Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:56:48 (5594)

2000-03-21 22:56:48# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson telur að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hrósum sigri eftir umræðuna. Því fer fjarri. Við bentum hins vegar á að talsmenn Schengen-samningsins hefðu verið í bullandi vörn. Við lýstum áhyggjum yfir því að menn gætu ekki svarað einföldum spurningum um fjárhagslegar skuldbindingar sem fylgja Schengen-samkomulaginu og vitnuðum þar í ummæli hæstv. utanrrh.

Núna undir lok umræðunnar kemur raunar eina röksemdin sem ég hef heyrt frá hv. þm. Jóni Kristjánssyni fyrir því að við tökum á okkur þær skuldbindingar sem fylgja Schengen-samstarfinu, að þetta muni efla og auka straum ferðamanna til Íslands. Telur hv. þm. Jón Kristjánsson að menn velji sér land til að ferðast til eftir því hversu lengi þeir þurfi að standa í biðröðum til þess að komast inn í landið? Á hvern hátt rökstyður hann að Schengen-samkomulagið muni auka ferðamannastraum til Íslands? Fróðlegt væri að heyra skýringar hans á þessu.

En ég ítreka að á þessu máli eru ýmsir lausir endar. Menn hafa slegið fram getgátum, ágiskunum varðandi peningalegar hliðar. Talað er um framkvæmdir við Leifsstöð upp á sex til átta milljarða á næstu 15 árum, 3,5 milljarða á næstu missirum. Menn eru að slá á það út í loftið að Schengen-hlutinn af þeirri framkvæmd sé 500--900 miljónir.

Mér finnst áhyggjuefni hvernig þetta mál er afgreitt og að við skulum ekki fá nein haldgóð svör um þessi efni.