Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:11:20 (5582)

2000-03-21 22:11:20# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:11]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Nú þekki ég hv. þm. Steingrím J. Sigfússon aftur því nú kemur í ljós þegar upp er staðið hefur hann aldeilis ekki neinar áhyggjur af því þó að flugvélar með erlenda farþega þurfi að lenda á flugvöllum úti á landi. Þvert á móti fagnar hann því vegna þeirra áhrifa sem hann telur að það hafi. Þarna þekki ég hv. þm. aftur og mér finnst mjög ánægjulegt að heyra það. Áhyggjur hans yfir því að svo mundi fara voru bara hreinn misskilningur og hann er ekki þeirrar skoðunar þegar á reynir. Hins vegar er ég honum alveg sammála um það að það er náttúrlega nauðsynlegt að skipta út þessum tebollum eða mjaltakerfi á flugvellinum á Egilsstöðum eins og hann kallaði það. Það verður sjálfsagt gert af hæstv. ríkisstjórn án þess ég viti nokkuð um það. Svo getum við fagnað báðir, við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þegar flugvélar með erlendum farþegum lenda á þeim velli, tökum vel á móti þeim, þó ég geri mér ekki vonir um að þrjár vélar frá Ameríku lendi á einum og sama deginum á Egilsstaðafluvelli.