Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:05:17 (5598)

2000-03-21 23:05:17# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:05]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna varðandi það sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Hann ræddi um að þátttaka í Schengen væri ákveðið viðskiptatækifæri. Þegar ég kom að þessu máli fyrst sem fulltrúi í allshn. þá var það fyrsta sem ég heyrði um Schengen að þetta yrðu auknar álögur á ferðaþjónustuna. Þess vegna varð það mér undrunarefni, þegar ég fór síðan á fund ýmissa ferðamálafræðinga á Keflavíkurflugvelli í ferð með allshn. og utanrmn., að fulltrúar Flugleiða litu á aðild að Schengen sem viðskiptatækifæri. Þar er því ekki litið á þetta sem auknar álögur. Þeir litu á samninginn sem viðskiptatækifæri að geta markaðssett Ísland sem hlið að Evrópu. Ég vil biðja fólk um að hugleiða þann þátt málsins. Í stað þess að aðildinni fylgi álögur á ferðaþjónustuna er litið á þetta sem jákvæða þróun til að auka ferðaþjónustu á Íslandi.