Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:12:46 (5583)

2000-03-21 22:12:46# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fer fram síðari umræða um þáltill. og þar með lokaumræða málsins. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það í hæsta máta vafasamt fyrir Alþingi að ljúka umræðu um þetta mikilvæga mál í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram við umræðuna. Hæstv. utanrrh. hefur staðfest að peningalegir þættir, fjárhagslegir þættir málsins, séu óljósir. Fram hefur komið að fyrirhugaðar framkvæmdir við Leifsstöð á næstu 15 árum munu nema 7--8 milljörðum kr., 7--8 þúsund milljónum króna. Á næstu missirum mun þessi kostnaður nema þremur og hálfum milljarði króna. Menn gera ráð fyrir að drjúgur hluti af þessu fjármagni sé til kominn vegna Schengen. Hæstv. utanrrh. sagði að menn giskuðu á 500--900 millj. bara í þessum fyrsta áfanga. Þetta væri byggt á ágiskunum. Hér hefur komið fram við umræðuna að tilkostnaður annars staðar á landinu er líka óljós --- puttinn upp í loftið. Þetta er gamla aðferðin sem hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, beitti á Perluna forðum daga. Nú ætla menn að hafa sama hátt á í þessu efni.

[22:15]

En það er annað sem fram hefur komið í þessari umræðu og það er hve mjög ríkisstjórnin og samherjar hennar --- við fengum hér ágætt dæmi um slíkan samherja, hv. þm. Sighvat Björgvinsson --- hve mjög þessir aðilar eru í vörn í þessu máli, bullandi vörn. Þeir standa frammi fyrir álitsgerðum frá ferðaþjónustunni, frá Ferðamálaráði, frá flugfélaginu og fjölmörgum aðilum sem til þekkja. Þeir standa frammi fyrir álitsgerðum frá heilbrigðisyfirvöldum, frá landlæknisembættinu, frá lögregluyfirvöldum og þeim sem vel til þekkja og lýsa áhyggjum yfir því að hér muni slakna á eftirliti með innflutning á eiturlyfjum til landsins. Gagnvart þessu stendur ríkisstjórnin núna og meiri hlutinn sem ætlar að reyna að knýja þetta í gegn. Hvaða röksemdum er beint á móti? Jú, við þurfum að bíða skemur í biðröðum þegar við komum á flugvelli í Evrópu. Ég minnist þess ekki sjálfur að hafa þurft að bíða neins staðar á flugvelli í Evrópu. (Gripið fram í: Ó, jú.) Slíkar biðraðir eru í Bandaríkjunum og víða annars staðar. (SJS: Þú ferðast nú ekki eins mikið og utanrrh.) Ég ferðast að vísu ekki eins mikið og hæstv. utanrrh. En í fullri alvöru, þá er þetta ekki það stóra vandamál sem Íslendingar standa frammi fyrir. Við erum hins vegar að ráðast hér í milljarða fjárfestingar og óhagræði sem er óumdeilt af hálfu þeirra sem þekkja til í ferðamálaiðnaðinum, og við stöndum frammi fyrir þessum varnaðarorðum frá heilbrigðisyfirvöldum og lögregluyfirvöldum einnig.

Hvað er það sem við fáum á móti? Hvernig er þetta rökstutt og hvernig er þetta réttlætt af hálfu ríkisstjórnarinnar? Með pólitík. Okkur er sagt að þetta snúist bara um pólitík því að með þessu móti bindumst við Evrópusambandinu fastari böndum. Hæstv. utanrrh. sagði fyrr við umræðuna að það væri rökrétt af hálfu þeirra sem á sínum tíma studdu samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði að styðja einnig Schengen, og það er rétt. Ég rakti það í máli mínu fyrr í dag hvernig Evrópa hefði verið að bindast fastari böndum og færast nær því takmarki sem Winston Churchill lýsti árið 1946, að stofnað yrði sambandsríki Evrópu. Ég rakti hvernig Rómarsáttmálinn kom til sögunnar árið 1957 og síðan koll af kolli, Maastricht og Amsterdam. Evran kemur til sögunnar og síðan fáum við þessa þáltill. sem segir hreint út að hér sé byggt á framhaldinu af Rómarsáttmálanum frá 1957. Þetta eru röksemdirnar sem við fáum fyrir því að færa þessar peningalegu fórnir og setja þessa bagga á ferðaiðnaðinn á Íslandi og torvelda yfirvöldum að fylgjast með smygli til landsins og reyna að koma í veg fyrir slíkt. Það eru pólitískar forsendur sem bornar eru á borðið.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka það að talsmenn Schengen-samkomulagsins hafa verið í bullandi vörn við þessa umræðu. Þeir hafa fengið stuðning frá pólitískum samherjum um Evrópusamrunann. Þess vegna kom hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hér í pontu áðan. Við höfðum ekki heyrt þær raddir fyrr í dag. En þegar menn fóru að gera sér grein fyrir því hve mjög hallaði á stjórnarmeirihlutann í þessu máli þá fóru menn úr þessum ranni að kveðja sér hljóðs. Hér hafa menn verið í bullandi vörn að verja milljarða sem á að setja í þennan samning og óumdeilt óhagræði, og menn verja það á pólitískum forsendum með því að Evrópa krefjist þess. Brussel krefst þess. Þetta eru röksemdirnar, hv. þm. Jón Kristjánsson, talsmaður Framsfl. (Gripið fram í: Ávarpa forseta en ekki þingmenn.)