Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:31:34 (5603)

2000-03-21 23:31:34# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ber mikið traust til íslensku lögreglunnar. Engu að síður tel ég að hún þurfi að hafa aðhald, ekki síst þegar henni eða ríkislögreglustjóra er falin ábyrgð á þessum upplýsingagrunni. Þar er kveðið á um að hægt sé að skrá einstaklinga inn í grunninn og vara aðrar þjóðir við honum ef hann er talinn ofbeldishneigður eða líklegur til að fremja skemmdarverk. En skemmdarverk er harla matskennt fyrirbæri og ég nefndi fund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Seattle sl. haust. Þar voru að margra dómi framin skemmdarverk, alvarleg skemmdarverk, en aðrir líta þessar mótmælaaðgerðir öðrum augum og telja þær lýðræðislegar í eðli sínu. Í þessu samhengi benti ég á mikilvægi þess að treysta stöðu tölvunefndar eða Persónuverndar til að hafa eftirlit með lögreglunni. Ég bendi á að tölvunefnd telur ekki nóg að gert í því efni. Þess vegna finnst mér mikilvægt að allshn. Alþingis taki þetta mál til endurskoðunar áður en frv. kemur til 3. umr.