Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:42:35 (5590)

2000-03-21 22:42:35# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:42]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta fer nú allt eftir því hvernig á hlutina er litið. Mér er alveg ljóst að í Noregi háttar þannig til að þar hefur tvisvar verið borið undir þjóðaratkvæði að Norðmenn gerðust aðilar að Evrópusambandinu og fellt í bæði skiptin. Þessa sagnfræði kann ég.

Það sem ég var að vísa til um festu, þrátt fyrir þessa atburði sem voru auðvitað sviptingarsamir í Noregi, var sú staðreynd að þessi niðurstaða sem var þó mjög umdeild og um málið voru ákaflega skiptar skoðanir í Noregi svo flokksbönd riðluðust og tvær nokkuð jafnstórar fylkingar tókust á, þá náðu þó norskir stjórnmálamenn og norskir flokkar að sameinast um það í kjölfar niðurstöðunnar að nú gilti hún. Og nú væri það ekkert á dagskrá næstu tvö til þrjú kjörtímabilin að hrófla neitt við því, þjóðin hefði talað. Það kalla ég þó festu. Það var ekkert sjálfgefið. Menn hefðu auðvitað getað haldið áfram að baksast með málin eins og menn hafa gert sums staðar annars staðar. Danir hafa t.d. bara farið í það að semja um smábreytingar og reyna svo upp á nýtt og þannig hafa þeir stundum mjakað þessum hlutum áfram.

Á Íslandi hefur aldrei verið látið á það reyna í þjóðaratkvæði hvort menn vildu ganga inn í Evrópusambandið, það er alveg rétt. Málið hefur einmitt með þeim skilningi aldrei verið uppgert. Óljós umræða hefur mallað hér, legið niðri á köflum og kraumað undir og stundum komið upp. Það sem ég var að gagnrýna og ég tel ekki gefa okkur nægilega traustan eða fastan grundvöll til að gæta okkar hagsmuna á er í raun og veru þessi óljósa umræða, tvíbentu mótsagnakenndu skilaboð sem oft eru að berast.

Hvað á að lesa t.d. út úr yfirlýsingum formanns Framsfl. á undangengnum flokksþingum og í ræðum hans og skýrslum til Alþingis sl. tvö til þrjú ár, þar sem í nánast hvert einasta skipti er tekið pínulítið skref í viðbót, aðeins lengra í átt til þess að opna á mögulegar aðildarviðræður eða annað slíkt? Í því ljósi og í þeim samanburði get ég kallað dagskrártillögur Davíðs Oddssonar eða öllu heldur ekki dagskrártillögur um að málið sé ekki á dagskrá, ákveðna festu.