess að dreifa álaginu í ferðaþjónustunni inn á landið þegar menn einblína bara á þetta Schengen-hlið inn í landið? Það gefur svoleiðis augaleið. Hér í samanburði við fjárfestingar upp á nokkra tugi millj. á þessum póstum sem við erum að tala um, þá erum við að tala um fjárfestingar á næstu missirum og árum upp á milljarða. Viðskiptaheimurinn er nú bara þannig í dag að slíkar fjárfestingar eru leiðandi fyrir áhuga ferðaþjónustuaðila til afnota. Svo einfalt er það. Þess vegna á þetta sjónarmið fullt erindi inn í umræðuna vegna þess að ákvörðunin um fjárfestingarnar leiðir til þess að notkunin konsentrerast. Það er svo einfalt mál. Þetta vildi ég draga fram vegna þess að ég hef um áraraðir og árabil unnið í ferðaþjónustugeiranum og ég veit nákvæmlega hvar skóinn kreppir í þeim efnum. Það eru mörg ljón á veginum varðandi það að fá áhugasama þjónustuaðila til þess að fljúga inn á þessa tvo velli og m.a. þá eru það aðstöðumálin. Og þó að menn hafi tekið myndarlega á varðandi vellina sjálfa og tæknibúnaðinn og að vissu leyti húsakostinn eins og á Egilsstöðum, er hér um sáralitlar fjárfestingar í raun og veru að ræða. Ég árétta enn og aftur að Akureyrarflugvöllur er hálfkarað dæmi.