Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:24:38 (5587)

2000-03-21 22:24:38# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem ég virði vissulega í Evrópusamstarfinu, samstarfi Evrópuríkja, og heimurinn lítur að mörgu leyti öðruvísi út og leit öðruvísi út á rústum stríðshrjáðrar Evrópu eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Það er margt sem ég skil út frá hagsmunum meginlandsbúa. En þannig eigum við líka að líta á málin. Við eigum að líta á málin út frá hagsmunum okkar Íslendinga og láta aðra um að líta á málin og skoða þau út frá hagsmunum meginlands Evrópu. Þeir eru bara ólíkir.